Nýtt rit LbhÍ: Uppgræðsla með innlendum gróðriÚt er komið rit LbhÍ nr 81:  Uppgræðsla með innlendum gróðri. Höfundur er Járngerður Grétarsdóttir, lektor hjá LbhÍ.

Ritið er lokaskýrsla til Náttúruverndarsjóðs Pálma Jónssonar sem styrkti verkefnið árið 2015.

Sífellt aukin áhugi er á að nota náttúrulegan gróður við uppgræðslu lands eftir ýmiskonar jarðrask en þá er spurningin til hvaða aðgerða má grípa til þess.  Markmiðið með verkefninu var að athuga hvort hægt væri að magndreifa tegundum úr íslensku flórunni með aðferð sem kalla má söfnun og dreifingu fræslægju.  Fræslægjuaðferðin felst í að safna fræjum, mosabútum o.þ.h. með því að slá jurtkenndan gróður að hausti og dreifa ferskri slægjunni á raskað svæði.  Með slægjudreifingunni verður margföldun á fræmagni og mosabútum, miðað við sjálfuppgræðslu, og vegna gróðurmassans fjúka og skolast fræin og bútarnir ekki af jarðvegsyfirborðinu. 

Í verkefninu var slægjuaðferðin prófuð á þremur stöðum; á Keldnaholti-Korpu í útjaðri Reykjavíkur, í Gunnarholti og í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.  Settir voru út tilraunareitir og aðferðin prófuð fyrir nokkrar markmiðstegundir og fræslægju safnað og dreift í september og byrjun október 2015 og gerðar gróðurmælingar ári seinna.

Meginniðurstaða tilraunarinnar er sú að það virðist vera hægt að magndreifa ákveðnum tegundum úr íslensku flórunni á fremur fljótvirkan og einfaldan hátt með aðferðinni og tækjakosti sem víða er í notkun.  Aðferðin var misáhrifamikil eftir tegundum og virkaði best fyrir ilmreyr, gulmöðru, lokasjóð, kattartungu, blávingul, vallhæru, hvítmöðru, geldingarhnapp, skarifífil, túnvingul og língresi.  Þessar tegundir fundust í miklu magni í slægjureitum en í litlu eða engu magni í viðmiðunarreitum.  Afraksturinn var þó misjafn eftir stöðum, níu tegundir dreifðust vel með fræslægju á Keldnaholti-Korpu en fjórar í Gunnarsholti og mjög lítið landnám var í vegkanti í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og slægjan lítið niðurbrotin.  Árangur fer því bæði eftir tegundum og einnig eftir aðstæðum, s.s. jarðvegsgerð og næringarástandi, veðurfarslegum aðstæðum og fræþroska á hverjum stað.

Árangur af tilrauninni á Korpu, í Gunnarsholti og í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli var metin einu ári eftir fræslægjudreifinguna.  Það er því ekki orðið ljóst hvernig tegundunum reiðir af við þær aðstæður sem þeim var sáð þegar lengra líður frá.  Ákjósanleg næstu skref eru að kanna hvort hægt sé að dreifa fleiri tegundum úr íslensku flórunni með aðferðinni og einnig að kanna í hvers konar landi og raski hægt sé að beita aðferðinni til að endurheimta gróður.