Gullið rannsóknatækifæri í hörmungum

LbhÍ fær tæplega hálfs milljarðs Evrópustyrk til umhverfisrannsókna á Íslandi í samstarfi við fleiri aðila.

Landbúnaðarháskóli Íslands er stoltur af því að tilkynna að hann og Svarmi ehf., ásamt erlendum samstarfsaðilum, hafa hlotið tæplega hálfs milljarðs króna styrk frá H2020 rammaáætlun Evrópusambandsins til næstu fjögurra ára til að setja á fót sameiginlegan doktorsnemaskóla fyrir efnilega vísindamenn framtíðar í rannsóknum og mælitækni tengdri hlýnun jarðar.

Þann 29 maí 2008 reið stór jarðskjálfti yfir vestanvert Suðurland sem orsakaði talsvert eignatjón og aðrar hörmungar fyrir íbúa svæðisins. Skjálftinn olli einnig breytingum á jarðhitakerfum í kringum Hveragerði. Landbúnaðarháskóli Íslands rekur Garðyrkjuskólann í næsta nágrenni Hveragerðis og á löndum skólans að Reykjum í Ölfusi urðu starfsmenn hans varir við að ýmis svæði sem áður höfðu verið köld byrjuðu að hitna strax í kjölfar jarðskjálftans. Þetta gerðist vegna nýrra jarðhitaæða sem höfðu myndast í berggrunninum undir svæðinu. Þessi svæði voru vaxin ýmiskonar gróðurfari, frá melum og móum upp mýrar og 50 ára gróðursetta barrskóga.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, og samstarfsmenn hófu strax að fylgjast með þessum svæðum og árið 2010 þegar ljóst var að hitabreytingarnar undir svæðunum voru komnar til að vera þá sáu þeir þarna einstaka möguleika á að nýta þessar aðstæður til að stunda alþjóðlegar rannsóknir á hvað gerist við hlýnun jarðar. Þar sem það er þekkt hvenær hlýnunin hófst á svæðunum þá eru þau að öllu leiti sambærileg við ýmis önnur rannsóknasvæði austan hafs og vestan þar sem háskólar og rannsóknastofnanir eyða hundruðum milljóna króna árlega til að hita upp jarðveg og rannsaka hvaða breytingum slík hlýnun veldur á náttúrunni. Með því að líkja þannig eftir aðstæðum framtíðar reyna vísindamenn að auka skilning okkar á náttúrunni og efla möguleika okkar til að spá fyrir um áhrif af fyrirséðri hlýnun jarðar í framtíðinni.

Það sem er einstakt við þessi íslensku svæði á Reykjum er hinsvegar að hlýnunin er ekki bara ein, heldur er þar að finna mismunandi stig hlýnunar á svæðum sem spanna upp í 100 m, frá broti úr gráðu upp í meira en 50°C jarðvegshlýnun. Þetta gerir það m.a. kleift  að rannsaka hvort vistkerfi hafa einhverja þröskulda í svörun sinni við hlýnun sem spannar mismunandi spár um hlýnandi loftslag framtíðar. Erlendir vísindamenn sýndu því þessum einstöku íslensku aðstæðum strax mikinn áhuga og frá 2011 þá hefur LbhÍ í samstarfi við Skógræktina, Náttúrusfræðistofnun Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands byggt þarna upp alþjóðlegt samstarfsverkefni um rannsóknir á hlýnun á náttúrufar ýmissa íslenskra þurrlendisvistkerfa sem kallað er ForHot [slóð: www.forhot.is].

RANNÍS hefur til þessa styrkt eitt íslenskt doktorsverkefni við ForHot og tekist hefur að afla rannsóknastyrkja til fleiri doktorsverkefna frá rannsóknaráðum og háskólum í Belgíu, Austurríki og Svíþjóð. Nú þegar hafa níu MS nemar og einn doktorsnemi útskrifast frá LbhÍ og ýmsum Evrópskum háskólum sem hafa nýtt aðstöðuna við ForHot til sinna rannsókna.

Fyrsta yfirlitsgreinin [slóð: http://www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/Attachment/IAS%202016%205%20Sigurdsson%20et%20al%2053-71/$file/IAS%202016%205%20Sigurdsson%20et%20al%2053-71.pdf] um verkefnið eftir Bjarna Diðrik Sigurðssonar og félaga um ForHot svæðið birtist alþjóðlega árið 2016, en í kjölfarið hafa nú birst níu aðrar vísindagreinar [slóð: http://forhot.is/publications/] frá ForHot. Þær hafa verið  skrifaðar af rannsóknanemum ForHot verkefnisins og vísindamönnum samstarfsstofnana og margar fleiri eru væntanlegar á næstunni í ýmsum virtustu vísindaritum heims. Þessi góði árangur ForHot samstarfsins sýndi fram á raunverulega getu til að nýta saman þessar einstöku aðstæður sem LbhÍ býr yfir á Reykjum og gerði samstarfsaðilunum kleift að sækja nýtt fjármagn til frekari uppbyggingar á samstarfinu til H2020 rannsóknaáætlunar Evrópusambandsins.

Styrkurinn sem LbhÍ og félagar fengu núna var til að setja á fót sameiginlegt setur til doktorsnáms (e. Intensive Training Network eða ITN) sem nýtir þær einstöku aðstæður sem ForHot verkefnið á Reykjum í Ölfusi býður upp á. ITN verkefnið nefnist „Future Arctic“ og innan þess verður boðið upp á 15 ný þverfagleg doktorsverkefni, sem öll lúta að ýmsum sérsviðum umhverfisfræði og tækni. Formlegir meðumsækjendur um þetta verkefni eru auk Landbúnaðarháskóla Íslands, Svarmi ehf sem er með aðstöðu sína í húsnæði LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík, Univ. Autonoma de Barcelona (þar sem Bjarni Diðrik dvaldi síðustu 7 mánuði í rannsóknaleyfi), Univ. of Vienna og Univ. of Innsbruck í Austurríki og austurrísku fyrirtækin Vienna Scientific Instruments og UIBK, Kaupmannahafnarháskóli og dönsku fyrirtækin Dansk Miljørådgivning og Prenart Equipment, Univ. of Tartu í Eistlandi (sem þegar er með einn sameiginlegan doktorsnema með LbhÍ), Univ. of Antwerpen í Belgíu (sem þegar hefur útskrifað einn sameiginlegan doktorsnema með LbhÍ og er með tvo aðra að störfum) og fyrirtækin IMEC í Belgíu, Mirico í Englandi, auk risans  Microsoft, sem flestir munu kannast við.

Samtals er fjármögnun Evrópusambandsins á Future Arctic doktorsnemaskólanum um 480 milljónir ISK á næstu fjórum árum. Bjarni Diðrik segir að verkefnið sé í raun mikil viðurkenning á öllu íslensku fræða- og rannsóknastarfi og að þetta verði mikil innspýting fyrir íslenskar umhverfisrannsóknir hérlendis á næstu árum. Þarna mun nýjum efnilegum íslenskum og erlendum vísindamönnum framtíðarinnar fljótlega bjóðast einstakt tækifæri til að hljóta spennandi þverfaglega tækni- og vísindaþjálfun sem ekki á sinn líka hér á landi! 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is