Bændaskólinn - búfræðiEins og gefur að skilja starfa þeir sem ljúka tveggja ára námi í búfræði flestir við landbúnaðarstörf en einnig starfa margir innan stoð- og þjónustugreina landbúnaðarins.

Markmið búfræðináms er að auka þekkingu og færni einstaklingsins til að takast á við búrekstur og alhliða landbúnaðarstörf, ekki síst á sviði rekstrar, bútækni, jarð- og búfjárræktar.

Meðal þess sem fjallað er um í náminu er búfjárrækt, jarðvegs- og umhverfisfræði, nytjaskógrækt, búvélafræði og bókhald.

Möguleikar á sérhæfingu í náminu eru einkum á sviði nautgripa-, sauðfjár- og hrossaræktar. Á Hvanneyri er nýtt kennslufjós og nýleg fjárhús á Hesti. Þá er skólinn með frábæra aðstöðu til kennslu í hrossarækt og hestamennsku.

Hluti búfræðinámsins felst í námsdvöl á einu af tæplega 80 kennslubúum, sem LbhÍ er með samstarfssamning við. Þar dvelur nemandinn sem einn af fjölskyldunni í þrjá mánuði og tekur þátt í daglegum störfum heimilismanna.

Námið er góður undirbúningur til framhaldsnáms á sviði almennra náttúruvísinda, búvísinda og dýralækninga.

Boðið er upp á búfræðinám í fjarnámi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjá hér.

Í samræmi við lög um búnaðarfræðslu nr. 57 frá 1999 skal skipuleggja almennt búfræðinám sem tveggja ára nám á fjórum námsönnum. Auk þess er heimilt að bjóða viðbótarnám eina til tvær námsannir.

Inntökuskilyrði
A. Umsækjandi þarf að hafa náð 18 ára aldri.
B. Umsækjandi þarf að hafa lokið grunnskólaprófi og fullnægt lágmarkskröfum til inngöngu í framhaldsskóla eða aflað sér á annan hátt jafngildrar undirbúningsþekkingar að dómi rektors.
C. Auk grunnskólaprófs eða sambærilegrar menntunar skal umsækjandi hafa lokið a.m.k. einu námsári (36 einingum) í framhaldsskóla og eru eftirtaldar 15-17 einingar meðal þess sem æskilegt er að umsækjandi hafi lokið: Námstækni 101, Íslenska 102/103, Danska 102, Enska 102, Líffræði 102, Stærðfræði 102 /103, Bókfærsla 102/103, Skyndihjálp 101.
Heimilt er að víkja frá þessum reglum hafi umsækjandi náð 24 ára aldri og hafi auk þess mikla starfsreynslu í landbúnaði.
E. Umsækjandi hafi reynslu af landbúnaðarstörfum.

Sjá nánar hér: Starfsreglur starfsmenntanáms.
Umsókn um nám. Smella hér.