Möðruvellir í HörgárdalStarfsstöð LbhÍ á Norðurlandi er á Möðruvöllum í mynni Hörgárdals um 14 km norðan við Akureyri. Möðruvellir hafa frá öndverðu verið höfuðból og þeir eiga veglegan sess í trúar-, stjórnmála-, mennta- og náttúrfræðisögu Íslands. Staðurinn liggur á miklum flata undir Staðarhnjúki í Möðruvallafjalli vestan við Hörgá og sést hann vel ef horft er í norðvestur af hringveginum við Ólafsfjarðarafleggjarann. Skrifstofur LbhÍ eru í Búgarði í húsnæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar á Akureyri, Óseyri 2, 603 Akureyri.

LbhÍ rekur jörðina á Möðruvöllum fyrir rannsóknastarfssemi í búvísindum. Rekstur jarðarinnar er í  samstarfi við Fasteignanefnd kirkjumálasjóðs þjóðkirkjunnar og nágrannabændur. LbhÍ er einnig einn af stofnendum Amtmannssetursins á Möðruvöllum sem á og rekur s.k. Leikhús á staðnum. Ræktað land er um 150 ha, þar af eru 60 ha engjatún sem liggja með bökkum Hörgár. Heimalönd og úthagar eru um 150 ha en jörðinni fylgir einnig mikið afréttaland fremst í Hörgárdal.

Í Eggertsfjósi eru tvær sérhæfðar rannsóknarstofur auk vigtunar- og þurrkaðstöðu, geymslu og verkstæðis. Í kalstofu er öll aðstaða til rannsókna á vetrarþoli plantna og smádýra (frost og/eða svellþol). Kalstofan er rekin í samstarfi við tilraunastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Í fræstofu er öll aðstaða til að gera prófanir á fræi og sáðvöru (fræspírun, frædvala, hreinleika). Til eru öll helstu tæki og vélar sem þarf til hefðbundinna jarðræktarrannsókna. Fjósið er leigt nágrannbændum fyrir geldneyti en þar er aðstaða til að vera með fóðrunar- og uppeldistilraunir á geldneytum.

Möðruvellir henta afar vel til vistfræðilegra rannsókna til dæmis á næringarefnahringrásum og margskonar umhverfisáhrifum af landbúnaði, en þar er hægt að vakta ýmsar mælingar samfellt yfir lengra tímabil. Aðstaða til jarðræktarrannsókna eru einnig sérlega góð. Styrkur Möðruvalla fyrir margskonar rannsóknir og/eða skipulagsverkefni nemenda og starfsmanna LbhÍ felst í landfræðilegri fjölbreytni og legu og síðast en ekki síst miklu magni upplýsinga sem til er um jörðina.