MS nám2 Meistaranám (MS, 120 ECTS)

2.1. Tilhögun meistaranáms
Heimilt er að sækja um meistaranám, MS, að lokinni BS gráðu eða kandídatsprófi. Námið er fólgið í námskeiðum og rannsóknarverkefni sem lýkur með samningu ritgerðar eða ritgerða og /eða annarra hugverka eftir því sem við á. Rannsóknarverkefnið getur ýmist verið 30, 60 eða 90 samræmdar einingar. Aðstoðarrektor rannsóknamála, sem jafnframt er umsjónarmaður rannsóknarnáms, fer með málefni meistaranema fyrir báðar deildir og fylgist með framvindu nemenda og rannsóknarverkefna allt frá mótun verkefnis til ritgerðarskrifa, lokaprófs og varnar.

Val og vinna við meistaraprófsverkefni er fyrst og fremst á ábyrgð nemanda. Fyrir einstaklingsmiðað MS nám ráðfærir nemandi sig við einn af kennurum skólans og vinnur að MS verkefninu undir stjórn eða umsjón hans. Nemanda er einnig heimilt að vinna að MS verkefni undir stjórn stundakennara (sbr. 2.8). Þessir aðilar gera með sér sérstakan samning um MS námið þar sem fram kemur lýsing og markmið rannsóknarverkefnis auk yfirlits yfir þau MS námskeið sem nemandi tekur sem hluta af MS námi sínu. Einnig skal gera grein fyrir hvernig fjármögnun rannsóknarverkefnis sé háttað feli það í sér rekstrarkostnað.

Umsóknarfrestur um meistaranám er að jafnaði 15. apríl og 15. október.

2.2. Meðferð umsókna
Umsóknum skal skilað til kennsluskrifstofu. Afgreiðslu umsókna sem berast fyrir 15. apríl vegna innritunar á haustmisseri skal vera lokið og þeim svarað fyrir 25. maí. Afgreiðslu umsókna sem berast fyrir 15. október vegna innritunar á vormisseri skal vera lokið og þeim svarað fyrir 15. nóvember.

Drög að námsáætlun, undirrituð af nemanda og leiðbeinanda, skal senda inn til kennsluskrifstofu þremur vikum fyrir upphaf fyrstu námsannar. Í námsáætlun skal taka fram helstu námskeið og hvenær og við hvaða stofnun þau verði tekin. Heimilt er að taka hluta meistaranáms við aðra háskóla ýmist hérlendis eða erlendis eftir því sem við á hverju sinni. Umsjónarmaður rannsóknarnáms sendir drög að námsáætlun til kennslunefndar til samþykkis og tilkynnir nemanda síðan skriflega niðurstöðu nefndarinnar.

Nemendur í rannsóknarnámi (60 eða 90 e verkefni) skulu skila inn til kennsluskrifstofu MS samningi með frágenginni námsáætlun og verkefnalýsingu fyrir lok fyrstu annar. Í MS námi, sem skipulagt er fyrir hóp nemenda með 30 e rannsóknaverkefni, skal samningur liggja fyrir eigi síðar en í lok fyrra námsárs MS námsins. Deildarforsetar, ásamt aðstoðarrektor kennslumála og umsjónarmanni rannsóknarnáms, fjalla um umsóknina og vísa henni síðan til deildarráða og kennslunefndar til formlegrar samþykktar. Synji kennslunefnd nemanda inngöngu skal hún rökstyðja niðurstöðu sína. Breytingar á námsáætlun eru háðar samþykki kennslunefndar.

2.3. Inntökuskilyrði
Til að geta innritast í nám til meistaraprófs þarf umsækjandi að greiða skrásetningargjöld og hafa lokið BS prófi frá Landbúnaðarháskóla Íslands eða sambærilegu námi sem deild viðurkennir með fyrstu einkunn hið minnsta. Heimilt er að víkja frá ákvæðum um ofangreinda lágmarkseinkunn mæli umsjónarkennari og kennslunefnd eindregið með því.

2.4. Einingafjöldi og tímalengd náms
Meistarapróf byggist að jafnaði á 120 námseiningum, og er námstími ekki skemmri en tvö ár. Heimilt er að gera ráð fyrir lengri námstíma en tveim árum enda sé það í samræmi við samþykkta námsáætlun. Hámarkstími til meistaragráðu skal ekki vera meiri en 50% umfram áætlaðan námstíma. Kennslunefnd er heimilt að veita undanþágur frá ákvæði um hámarksnámstíma. Við brautskráningu skal sýnt að nemi hafi verið skráður og greitt skrásetningargjald allan námstímann.

2.5. Samsetning náms
Meistaranám er byggt upp af 30, 60 eða 90 e rannsóknaverkefni og 90, 60 eða 30 e í námskeiðum, málstofum og lesnámskeiðum Nemi í meistaranámi má að hámarki taka 12 einingar í lesnámskeiðum með aðalleiðbeinanda sínum.

2.6. Tengsl meistara- og doktorsnáms
Ekki er heimilt að nota meistaraprófsritgerð aftur sem uppistöðu í doktorsritgerð.

2.7. Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi og einkunnakröfur
Gild námskeið í MS námi eru framhaldsnámskeið, sem sérstaklega eru merkt í kennsluskrá, ýmist sem sérstök MS námskeið eða BS/MS námskeið. Í BS/MS námskeiðum skólans eru lágmarkskröfur til einkunna einum heilum hærri til nemanda sem hyggst nýta viðkomandi námskeið til eininga í MS námi. Einnig er leyfilegt að nota allt að 20 staðlaðar námseiningar úr BS grunnnámskeiðum við Landbúnaðarháskóla Íslands eða aðra háskóla, sem hluta af meistaranámi. Skal nemi hafa náð einkunn 7 eða hærra til þess að fá slík námskeið viðurkennd sem hluta af MS námi.

2.8. Leiðbeinandi og ábyrgðarmaður
Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa aðalleiðbeinanda úr hópi fastra starfsmanna í viðkomandi grein við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Aðalleiðbeinandi leiðbeinir nemanda í rannsóknaverkefni og ber ábyrgð á að fjárhagsleg ábyrgð á rannsóknaverkefni sé vel skilgreind og ljós. Einnig skal tilgreina aðstoðarleiðbeinanda sem jafnframt á sæti í meistaraprófsnefnd, sbr. 2.10. Nema er einnig heimilt að hafa aðalleiðbeinanda, sem ekki er starfsmaður skólans, enda uppfylli hann þær kröfur sem gerðar eru í þessum reglum og reglum viðkomandi deildar. Í þeim tilfellum skal nemi einnig hafa ábyrgðarmann úr hópi fastra starfsmanna sem situr, ásamt aðalleiðbeinanda, í meistaraprófsnefnd.

Aðalleiðbeinandi skal ávallt vera lektor, dósent eða prófessor á viðkomandi sviði við Landbúnaðarháskóla Íslands, nema deild heimili annað fyrirkomulag. Ef hann kemur ekki úr framangreindum hópi þarf hann að hafa lokið a. m. k. meistaraprófi á fræðasviðinu til að leiðbeina meistaranema og vera viðurkenndur sérfræðingur á viðkomandi sviði.

Hlutverk leiðbeinenda er að leiðbeina nemanda með
1.    að afmarka og skilgreina rannsóknarverkefni, þ.e. markmið, rannsóknarspurningar og rannsóknaráætlun,
2.    gerð umsóknar um rannsóknarnám,
3.    aðferðir og öflun gagna,
4.    framsetningu á niðurstöðum og úrvinnslu gagna,
5.    heimildaleit og ritgerðaskrif,
6.    framsetningu og kynningu efnis á málstofum.

2.9. Meistaraprófsnefndir og prófdómarar
Meistaraprófsnefnd skal skipuð minnst tveimur sérfróðum mönnum og er annar þeirra aðalleiðbeinandinn og hinn ýmist aðstoðarleiðbeinandi eða ábyrgðarmaður innan skólans eftir því sem við á. Heimilt er að skipa þriðja manninn í nefndina, t.d. ef verkefnið snertir fleiri en eina deild. Deild skipar meistaraprófsnefndina. Hlutverk hennar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun, tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar og sjá um próf sem neminn gengst undir ef við á. Meistaraprófsnefnd fundar með nemanda a.m.k. einu sinni á ári og ritar leiðbeinandi fundargerð og sendir til umsjónarmanns rannsóknarnáms og meistaranemans, þar sem fram kemur framvinda og staða verkefnis miðað við áætlun. Deild tilnefnir prófdómara sem kennslurektor skipar, en prófdómari ásamt meistaraprófsnefnd metur lokaverkefni. Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats meistaraprófsnefndar staðfest námsferilsyfirlit nemans. Meistaranemi getur skotið ágreiningi við meistaraprófsnefnd til kennslunefndar. Meistaranemi getur skotið ágreiningi við kennslunefnd til rektors.

2.10. Skil og frágangur MS ritgerða
Um frágang ritgerða gilda nánari fyrirmæli frá kennsluskrifstofu og skilafrestur lokaverkefnis skal vera í samræmi við tilgreinda dagsetningu í námsáætlun. Í fyrirmælum skal jafnframt kveðið á um fjölda eintaka lokaverkefnis, og skil til bókasafns Landbúnaðarháskólans og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Koma skal skýrt fram, að verkefnið sé unnið við Landbúnaðarháskóla Íslands, leiðbeinendur og deild og rannsóknarstofnun, ef við á, og geta skal þeirra sjóða sem styrkt hafa verkefnið.

Ritgerð til meistaraprófs skal lögð fyrir umsjónarmann rannsóknarnáms til yfirlesturs og samþykkis áður en hún er send til prófdómara, andmælenda eða vörn auglýst. Ef vafi leikur á að ritgerðin standist faglegar kröfur að mati umsjónarmanns, skal ritgerðin borin undir deildarráð sem ákveður hvort og þá að hve miklu leyti hún þarfnist endurskoðunar.

2.11 Varnir til meistaraprófs
Meistaraprófsvarnir eru lokaðar og fara fram að viðstaddri meistaraprófsnefnd, prófdómara og nemanda, auk umsjónarmanns rannsóknarnáms eða annars fulltrúa skólans. Prófdómari leggur þar spurningar fyrir nemanda úr efni ritgerðar, og kemur með ábendingar um breytingar eða lagfæringar á ritgerð, sé þess þörf. Prófdómari gefur einkunn fyrir ritgerð og svör nemandans í samráði við meistaraprófsnefnd. Eftir að lagfæringar hafa verið gerðar á ritgerð, heldur nemandi opinn fyrirlestur. Fyrirlesturinn skal fara fram að öllu jöfnu innan fjögurra vikna eftir vörn og auglýstur með minnst viku fyrirvara, þar sem nemandi kynnir efni ritgerðar, og þar leggur prófdómari aftur spurningar fyrir nemanda. Öðrum viðstöddum er einnig heimilt að spyrja nemanda eftir að prófdómari hefur lokið sínum spurningum. Lokaeinkunn er ákveðin að lokinni kynningunni, þar sem tekið er mið af fyrri ritgerðareinkunn, en einnig af lagfæringum á ritgerð, svörum nemanda og frammistöðu við kynningu verkefnis.

Afgreitt í kennslunefnd 7. október og staðfest af háskólaráði 28. október 2010