Votlendissetur LbhÍ - markmið• Verndun hinna einstöku votlendissvæða á Hvanneyri
• Rannsóknir á lífríki og eðli votlendis
• Rannsóknir tengdar endurheimt votlendis
• Efla menntun á sviði votlendisfræða.
• Gera votlendissvæðin aðgengileg til útivistar og fræðslu.
• Þátttaka í alþjóðlegu rannsóknastarfi og samstarfi á sviði votlendisfræða

Lífríkið
Mikilvægi votlendissvæða felst meðal annars í frjósemi þessara kerfa og því að þau eru heimkynni fjölbreytts hóps lífvera. Mikill fjöldi fuglategunda á sér griðland í votlendinu við Hvanneyri, m.a. blesgæs, brandönd, æðarfugl, jaðrakan, óðinshani, hrossagaukur og kría; alls um 35 tegundir fugla og á góðum dögum má sjá haförn sveima yfir svæðinu í leit af æti. Votlendunum fylgir fjölbreytilegt gróðurfar og á Hvanneyrarengjum er t.d. gulstör ríkjandi, en engjarnar eru gott dæmi um votlendi sem nýtt voru til sláttar og beitar og útskýra að hluta staðsetningu Hvanneyrarstaðar sem bændaskóla. Lífríki jarðvegsins er ennfremur afar fjölskrúðugt og spennandi rannsóknaefni.

Fræðsla og menntun
Á næstu árum verður komið upp aðstöðu til rannsókna og kennslu við Votlendissetur LbhÍ. Lagðir verða sérstakir fræðslustígar til að auðvelda aðgengi, auk þess sem aðstaða verður í sérstökum skýlum og innanhúss til að fylgjast með dýralífi og til fyrirlestrahalds. Aðstaða verður til að taka á móti skólahópum á öllum menntastigum, árið um kring. Ferðamenn verða velkomnir til setursins. Þá verður ýmiss konar námskeiðshald mikilvægt í starfi setursins, en aukin krafa um endurheimt votlendis og takmörkun á röskun þess kallar á sérfræðiþekkingu víða í þjóðfélaginu.

Aðstaða og rannsóknir
Votlendissetrið tekur til allra votlendissvæða á jörðum Landbúnaðarháskólans, en einnig til nágrannasvæða í góðri samvinnu við landeigendur. Stefnt er að víðtæku samstarfi við stofnanir, fagfélög og áhugamannasamtök um rannsóknir og menntun. Má þar meðal annars nefna:
Rannsóknir á lífríki votlendis
Gróðurvistfræði votlendissvæða
Fuglar, fiskar og annað dýralíf
Sérstök áhersla er lögð á vistfræði blesgæsarinnar
Rannsóknir á kolefnisforða og kolefnisbúskap votlendissvæða
Rannsóknir á eðlisþáttum votlendis, vatnafari og hringrás næringarefna
Skilgreiningar á eðli og virkni votlendis, m.a. með tilliti til vistheimtar

Áhrif landnýtingar, sjálfbær nýting votlendis
Langtímabreytingar á ýmsum umhverfisþáttum með langtímamælingum

Framtíðin
Votlendissetrið verður byggt upp í nokkrum áföngum. Fyrsta skrefið Ramsar-skilgreining á svæðinu sem nú þegar hefur átt sér stað. Jafnframt verður svæðið afmarkað og gert aðgengilegt og hafnar langtímamælingar á ýmsum umhverfisþáttum. Þá er stefnt er að opnum rannsóknaaðstöðu og kennsluhúsnæðis innan fárra ára. Rannsóknir á blesgæsinni verða auknar í samstarfi við alþjóðlega rannsóknahópa.