Vel sóttur fundur um niðurstöðu EFTA dómstólsinsSíðastliðinn föstudag stóðu LbhÍ og Bændasamtök Íslands fyrir onum fundi undir yfirskriftinni „Hvernig viltu hafa kjötið þitt?“ þar sem áhrif úrskurðs EFTA dómstólsins um að íslensk yfirvöld megi ekki banna innflutning á ófrosnu kjöti, eggjum og afurðum úr ógerilsneyddri mjólk frá Evrópu til Íslands. Á fundinum var niðurstaða dómsins rædd sem og hugsanleg áhrif hans á íslenskan landbúnað. Um 60 manns mættu á fundinn en honum var einnig streymt á Facebook síðu skólans fyrir þá sem ekki komust á fundinn. Fundarstjóri var Charlotta Oddsdóttir, dýralæknir og lektor við LbhÍ.

Sæmundur Sveinsson, rektor LbhÍ, setti fundinn og á eftir honum kom Sigurður Eyþórsson, framkvæmdarstjóri BÍ, í pontu og ræddi stöðuna og horfur í innflutningi á ferskum landbúnaðarafurðum til Íslands.

Þorvaldar H. Þórðarson, framkvæmdarstjóri inn- og útflutingsmála hjá MAST, sagði frá hlutverki MAST og mismun á eftirliti eftir uppruna innflutnings. Ólafur Valsson, dýralæknir, flutti erindið „Felst áhætta í innflutningi ferskra landbúnaðarafurðum“.

Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum, fjallaði um smitsjúkdóma sem geta borist með innfluttum ferskum landbúnaðarafurða og Karl G. Kristinsson, yfirlækni Sýklafræðideildar Landspítalans var síðastur í pontu og fjallaði um Lýðheilsu – áhrif á heilbrigði manna og dýra.

Í lokin voru umræður og fyrirspurnir. Eins og áður sagði var fundinum streymt á Facebook síðu skólans og eru áhugasamir hvattir til að hlýða á erindin þar.

Sjá má myndir frá fundinum á Facebook síðu skólans.