Sigríður Bjarnadóttir nýr brautarstjóri

Sigríður Bjarnadóttir hefur hafið störf hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og mun sinna brautarstjórn í búvísindum og hestafræði frá júní n.k. ásamt því að sinna kennslu og mögulega vera með aðkomu að rannsóknarstörfum. Hún verður með starfsaðstöðu á Hvanneyri í 75% starfshlutfalli og kemur til með að ferðast milli Norður- og Vesturlands.

Sigríður er fædd og uppalin í Skagafirði og býr í Hólsgerði í Eyjafjarðarsveit. Þar stundar hún sauðfjár-, hrossa- og skógrækt ásamt manni sínum, Brynjari Skúlasyni, þau eiga fjögur uppkomin börn. Sigríður er með mastersgráðu í búfjárrækt frá Ási í Noregi og hefur síðan farið í gegnum kennslufræði við Háskólann á Akureyri, BS námið í hestafræði sem var sameiginlegt á Háskólanum á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands auk þess að vera með diplóma í ferðamálafræði frá Hólum.

Sigríður hefur víðtæka starfsreynslu innan landbúnaðargeirans; var sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Möðruvöllum í Hörgárdal og síðar tilraunastjóri hjá sömu stofnun á Stóra Ármóti í Flóa, ráðunautur á Búgarði hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og síðar Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins. Hún vann við mjólkureftirlit hjá Mjólkursamsölunni á Norður- og Austurlandi, við bókhald hjá Bókvís á Búgarði og nú síðast sem framkvæmdastjóri Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sem var lagður niður um áramótin síðustu. „Mér finnst spennandi og áhugavert að vera komin til starfa hjá LbhÍ og það verður gaman að fá að taka þátt í því að gera góðan skóla enn betri!“ segir Sigríður.

VIð bjóðum Sigríði innilega velkomna til starfa.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is