Landgræðsluskólanemar á ferð um landiðÁr hvert kemur hópur sérfræðingar frá löndum Afríku og Mið-Asíu í nám við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hýstur er af Landbúnaðarháskóla Íslands í samvinnu við Landgræðslu ríkisins. Nemarnir vinna að landgræðslu, sjálfbærri landnýtingu og tengdum umhverfismálum við háskóla, rannsóknastofnanir, ráðuneyti og héraðsstjórnir í sínum heimalöndum og fá tímabundið leyfi frá störfum til að sækja sér menntun við Landgræðsluskólann. 

Þessa vikuna eru nemarnir á ferð um Norður- og Vesturland til að kynna sér ýmis landgræðsluverkefni. Með því fá nemarnir tækifæri til að upplifa það sem þau hafa lært í fyrirlestrum fyrstu þrjá mánuði dvalar sinnar á Íslandi.

Námsferðin byrjaði á ferð norður Kjöl. Því næst var komið  við í Skagafirði þar sem héraðsfulltrúi Landgræðslunnar fræddi um hrossabeit og bakkavarnir. Dimmuborgir, Hólasandur og fleiri staðir við Mývatn voru heimsóttir en Landgræðsla ríkisins hefur unnið að uppgræðsluverkefnum á svæðinu. Einnig kynntist hópurinn starfi bænda sem unnið hafa gott landgræðslustarf á sínum jörðum.

Ferðinni lýkur í Reykjavík, þar sem Landgræðsluskólanemarnir ljúka dvöl sinni við starfstöð LbhÍ á Keldnaholti, eftir sumardvöl hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti. Útskrift hópsins fer fram 13. september næstkomandi.​


Hópurinn í ár er sá stærsti frá upphafi og aldrei hafa nemendur komið frá jafn mörgum löndum en alls eru þetta 14 manns frá átta löndum.
Að þessu sinni koma nemarnir frá Eþíópíu, Ghana, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Níger, Úganda og Úsbekistan.