Auglýst eftir 15 doktorsnemum – hefur þú áhuga?

Tvær af þessum launuðu doktorsnemastöðum verða hjá okkur við Landbúnaðarháskóla Íslands, en allar eru þær hluti af Evrópuverkefninu FutureArctic sem mun fara fram að stórum hluta á Íslandi. FutureArctic er svokallað, ITN (intensive training network) verkefni sem fjármagnað er í gegnum H2020 rannsóknaáætlun ESB og hófst 1 júní 2019 og lýkur 2023.

FutureArctic stendur að 15 doktorsverkefnum í samstarfi sjö háskóla og sjö einkafyrirtækja. Á Íslandi er það Landbúnaðarháskólinn og einkafyrirtækið Svarmi sem eru þátttakendur. Doktorsverkefnin eru öll unnin í samstarfi háskóla og fyrirtækja og snúast öll að því að þjálfa doktorsnema í bæði brautryðjandi rannsóknum á sviði umhverfisvísinda og tækni. Tækni-verkefnin eru á sviði tölvuský-tenginga rannsóknatækja og útreikninga, gervigreindar, fjarkönnunar og mælitækni.

Allar umhverfisrannsóknir doktorsnemanna munu nýta ForHot rannsóknasvæði (www.forhot.is) Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi, þar sem jarðhiti er nýttur til rannsókna á áhrifum hlýnunar á vistfræði og á efnaferla í náttúrulegum graslendum og gróðursettum skógi. Þarna eru um einstakt tækifæri að ræða fyrir öflugt ungt íslenskt fólk sem hefur lokið meistaranámi og vill afla sér doktorsgráðu á sviði umhverfisfræði eða tækni, þar sem rannsóknirnar fara að mestu fram á Íslandi, en viðkomandi er skráð(ur) í öfluga háskóla erlendis.

Það er krafa ESB í öllum ITN verkefnum að doktorsnemar þurfa að fara til annars lands en þeir hafa verið búsettir/starfað síðustu þrjú ár.

Íslendingar geta því valið um verkefni sem eru boðin af eftirfarandi háskólum:

· Háskólanum í Antwerpen (ESR1) í Belgíu – og landbúnaðarrannsóknastofnuninni ILVO (ESR2) og fyrirtækinu IMEC (ESR9; ESR13, ESR14)
· Háskólanum í Tartu í Eistlandi (ESR3) – og fyrirtækinu VSI í Vín í Austurríki (ESR12)
· Vínarháskóla í Austurríki (ESR4; ESR15).
· Háskólanum í Innsbruck í Austurríki (ESR5)
· Kaupmannarhafnarháskóla í Danmörku (ESR6) – og fyrirtækinu DMR (ESR11)
· UAB háskólanum í Barcelóna á Spáni (ESR 8)

Á Íslandi eru þetta: · Landbúnaðarháskóli Íslands (ESR7) – og fyrirtækið Svarmi (ESR10)

Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér rannsóknastöðurnar og senda inn umsóknir HÉR 
Frekari upplýsingar veitir einnig: Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við LbhÍ bjarni@lbhi.is

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is