Tímarammi doktorsvarnaTímarammi doktorsvarna við LbhÍ

Doktorsnemi er kominn að þeim tímamörkum að hefja samningu doktorsritgerðar og kynnir sér þá reglur um doktorsnám og frágang doktorsritgerða á heimasíðu skólans.

Þegar skrif eru komin vel á veg skal doktorsnefnd eiga fund með nemandanum. Hún metur stöðu verksins og hefur undirbúning að því að finna andmælendur. Óska skal eftir samþykki fyrir andmælendum hjá Miðstöð framhaldsnáms á sérstökum eyðublöðum sem þar fást. Þetta skal gert í samráði við umsjónarmann framhaldsnáms.

Þegar rannsóknarverkefni er lokið að mati doktorsnemanda og umsjónarkennara  afhendir nemandinn fullbúin drög ritgerðar til doktorsnefndarinnar. Jafnframt skal leggja fram til doktorsnefndar staðfest yfirlit um námsferil nemandans, auk yfirlits frá kennsluskrifstofu um greiðslu skrásetningargjalda öll þau ár sem nám hefur verið stundað. Doktorsnefnd metur ritgerðina og verkefnið. Ef doktorsnefnd metur ritgerðina vanbúna er ritgerðin send aftur til nemandans með athugasemdum um úrbætur. Ef ritgerðin er metin fullbúin skilar doktorsnefndin áliti til framhaldsnámsnefndar um að gefa skuli doktorsefni kost á að leggja fram ritgerð sína til doktorsvarnar. Beinagrind að slíku bréfi má finna hér.

Doktorsefni skilar handriti að ritgerð til umsjónarmanns framhaldsnáms á rafrænu formi (PDF eða Microsoft Word). Nafn á rafrænni skrá með ritgerð skal vera "Nafn höfundar_Thesis". Nafn á rafrænni skrá með viðhengdum greinum skal vera "Nafn höfundar_Paper I" o.s.frv. Ritgerðin skal vera full frágengin, prófarkarlesin og uppsett og skal vera tilbúin til prentunar, geri doktorsnefnd ekki athugasemdir við efnistök hennar. Ekki er heimilt að breyta ritgerðinni fyrir lokaprentun eftir að hún hefur verið formlega samþykkt.

Framhaldsnámsnefnd leggur mat á bréf doktorsnefndar og kannar hvort ritgerð uppfylli reglur skólans og hvort nemandi hafi fullnægt skilyrðum til að ljúka doktorsnámi. Doktorsnefnd gerir jafnframt, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, tillögu til framhaldsnámsnefndar um tvo andmælendur við doktorsvörn. Skipan andmælenda fer eftir 15 gr reglna um doktorsnám. Framhaldsnámsnefnd tilnefnir andmælendur formlega. Þegar samþykki andmælenda hefur fengist fyrir starfinu sendir aðstoðarrektor kennslumála þeim skipunarbréf og varðveitir afrit. Andmælendur fá rafrænt eintak ritgerðar um leið og þeir hafa svarað játandi. Framhaldsnámsnefnd ákveður dagsetningu varnar í samráði við doktorsnefnd, andmælendur, doktorsefni og viðkomandi deildarforseta og vísar ritgerð til deildar.

Andmælendur skulu fá doktorsritgerð a.m.k. 6 vikum fyrir vörn.

Kennsluskrifstofa annast framkvæmd doktorsvarnar.

Doktorsefni ber ábyrgð á prentun og útgáfu ritgerðar og annast lögbundin skil á henni til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Rafrænt eintak ber að vista í gagnasafni Skemmu sem safnið rekur. Kennsluskrifstofa veitir nánari leiðbeiningar um frágang ritgerða og samþykkir einnig lokafrágang ritgerðar.
Doktorsefni lætur prenta ritgerð og skilar 10-11 eintökum til kennsluskrifstofu sem skiptast svo:

Andmælendur 2 eintök          
Doktorsnefnd 3- 4 eintök          
Deild 1 eintak          
Umsjónarm. framhaldsnáms 1 eintak          
Bókasafn LbhÍ 2 eintök          
Landsbókasafn 1 eintak          
Samtals 10 til 11 eintök          

 

 

 

 

 

 

 

Með prentaðri útgáfu af ritgerðinni þarf að fylgja undirrituð yfirlýsing um meðferð verkefnisins. Athugið að ekki er mælt með því að verkefni sé lokað nema í undantekningatilvikum. Að auki þarf að skila endanlegri útgáfu ritgerðarinnar á tölvutæku formi (PDF) í Skemmuna.
Nánari upplýsingar um skil á stafrænu eintaki má finna hér.
Doktorsritgerð skal liggja frammi á bókasafni skólans viku fyrir áætlaða vörn.
Ítarlega lýsingu á undirbúningi og framkvæmd doktorsvarnar má finna hér.
Lýsingu á sjálfri vörninni má finna hér.