Reglur um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna við Landbúnaðarháskóla ÍslandsReglur um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna við Landbúnaðarháskóla Íslands

 

1. gr. Gildissvið.
Reglur þessar gilda um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna, þ.e. lektora, dósenta og prófessora, við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ). Reglur þessar gilda ekki um ráðningar aðjúnkta og stundakennara, en rektor ræður þá án hæfisdóms dómnefndar.
Í samningum sem LbhÍ gerir við rannsóknastofnanir er heimilt að kveða á um að starfsmenn samstarfsstofnana, sem hafa kennsluskyldu við skólann en gegna rannsóknaskyldu sinni við samstarfsstofnun, eigi rétt á, eða sé skylt, að dómnefnd meti hæfi þeirra til að gegna þar gestastöðu lektors-, dósents- eða prófessors.

 

2. gr. Gildandi lög og reglur um ráðningar, framgang og hæfismat.
Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, lög um háskóla nr. 63/2006 og lög um búnaðarfræðslu nr. 57/1999 með síðari breytingum gilda um starfsmenn LbhÍ. Varðandi kennara og ráðningu þeirra og dómnefnd og störf hennar er vísað sérstaklega í 17 og 18 gr. laga nr. 63/2006, 26. og 27. gr. laga nr. 57/1999 og gildandi starfsreglur LbhÍ.

3. gr. Ákvörðun um ráðningu.

Rektor veitir akademísk störf við háskólann og framgang akademískra starfsmanna. Engan má ráða í akademískt starf án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið hann uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi. Lágmarksskilyrðin eru skilgreind í 12. gr. reglna þessara. Hafi umsækjandi á síðustu fimm árum verið af dómnefnd talinn uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna sambærilegu starfi er rektor heimilt að víkja frá kröfu um dómnefndarálit.

4. gr. Hlutastörf.
Heimilt er að ráða akademíska starfsmenn í hlutastarf.
Um ráðningar í hlutastörf gilda sömu reglur og ráðningar í fullt starf nema annað leiði af lögum eða reglum þessum.

 

5. gr. Starfsskyldur
Starfsskylda kennara við háskólann skiptist í þrjá meginþætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun. Deildarforseti ákveður hvernig starfsskyldur einstakra kennara skiptast og hann ákveður enn fremur til hvaða starfa við kennslu og stjórnun kennara er vísað.

6. gr. Rannsóknamisseri
Rektor er heimilt, að fenginni umsögn deildarforseta, að veita kennara undanþágu frá kennslu- og stjórnunarskyldu í eitt til tvö misseri í senn, til þess að gera honum kleift að verja þeim hluta vinnutíma síns til rannsóknastarfa í samræmi við reglur sem háskólaráð setur um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Kennslu- og stjórnunarskylda á starfstíma kennarans, að meðtöldum þeim tíma sem hann nýtur undanþágu frá kennslu- og stjórnunarskyldu, skal þó eigi vera lægri en 50% af heildarvinnutíma hans. Framangreind undanþága er einungis veitt hafi kennari staðið fullnægjandi skil á kennslu- og rannsóknaskýrslu og náð tilteknu lágmarki stiga í samræmi við ákvæði reglna sem háskólaráð setur, sbr. 1. málsl.
Í umboði rektors er deildarforseta heimilt að veita kennara leyfi frá störfum á kennslutíma í allt að þrjár vikur, svo kennari geti farið utan til að taka þátt í ráðstefnu eða sinna öðrum störfum, enda sé sýnt að leyfisveitingin bitni ekki á kennslu hans. Sé óskað lengra leyfis tekur forseti ákvörðun um það og sendir rektor erindið ásamt umsögn sinni um það af hverju leyfið er veitt.

7. gr. Skilgreining starfs
Deild gerir tillögu um skilgreiningu starfs í samræmi við stefnu deildar og háskólans. Þetta verkefni er falið deildarráði eða valnefnd deildar í umboði þess. Skilgreining starfs skal ganga út frá einu tilteknu starfsheiti skv. 1. gr. og skal liggja fyrir áður en starf er auglýst. Skýrt þarf að koma fram í auglýsingu hvaða hæfniskröfur farið er fram á að umsækjendur um starfið uppfylli, m.a. með tilliti til fræðasviðs og prófgráða. Í auglýsingu skal koma fram á hvaða sviði starfið á að vera. Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði, nema að deild telji að því verði ekki við komið.
Starfsmaður er ráðinn til tiltekinnar deildar. Rektor og deildarforseta er heimilt að breyta skilgreiningu starfsins í krafti stjórnunarheimilda.

8. gr. Auglýsing.
Laus störf akademískra starfsmanna eru auglýst á starfatorgi fjármálaráðuneytis.
Að jafnaði skal starf auglýst þannig að umsóknarfrestur sé fjórar vikur frá birtingu auglýsingar.
Til þess að tryggja að háskólinn eigi völ á sem hæfustum starfskröftum skal auglýsa laus störf á alþjóðlegum vettvangi og í innlendum dagblöðum eftir því sem ástæða er til. Launafulltrúi skal annast allar auglýsingar bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Allar upplýsingar um laus störf hjá háskólanum skulu vera aðgengilegar á vef háskólans.

9. gr. Undantekningar frá auglýsingaskyldu.
Ekki er skylt að auglýsa starf, ef um er að ræða tímabundna ráðningu til afleysinga til tólf mánaða eða skemur, eða ef um er að ræða hlutastarf, þannig að starfið telst ekki vera aðalstarf í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ef ráðið er til afleysinga til tólf mánaða eða skemur er ekki heimilt að framlengja ráðninguna án auglýsingar í samræmi við reglur þessar.

 

Starf er ekki auglýst þegar um er að ræða framgang samkvæmt ákvæðum laga um opinbera háskóla eða reglna þessara, sbr. 16. gr.

 

Þá er heimilt að undanþiggja auglýsingu störf sem byggja á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsóknatengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglna þessara.

 

10. gr. Umsóknir og meðferð þeirra.

 

Umsóknir um starf skulu berast launafulltrúa. Æskilegt er að umsókn og umsóknargögn séu á rafrænu formi. Að umsóknarfresti liðunum staðfestir launafulltrúi móttöku umsókna með bréfi til umsækjenda. Eftir að umsóknarfresti um starf lýkur eru öll nöfn umsækjenda opinber.

 

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið, s.s. þróunarverkefni, listaverk og hönnunarverk, og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur.

 

Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á.

 

11. gr. Skipan og málsmeðferð dómnefndar vegna nýráðninga og framgangs

 

Við LbhÍ starfar þriggja manna dómnefnd, sem rektor skipar skv. 27 gr. laga nr. 57/1999 og í samræmi við 18 gr. laga nr. 63/2006, til tveggja ára í senn, til þess að meta hvort umsækjendur uppfylli lágmarksskilyrði sem sett eru um það starfsheiti sem á við samkvæmt ákvæðum 16. gr. reglna þessara. Rektor getur í samráði við deildarforseta og formann dómnefndar tilnefnt sérfróðan aðila á fræðasviði umsækjenda er skal vera dómnefnd til ráðgjafar þegar fræðistörf umsækjenda eru metin. Við sérstakar aðstæður er heimilt að skipa fleiri en einn slíkan ráðgjafa. Dómnefnd fjallar bæði um nýráðningar og framgang.

 

Dómnefnd skal meta hvern umsækjanda á þann veg að ótvírætt komi fram hvort hún dæmir hann hæfan eða ekki hæfan til að gegna því starfi sem um ræðir. Hún metur hvort menntun og aðrar forsendur umsækjanda falli með eðlilegum hætti innan þess sviðs sem auglýsing kveður á um. Í áliti dómnefndar skal koma fram rökstuðningur fyrir dómi hennar um hæfi umsækjanda og auk þess þær upplýsingar sem dómnefnd telur leiðbeinandi fyrir rektor við endanlega ákvörðun um ráðningu eða framgang. Ef ágreiningur er í dómnefnd skulu greidd atkvæði sérstaklega um hvern umsækjanda og ber hverjum dómnefndarmanni þá að taka afstöðu. Minnihluta gefst kostur á að gera grein fyrir máli sínu með séráliti. Teljist umsækjandi ekki hæfur ber dómnefnd að gera rækilega grein fyrir þeirri niðurstöðu, en að öðru leyti þarf umfjöllun ekki að vera eins ítarleg og um þá sem teljast hæfir.

 

Í upphafi dómnefndarálits skal dómnefnd gera grein fyrir þeim forsendum, gögnum og heimildum sem hún byggir á í mati sínu á umsækjendum og vinnubrögðum sínum við mat á umsækjendum. Í dómnefndaráliti skal vera ritaskrá/verkaskrá umsækjenda sem þeir hafa látið fylgja umsókn sinni og greinargerð um námsferil þeirra og fyrri störf. Dómnefnd er heimilt að óska eftir því við umsækjendur að þeir láti í té viðbótargögn. Í þessu efni skal nefndin láta umsækjendur njóta jafnræðis.

 

Dómnefnd skal hraða störfum sínum eftir föngum og skal hún að jafnaði hafa lokið störfum innan tveggja mánaða. Að loknu starfi dómnefndar skal hún skila umsóknargögnum til launafulltrúa, sem skilar þeim til umsækjenda, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna þessara.

 

12. gr. Mat dómnefndar á umsækjendum við nýráðningu.

Þeir sem hljóta akademískt starf við háskólann skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði. Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði, nema að deild telji að því verði ekki við komið.

Í dómnefndaráliti skal rökstutt hvort ráða megi af ritum og rannsóknum umsækjanda svo og af námsferli hans og störfum, að hann uppfylli lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi á hlutaðeigandi fræðasviði, sbr. 1. mgr. og skilyrði sem tilgreind eru í auglýsingu. Sá sem uppfyllir fyrrnefnd lágmarksskilyrði telst hæfur til þess að gegna starfinu.

Dómnefnd er heimilt að styðjast við eldri dómnefndarálit um umsækjanda að því tilskildu að þau séu ekki eldri en fimm ára gömul. Ef vitnað er til eldra dómnefndarálits ber að birta þá tilvitnun í dómnefndarálitinu og skal dómnefnd taka rökstudda afstöðu til þess sem þar greinir.

Að teknu tilliti til menntunar skal mat byggjast á eftirfarandi starfsþáttum: rannsóknum, kennslu og stjórnun.

Dómnefnd skal m.a. byggja mat sitt á umsækjanda á Matskerfi opinberra háskóla. Þá ber dómnefndinni að taka mið af skilgreiningu á því starfi sem auglýst hefur verið.

Ef umsækjandi uppfyllir augljóslega lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi, t.d. ef fyrir liggur eldra dómnefndarálit eða annað mat sem dómnefnd telur fullnægjandi þarf dómnefnd ekki að framkvæma nánara mat hvað hann varðar. Að öðru leyti skulu eftirfarandi sjónarmið lögð til grundvallar við matið:

 1. Við mat á rannsóknum skal leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Við það mat ber að athuga frumleika rannsóknarverkefna og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og ritverkum, þekkingu á stöðu rannsókna á viðkomandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð, fræðilegar nýjungar og eftir atvikum notagildi rannsókna. Kennslurit og önnur hugverk geta haft vísindagildi að því marki sem þau uppfylla þessar kröfur. Í fyrsta lagi skulu metin rit, bækur og ritgerðir, sem hafa verið gefin út eða samþykkt til birtingar í viðurkenndum tímaritum, innlendum eða erlendum, og hlotið hafa faglegt mat. Í öðru lagi er höfð hliðsjón af álitsgerðum og áfangaskýrslum sem umsækjandi hefur sent frá sér í frágenginni mynd. Í þriðja lagi er heimilt að taka tillit til verka í vinnslu.
 2. Við mat á kennsluframlagi ber öðru fremur að athuga hversu mikla alúð umsækjandi hefur lagt við kennslustörf sín, svo sem við samningu kennsluefnis og leiðbeininga, fjölbreytni og nýjungar í kennsluaðferðum. Eins skal líta til frumkvæðis í uppbyggingu og endurbótum á tilhögun kennslu viðleitni til að hvetja nemendur til sjálfstæðra og fræðilegra vinnubragða.
 3. Við mat á umsækjendum um auglýst störf eða önnur ný störf skal höfð hliðsjón af ákvæðum 18. gr. reglna þessara varðandi mat á rannsóknum, kennslu og öðrum starfsþáttum. Ekki skal þó gerð krafa um lágmarksstig fyrir kennslu. Þá er dómnefnd heimilt að hafa til hliðsjónar þau gögn sem kunna að vera til um umsækjendur í vörslu háskólans og snerta starfshæfni og vinnuframlag
 4. Meta skal stjórnunarreynslu jafnt innan háskóla sem utan.
 5. Dómnefnd er auk þess heimilt að líta til annarrar starfsreynslu umsækjenda sem telja má að nýst geti við það starf sem sótt er um.

Þegar um umsókn um framgang er að ræða skal dómnefnd afla umsagna tveggja til þriggja viðurkenndra utanaðkomandi sérfræðinga á fræðasviði umsækjandans, sem fylgja skulu umsögn til framgangsnefndar, nema nefndin telji að umsækjandi uppfylli ekki lágmarksskilyrði skv. 18. gr. Dómnefnd er heimilt að leita út fyrir þann hóp utanaðkomandi sérfræðinga sem umsækjandi nefnir í umsókn sinni, sbr. 3. mgr. 17. gr. Tilkynna skal umsækjanda og viðkomandi deildarforseta hvaða sérfræðingar muni veita álit. Dómnefnd er heimilt að óska eftir upplýsingum um mat á fyrri störfum umsækjanda frá stjórnsýslu háskólans.

 

13. gr. Um meðferð dómnefndarálits og afgreiðslu máls vegna nýráðninga

 

Dómnefnd ber að senda rektor álit sitt dagsett og undirritað af öllum dómnefndarmönnum, ásamt ferils- og ritaskrá. Um leið og dómnefnd sendir drög að dómnefndaráliti skulu öll umsóknargögn ganga til valnefndar.

 

Telji rektor að drög dómnefndarálits séu ekki í samræmi við lög, eða að málsmeðferð dómnefndar samrýmist ekki lögum ber honum að senda álitið aftur til dómnefndar og skal hún þá bæta úr þeim ágöllum. Í bréfi til dómnefndar skal greina frá því að hvaða leyti störfum nefndarinnar er ábótavant. Sendi rektor dómnefndarálit aftur til nefndar ber að tilkynna það umsækjendum.

 

Senda skal hverjum umsækjanda dómnefndarálitið í heild. Gefa skal umsækjendum kost á að gera skriflegar athugasemdir við álitið áður en það er sent valnefnd deildar til meðferðar. Umsækjendur hafa 7 daga frest til að gera athugasemdir. Telji rektor athugasemdirnar gefa tilefni til er heimilt að bera þær eða hluta þeirra undir dómnefnd og einnig að óska eftir nánari skýringum á ákveðnum atriðum. Athugasemdir umsækjenda og eftir atvikum fyrirspurn rektors og svar dómnefndar skulu fylgja áliti nefndarinnar þegar það er sent til valnefndar deildar.

 

Dragi umsækjandi umsókn sína til baka, áður en dómnefndarálitið er sent til valnefndar, á hann rétt á að ekki verði fjallað um hann í áliti dómnefndar, enda fari hann fram á það með skriflegum hætti. Eftir framangreint tímamark verður dómnefndaráliti ekki breytt af þessu tilefni. Þegar dómnefndarálit hefur verið sent til valnefndar telst það endanlegt og fullfrágengið.

 

14. gr. Skipan valnefnda vegna nýráðninga

 

Í hvorri deild skal starfa valnefnd, skipuð af rektor. Hlutverk valnefndar er að fara yfir umsóknir um akademísk störf við deildina og veita rektor umsögn um umsækjendur áður en tekin er ákvörðun um ráðningu.

 

Í valnefnd deildar skulu sitja þrír menn. Í valnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla, nema því verði ekki við komið. Æskilegt er að meirihluti valnefndar hafi hæfi prófessors. Skipan valnefndar er eftirfarandi:

 

Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.

Einn fulltrúi tilnefndur af deild og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

Einn fulltrúi tilnefndur af rektor.

 

15. gr. Málsmeðferð valnefnda

 

Valnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga á hlutaðeigandi fræðasviði.

 

Valnefnd getur ákveðið að umfjöllun takmarkist við þá umsækjendur sem best eru taldir uppfylla þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu starfsins. Tilkynna skal umsækjendum um þessa ákvörðun og veita rökstuðning fyrir henni sé eftir því leitað.

 

Valnefnd skal að jafnaði boða þá umsækjendur til viðtals sem valið stendur á milli. Að öllu jöfnu skal valnefnd bjóða umsækjendum sem til greina koma að halda fyrirlestur.

 

Í umsögn valnefndar skal felast niðurstaða hennar um það hver úr þeim hópi sem dómnefnd telur að uppfylli lágmarksskilyrði teljist best til þess fallinn að gegna starfinu á grundvelli heildarmats á þeim þáttum sem liggja til grundvallar ráðningu í starfið.

 

Við val á hæfasta umsækjandanum skal höfð hliðsjón af stefnu deildar og uppbyggingu sem tengist umræddu starfi. Auk þess skal byggt á sjónarmiðum sem fram koma í 8. gr. og 15. gr. Valnefnd er heimilt í mati sínu að taka tillit til þess hversu líklegur umsækjandi er, út frá ferli hans, til að stuðla að þeim markmiðum sem deild hefur sett sér. Þá skal valið byggjast á frammistöðu í viðtali og fyrirlestri, ef ákveðið hefur verið að nýta það fyrirkomulag við gagnaöflun.

 

Formaður valnefndar sendir rektor rökstudda umsögn valnefndar. Umsögnin skal send innan 30 daga frá því að gögn bárust valnefnd frá dómnefnd. Valnefnd er einungis skylt að rökstyðja val sitt á hæfasta umsækjandanum. Valnefnd getur lagt til að ekki skuli ráðið í starfið.

 

Háskólaráð getur sett valnefndum nánari verklagsreglur.

 

16. gr. Framgangur akademískra starfsmanna.

 

Lektor eða dósent getur óskað eftir framgangi í starfi. Rektor getur, án auglýsingar, flutt lektor í dósentsstarf og dósent í prófessorsstarf, enda liggi fyrir hæfnisdómur dómnefndar samkvæmt ákvæðum reglna þessara.

 

Heimilt er að flytja lektor í starf prófessors, enda uppfylli viðkomandi lágmarksskilyrði til að gegna starfinu að mati dómnefndar samkvæmt reglum þessum.

 

Rektor er heimilt að veita framgang strax við nýráðningu ef viðkomandi starfsmaður uppfyllir þau skilyrði sem tilgreind eru í 12. gr. reglna þessara, enda liggi fyrir dómnefndarálit sem staðfesti það.

 

Markmið framgangskerfis LbhÍ er að hvetja akademíska starfsmenn til virkni og árangurs í starfi og auka þannig gæði kennslu og rannsókna innan skólans. Framgangur byggist á faglegu mati á frammistöðu og árangri í rannsóknum, kennslu og stjórnun í þágu LbhÍ.

 

17. gr. Umsóknarfrestur og umsóknir um framgang.

Sækja skal um framgang til deildarforseta háskóladeildar fyrir 1. nóvember ár hvert. Framgangur samkvæmt reglum þessum tekur gildi við upphaf nýs háskólaárs 1. júlí.

 

Áður en umsókn um framgang er lögð fram ber viðkomandi starfsmanni að leita eftir forkönnun á stigum hjá rannsóknasviði háskólans. Beiðni um slíka forkönnun skal berast rannsóknasviði fyrir 1. október ár hvert. Rannsóknasvið skal leita eftir samráði við Vísindasvið Háskóla Íslands um gerð forkönnunar. Þegar forkönnun liggur fyrir tekur viðkomandi starfsmaður sjálfur ákvörðun um það hvort hann leggur fram umsókn um framgang. Deildarforseti getur einnig óskað eftir því að rannsóknasvið kanni fjölda stiga einstakra starfsmanna sem viðkomandi forseti vill hvetja til að sækja um framgang.

 

Umsókn um framgang skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til umsókna um laus störf skv. 11. gr. reglna þessara. Umsókn um framgang í starf dósents og prófessors skal auk þess fylgja kennsluferilskrá umsækjanda. Í umsókninni skal umsækjandi gera grein fyrir þeim verkum sínum á sviði rannsókna, kennslu, stjórnunar og þjónustu sem hann telur veigamest með tilliti til umsóknar sinnar um framgang. Umsækjandi skal einnig nefna a.m.k. fjóra utanaðkomandi sérfræðinga sem geta veitt umsögn um verk hans, sbr. 12. gr. reglna þessara. Sérfræðingarnir skulu vera viðurkenndir vísindamenn á sínu sviði og starfa utan Landbúnaðarháskóla Íslands. Umsókn skal vera bæði á íslensku og ensku.

 

Rektor beinir umsókn um framgang til dómnefndar innan tveggja vikna frá lokum umsóknarfrests. Deildarforseta er heimilt að leggja fram greinargerð með umsókn starfsmanns um framgang.

 

18. gr. Mat á umsóknum um framgang.

Til að teljast uppfylla lágmarksskilyrði sbr. 2. mgr. 12. gr. þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Hafa fengið tiltekinn lágmarksfjölda stiga fyrir rannsóknir og kennslu sem tilgreind eru í töflum 1-2 í þessari grein. Auk krafna um lágmarksfjölda rannsóknastiga, skv. töflu 1 og 2, er gerð krafa um lágmarks fjölda rannsóknastiga úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. töflu 3. Þessir flokkar eru:
  1. A2 (bækur), þó ekki A2.4 og A2.5.
  2. A3 (bókakaflar), þó ekki A3.4.
  3. A4 (tímaritsgreinar), að undanskildum flokknum A4.4.
  4. A5.1 (greinar í alþjóðlegum ráðstefnuritum).
 2. Hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Umsækjandi um framgang í starf dósents eða prófessors skal hafa doktorspróf eða jafngildi þess nema aðstæður á viðkomandi fræðasviði séu þannig að ekki sé unnt að koma því við.

Við mat á því hvort mæla eigi með framgangi skal litið til árangurs og virkni umsækjanda í starfi sínu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Við mat á árangri og virkni skal tekið mið af eftirfarandi sjónarmiðum:

 1. Rannsóknir. Metinn er fjöldi rannsóknarstiga sem umsækjandi hefur áunnið sér. Hafi umsækjandi sýnt fram á getu sína til að afla styrkja til rannsóknaverkefna úr viðurkenndum rannsóknasjóðum styrkir það umsókn um framgang. Við framgang í prófessorsstarf eða í starf vísindamanns er gerð krafa um að umsækjendur hafi sýnt fram á verulega hæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vísindastörfum. Enn fremur styrkir reynsla og virkni í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi umsókn um framgang.
 2. Kennsla. Lagt er mat á kennsluferilskrá umsækjanda, svo sem kennslureynslu, nýsköpun í kennslu, kennsluhætti og þróun kennsluefnis. Við framgang í dósentsstarf er gerð krafa um reynslu af leiðbeiningu á meistarastigi. Við framgang í starf prófessors er enn fremur gerð krafa um að umsækjandi hafi verið aðalleiðbeinandi í meistara- eða doktorsnámi. Framangreind krafa um leiðbeiningarreynslu er miðuð við að boðið sé upp á nám til meistara- og/eða doktorsnáms í kennslugrein umsækjanda.
 3. Stjórnun. Þátttaka í stjórnun innan Landbúnaðarháskóla Íslands.
 4. Þjónusta - tengsl við atvinnu- og þjóðlíf. Virk tengsl umsækjanda við atvinnu- og þjóðlíf í krafti sérþekkingar sinnar og í þágu hlutverks og stefnu Landbúnaðarháskóla Íslands styrkja umsókn um framgang. Meta skal hvernig þessi tengsl nýtast Landbúnaðarháskóla Íslands, hvort sem er í rannsóknum, kennslu og námi eða til að styrkja orðspor og kynningu háskólans út á við.

Dómnefnd getur við sérstakar aðstæður gert meiri eða minni kröfur um lágmarksstig ef talin er ástæða til. Víki mat dómnefndar frá viðmiðum um stigafjölda fyrir einhvern starfsþátt kennara eða sérfræðinga eða frá öðrum kröfum, sem gerðar eru við framgang á milli starfsheita, þarf að rökstyðja það sérstaklega.

 

Tafla 1
Lágmarksstig fyrir hvern starfsþátt kennara

 

Rannsóknir

Kennsla

Stjórnun,
þjónusta,
annað

Mismunur

Alls

Lektor

30

-

-

0

30

Dósent

130

20

-

50

200

Prófessor

270

50

-

80

400

 

 

Tafla 2
Lágmarksfjöldi stiga úr tilgreindum flokkum rannsóknahluta matskerfis

 

Ritrýndar bækur (yfir 25 stig)
ISI greinar
Aðrar ritrýndar greinar
Greinar í alþjóðlegum ráðstefnuritum
Bókarkaflar, alþjóðlegar akademískar útgáfur

Lektor

-

Dósent

80

Prófessor

180

Ef kennari er samkvæmt auglýsingu eða ráðningarsamningi ráðinn á listrænum eða hönnunarforsendum skulu kröfur um lágmarksfjölda rannsóknastiga við framgang vera í samræmi við töflu 1. Enn fremur er gerð krafa um að slíkur kennari hafi að lágmarki fjórðung stiga úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. töflu 2. Samkvæmt því er gerð krafa um 130 rannsóknastig í starf dósents og þar af skulu 20 stig vera úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. Við framgang í starf prófessors er gerð krafa um 270 stig og þar af skulu 45 stig vera úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. 1. tölul. 2. mgr.

 

Er álit dómnefndar liggur fyrir veitir nefndin umsækjanda um framgang allt að 14 daga andmælarétt.

 

Mæli dómnefnd með því að framgangur verði veittur sendir hún framgangsnefnd háskólans umsóknargögn, greinargerð dómnefndar og umsagnir sérfræðinga innan fjögurra mánaða frá því að umsóknarfresti lauk, eða eigi síðar en 1. mars.

 

 

 

19. gr. Skipan og málsmeðferð framgangsnefndar

 

Rektor skipar framgangsnefnd sem í eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af hvorri deild og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Í nefndina má skipa þá eina sem hlotið hafa prófessorshæfi. Enn fremur skal miða við að þeir sem skipaðir eru í nefndina hafi viðamikla reynslu af rannsóknum, kennslu og stjórnunarstörfum.

 

Ef atkvæði í framgangsnefnd falla jöfn sker atkvæði formanns úr.

 

Framgangsnefnd metur umsóknir um framgang á grundvelli fyrirliggjandi gagna og ákvæða 15. og 16. gr. reglna þessara. Framgangsnefnd gerir á grundvelli þess mats tillögu til rektors um hvort veita beri framgang.

 

Ef það er niðurstaða framgangsnefndar að ekki beri að veita framgang skal hún rökstyðja þá niðurstöðu sína og veita umsækjanda allt að 14 daga andmælarétt.

 

Álit framgangsnefndar skal berast rektor eigi síðar en 30. apríl.

 

20. gr. Heimildarákvæði.

 

Rektor Landbúnaðarháskóla Íslands er heimilt að fela fastadómnefnd á viðkomandi fræðasviði við Háskóla Íslands að sjá um mat á umsækjendum um ný störf og framgang í starfi, sbr. 40. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands, nr. 569/2009 og 4. gr. reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010. Verði sú leið farin falla úr gildi ákvæði í 14. gr. og 15. gr. í reglum þessum enda er það í samræmi við samstarfssamning opinberu háskólanna um stoðþjónustu, ásamt Viðauka II með samningnum, frá 9. maí 2011.

 

21. gr. Gildistaka.

 

Reglur þessar eru settar á grundvelli 17 og 18 gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og 26. og 27. gr. laga um búnaðarfræðslu nr. 57/1999 með síðari breytingum. Reglur þessar taka mið af hliðstæðum reglum Háskóla Íslands og leysa af hólmi fyrri reglur frá 9. maí 2007. Endurskoðun eldri reglna var unnin í tengslum við samræmi á gæðakröfum opinberu háskólanna, sbr. samstarfssamning opinberu háskólanna um stoðþjónustu, ásamt Viðauka II með samningnum, frá 9. maí 2011. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

 

 

Hvanneyri, 20. október, 2012.

__________________________

Ágúst Sigurðsson rektor.

 

 

Skýringar:

Í reglum þessum er ekki gert ráð fyrir tímabundinni ráðningu enda er það í samræmi við þau lög sem í gildi eru um Landbúnaðarháskóla Íslands við gildistöku þeirra. Ef skólinn verður hins vegar felldur undir lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 verður reglum þessum breytt á þann veg að tímabundin ráðning verður til fimm ára með heimild um framlengingu til tveggja ára þegar sérstaklega stendur á. Er það enda í samræmi við ákvæði í 17. gr. áður nefndra laga og sambærilegra reglna við Háskóla Íslands.