Ráðgjafar og fræðafólk í landbúnaði fundar

Í byrjun júní var haldinn sameiginlegur fundur RML og LBHÍ í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmið fundanna er að ráðgjafar og fræðafólk í landbúnaði kynni þær rannsóknir og verkefni sem eru í gangi hverju sinni og ræði um stefnu og áherslur í þekkingaröflun. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LBHÍ setti fundinn sem stóð yfir tvo daga með fjölbreyttum erindum og skoðunarferðum. 

Á fyrri deginum voru nemendaverkefni úr búfræði og háskóladeild kynnt. Verið er að vinna að mörgum og gagnlegum verkefnum, sérstaklega var gaman að sjá hvað verkefni búfræðinga eru fjölbreytt. Góð aðsókn hefur almennt verið að skólanum en það er áhyggjuefni fyrir landbúnaðinn hversu fáir nemendur í búvísindum eru að skila sér í sérnám (mastersnám) eða um 15% af þeim nemendum sem klára BS og því er þegar orðinn veruleg vöntun innan flestra sviða búvísinda. 

Farið var yfir Fóðrun og frjósemi sauðfjár, árangur fósturtalninga og sóknarfæri í íslenskri nautakjötsframleiðslu þar sem kom fram að töluverðir möguleikar eru á aukinni framleiðslu með bættum framleiðsluaðstæðum og betri vaxtarhraða nýrra kynja. Fjallað um PPP verkefni sem er samnorrænt/skandinavískt verkefni með það markmið að rækta yrki sem henta aðstæðum á norðurslóðum. Síðan var farið í skoðunarferð um tilraunareiti á vegum jarðræktarmiðstöðvar LBHÍ og þær rannsóknir sem eru í gangi á Hvanneyri sýndar. 

Verkefnið Logn sem unnið hefur verið af RML síðustu misseri var kynnt en það verkefni byggir á möguleikum sem gætu falist í því að bændur væru þáttakendur í nátturuvernd á sínum jörðum. Verkefnið hefur verið kynnt á ákveðnum svæðum og haldnir fundir með bændum til að fá fram viðhorf og skoðanir bænda til þess. Í þessu felast hugsanlega tækifæri fyrir bændur, allavega sýnir reynsla erlendis frá að svæði sem hafa farið í sambærileg verkefni hætta að hningna og styrkjast. 

Fjórða iðnbnyltinginn og hver staðan væri í íslenskum landbúnaði var síðasta umræðuefnið fyrri dagsins. Þar kom fram að verulegir möguleikar eru fyrir íslenskan landbúnað að nýta sér betur tæknina. Tækniframfarirnar skila oft verulegum ávinningi með meiri nákvæmni og minni sóun. Almennt voru fundarmenn sammála um að það þurfi að gera átak í að nota þá tækni sem sé til staðar. Það er umhverfis og loftlagsmál að nákvæmari og orkusparandi tæki séu nýtt við framleiðslu matvæla á Íslandi. Loftslagsmál og landbúnaður 

Loftslagsmál og landbúnaður

Seinni dagurinn var tileinkaður loftlagsmálum. Upphafserindi flutti fomaður loftlagsráðs Halldór Þorgeirsson en hann var eini gestafyrirlesarinn að þessu sinni. Í máli hans kom fram mikilvægi þess að gagnkvæm virðing og traust væri milli þeirra aðila sem fjölluðu um loftlagsmál, til þess að árangur næðist. Ísland bæri að stefna að sjálfbærni og lágkolefnishagkerfi. 

Losun kolefnis úr framræstu landi hefur verið mikið til umræðu og þær tölur sem notaðar eru til viðmiðunar. Hér á landi vantar mun betri upplýsingar um jarðvegsgerðir framræsts lands samkvæmt samantekt Þóroddar Sveinssonar LBHÍ og getur það munað þó nokkru í þeim tölum sem hingað til hafa verið notaðar til viðmiðunar. Jón Guðmundsson LBHÍ hélt erindi um endurskoðun á skurðarmælingum og þekju framræsts lands. Þar kom fram að grafnir skurðar á íslandi eru á milli 30 og 40 þúsund km samkvæmt mælingum en verið er að kortleggja það betur og þær breytingar sem hafa orðið á skurðakerfinu á síðustu árum. Þessar mælingar sem að mestu eru gerðar með loftlagsmyndum skipta miklu máli þegar kemur að því að meta þekju framræst lands og virkni skurða. 

Loftslagsverkefni sem RML hefur verið og er að vinna að voru kynnt af Snorra Þorsteinssyni og Borgari Páli Bragasyni hjá RML. Greining losunar frá fimm býlum sýnir mikinn breytileika á milli búa hvað varðar losun CO2, verið er að undirbúa vegvísi fyrir landbúnaðinn í loftslagsmálum í samvinnu við búgreinar. Loftlagsvænn landbúnaður er verkefni sem byggir á markmiðum sauðfjárbænda varðandi kolefnisjöfnun og þar er hugmyndin að varpa ljósi á þá möguleika sem greinin hefur í þeim efnum ásamt því að verkefnið gæti í framhaldi nýst fleiri búgreinum. 

Umræður voru í lokin og voru fundarmenn sammála um að verulega skorti á forgangsröðun varðandi þær rannskóknir og verkefni sem íslenskur landbúnaður þarf að fara í til þess að auka nákvæmni og skera úr um hvort viðmiðunartölur eigi við í öllum tilfellum hér á landi. Mjög vantar upp á að skýrari línur séu lagðar af stjórnvöldum og verkefnum forgangsraðað. Ekki er ljóst hver heldur utan um fjármögnun á verkefnum tengdum loftlagsmálum. 

Að lokum sleit Karvel L. Karvelsson framkvæmdarstjóri RML fundinum og fór yfir helstu atriði fundarins. 

 

Dagskrá fundarins: 

Setning: Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir 
Búfræði lokaverkefni – Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, brautarstjóri búfræði.
Linda Margrét Gunnarsdóttir nemandi – Kennslumyndband um plægingar. 
BS verkefni í gangi. Birna Kristín Baldursdóttir, brautarstjóri búvísindi.
Ingunn Sandra Arnþórsdóttir, nemandi – Árangur fósturtalninga í íslenskum ám. 
Fóðrun og fjrósemi auðfjár – Árni Bragason RML
PPP verkefni – Margnus Göransson LBHÍ 
Landbúnaður og náttúruvernd – Sigurður Torfi Sigurðsson RML 
Fjórða iðnbyltingin – Sigtryggur Veigar Herbertsson RML 
Skoðunarferð og kynning á jarðræktartilraunum í gangi á Hvanneyri – Þóroddur Sveinsson, Jónína Svavarsdóttir, Magnus Göransson, Þórey Ólöf Gylfadóttir og Guðni Þorgríur Þorvaldsson LBHÍ 
Fjósskoðun og umræður um breytingu á fjósi í rannsóknarfjós fyrir fóðurrannsóknir. Hvanneyrarfjós 
-
Loftslagsmál og landbúnaður. Halldór Þorgeirsson formaður loftslagsráðs og fulltrúi í Háskólaráði LBHÍ 
Losun kolefnis úr framræstu landi skv. IPCC, Ísland í samanburði við önnur lönd – Þóroddur Sveinsson LBHÍ 
Endurskoðun á skurðarmælingum og þekju framræsts lands – Jón Guðmundsson LBHÍ
Loftslagsverkefni RML – Snorri Þorsteinsson og Borgar Páll Bragason 
-

Umræður/málstofa
Fundarslit - Karvel L. Karvelsson RML 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is