Afhending gjafar til skólans frá 50 ára búfræðikandídötum

Í tilefni af 50 ára útskriftarafmæli búfræðikandata frá Hvanneyri var efnt til samkvæmis í Ásgarði, skólahúsi Landbúnaðarháskólans, síðastliðinn föstudag. Þessi útskriftarárgangur hefur haldið þétt hópinn alla tíð og voru allir sjö úr árganginum viðstaddir. Orð fyrir hópnum höfðu þeir Jón Hólm Stefánsson, Gunnar Sigurðsson og Jóhannes Torfason. Hópur þessi var gjarnan nefndur Öndvegisdeildin, en hann stundaði nám við skólann 1965-1968. Vildu skólafélagarnir minnast tímamótanna með því að gefa málverk af Ólafi Guðmundssyni og heiðra um leið minningu hans.

Á málverkinu situr Ólafur við flygil á mynd sem Ellisif Malmo Bjarnadóttir listakona í Gerði málaði. Fjölskylda Ólafs var viðstödd afhjúpun myndarinnar sem og margir sem tengdust skólanum, útskriftarhópnum og aðrir velunnarar. Ólafur var að aðalstarfi rannsóknamaður og kennari við skólann. Hann var elsti sonur skólastjórahjónanna Guðmundar Jónssonar og Maríu Ragnhildar Ólafsdóttur. Ólafur bjó ásamt Sigurborgu Ágústu Jónsdóttur og fimm börnum þeirra á Bárustöðum, skammt ofan við Hvanneyri. Tónlistin var Ólafi afar hugleikin og sinnti hann fjölmörgum verkefnum á sviði hennar innan jafnt sem utan skólans. Var meðal annars skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar, harmonikkuleikari og í raun mjög fjölhæfur listamaður. Stjórnaði Ólafur meðal annars Hvanneyrarkvartettinum, sem skipaður var fjórum nemendum úr Öndvegisdeildinni. Hljóðritaði kvartettinn nokkur lög að afloknu síðasta prófi vorið 1968. Hafa þessi lög nú verið gefin út á geisladiski sem dreift var við þetta tækifæri.

Mynd: Skessuhorn

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is