Starfsreglur háskóladeilda BS nám

Starfsreglur háskóladeilda BS nám

1 . Háskólanám bakkalárapróf (BS, 180 ECTS)
1.1 Almennt

Samkvæmt lögum um búnaðarfræðslu nr. 57/1999, með áorðnum breytingum, skal Landbúnaðarháskóli Íslands vera vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi. Hann veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun, þannig að þeir geti tekið að sér sérfræðistörf fyrir íslenskan landbúnað og tengdar greinar og unnið að rannsóknum í þeirra þágu.

1.2 Inntökuskilyrði
Umsækjandi þarf að hafa lokið stúdentsprófi eða öðru framhaldsskólaprófi, sem háskólaráð telur jafngilt og mælir með. Nemendur annarra háskóla geta einnig tekið hluta af námi sínu við Landbúnaðarháskólann enda sé kveðið á um það í sérstökum samningum milli stofnana. Til að hljóta innritun þarf nemandi að standa skil á skrásetningargjöldum samkvæmt lögum nr. 57/1999 um búnaðarfræðslu.

1.3 Mat á fyrra námi
1.3.1 Annað háskólanám

Nemendur sem áður hafa lokið sambærilegum námskeiðum háskólanáms og boðið er upp á í námi við Landbúnaðarháskóla Íslands, geta fengið námskeið metin til eininga. Kennslunefnd framkvæmir matið. Staðfest mat á fyrra námi skal liggja fyrir áður en kennsla hefst í viðkomandi námskeiði.

1.3.2 Fagleg vinna
Nemandi getur sótt um að fagvinna á hans námssviði verði metin í stað valgreina til allt að 6 samræmdra eininga (ECTS). Sem fagvinna reiknast hverskonar vinna sem telst auka hæfni eða innsýn nemandans til verkefna á hans fagsviði og stendur í a.m.k. 2 mánuði. Umsóknir um að fagvinna verði metin í stað valgreina skal að jafnaði berast áður en hún hefst og skal fylgja áætlun um í hverju vinna nemandans verði fólgin frá væntanlegum vinnuveitenda, ásamt áliti viðkomandi kennara. Nemandinn skal fyrir lokasamþykki kennslunefndar gera grein fyrir vinnunni með stuttri greinagerð. Í prófabók skulu einingar sem þannig er skilað skráður án námskeiðsnúmers en með heitinu Fagstörf og einkunn M (metið). Umsóknir um mat á faglegri vinnu samkv. þessari grein skal stíla til kennslunefndar.

1.4 Skipulag námsins
Skólinn býður upp á nám til prófgráða sem eru auglýstar hverju sinni. Hámarksnámstími í hverri námsbraut í háskólanámi má vera 50% umfram áætlaðan námstíma. Kennslunefnd er heimilt að veita undanþágur frá ákvæði um hámarksnámstíma.

1.5 Námskeið og námseiningar (ECTS)
Námskeið við Lbhí eru metin í stöðluðum ECTS námseiningum. Að jafnaði svara 60 námseiningar til fulls náms á ársgrundvelli og endurspegla alla námsvinu nemenda. Samræmt númerakerfi er yfir námskeið í háskólanámi. Samkvæmt því er hvert námskeið auðkennt með 6 tölustöfum, samsett úr eftirfarandi einingum: Fyrstu tveir tölustafirnir merkja á hvaða önn námskeiðið er kennt. Næstu tveir tölustafir eru raðnúmer námskeiðsins. Grunnnámskeið hafa númer frá 01-19. Námskeið sem eru samkennd á tveimur brautum hafa númer 20-39, námskeið sem tilheyra einni braut 40-79 og valnámskeið 80-99. Síðustu tveir tölustafirnir segja til um hversu margar samræmdar einingar eru að baki hverju námskeiði, en hver eining samsvarar 25 -30 vinnustundum nemanda. Námskeið sem gefur
fjórar einingar hefur númerið .04, tíu eininga námskeið hefur númerið .10 o.s.frv. Dæmi: Númer námskeiðsins “Sambýli lands og þjóðar” er 01.25.08, sem gefur til kynna að námskeiðið er kennt í landnýtingu og búvísindum, þetta er grunnnámskeið og gefur 8 einingar.

1.6 Kennslufyrirkomulag
Kennsluárið skiptist í haust- og vorönn. Heimilt er að skipta hvorri önn í tvær stuttannir með prófum á milli. Á hvorri önn er kennt í 15 vikur og próf standa yfir í tvær vikur í lok hverrar annar. Milli vor og haustannar er sumarönn fyrir starfs- og rannsóknanám nemenda og sumarnámskeið eftir því sem fram kemur í námsskrám. Til að hefja nám í einstökum námskeiðum annar þarf nemandi að hafa öðlast próftökurétt í undanfaranámskeiðum . Kennsla fer fram í fyrirlestrum, verkefnatímum, dæmatímum, starfsnámi og námsferðum samkvæmt fyrirfram gerðum kennsluáætlunum. Í vissum tilvikum er jafnframt mögulegt að taka námskeið í fjarnámi að hluta til eða öllu leyti. Kennsluhætti og námsmati námsgreina skal lýst í kennsluáætlun sem gerð er í samráði við kennslustjóra og lögð fram í upphafi hvers kennslutímabils. Tímasókn er frjáls. Þó má skilyrða tímasókn einstakra námshluta í kennsluáætlun. Heimilt er að bjóða fram kennslu á norðurlandamálum og ensku enda sé þess getið í kennsluáætlun viðkomandi áfanga.

1.7 Próf
1.7.1 Próftímabil, gerð prófa

Próf eru að jafnaði haldin í annarlok. Sjúkra- og endurtökupróf skulu haldin í ágúst nema þegar sérstakar ástæður mæla með slíku prófahaldi á öðrum reglubundnum prófatímabilum. Öllum sjúkra- og endurtektarprófum þarf að vera lokið áður en næsta skólaár hefst. Próf skulu að jafnaði eigi standa lengur en 2 vikur á hvorri önn. Fyrir upphaf kennslutímabils skrá nemendur sig í þau námskeið er þeir hyggjast sækja. Innritun í námskeið gildir sem innritun í próf sem haldið er að námskeiðinu loknu. Vilji nemandi segja sig frá prófi í námskeiði, skal það gert skriflega, til kennslustjóra, eigi síðar en sjö dögum fyrir prófdag. Próf geta verið munnleg, skrifleg eða verkleg. Heimilt er að meta ritgerðir, skýrslur og verkefni í stað prófs eða sem hluta af námsmati og áskilja lágmarkseinkunn í hverjum þessara hluta. Skal um þetta vera samráð á milli kennslustjóra og hlutaðeigandi kennara og ákvörðun kunngerð nemendum í kennsluáætlunnámskeiðsins, við upphaf kennslu.

1.7.2 Mat á prófum og kæruréttur
Úrlausnir skriflegra prófa skulu metnar af viðkomandi kennara. Nemandi á rétt á að sjá prófúrlausnir sínar í prófsýningu hjá kennara og fá útskýringar á mati ef hann óskar þess. Slík ósk skal sett fram að jafnaði eigi síðar en 10 dögum eftir birtingu einkunnar. Framkvæmd prófsýningar fer eftir samkomulagi nemanda og kennara. Vilji nemandi gera athugasemd við einkunn sína, skal hann skila skriflegum athugasemdum til kennslustjóra innan þriggja virkra daga frá prófsýningu. Hægt er að skjóta ágreiningi um einkunnagjöf til kennslunefndar sem fellir úrskurð varðandi ágreining eða skipar prófdómara.

1.7.3 Um framkvæmd prófa
Kennarar standa fyrir prófum í samráði við kennslustjóra. Í skriflegum prófum ræður vægi námsgreinar lengd próftíma. Að jafnaði skal hálfa klst. fyrir hverja byrjaða námseiningu á lokaprófi - Nemendur með staðfesta lestrarörðugleika og erlendir nemendur geta sótt um lengdan próftíma - tíu mínútur fyrir hverja námseiningu. Niðurstöður prófa skulu liggja fyrir eins fljótt og unnt er og eigi síðar en á ellefta virka degi eftir prófdag. Einkunnir skulu liggja fyrir eins fljótt og nauðsyn krefur vegna brautskráningar. Próftöflur skulu liggja fyrir eigi síðar en fjórum vikum áður en viðkomandi próftímabil hefst. Kennsluskrifstofa sér um færslu einkunna og varðveislu þeirra. Hún sér um að birta nemendum einkunnir. Kennslustjóri eða staðgengill hans skal vera tiltækur á meðan próf stendur yfir.

1.7.4 Reglur um próftöku
a) Nemendur skulu mæta stundvíslega. Mæti nemandi meira en 15 mínútum eftir að próf hefst fær hann ekki að þreyta prófið.
b) Í samsettum prófum skulu nemendur svara hverjum prófhluta í sér prófabók.
c) Enginn má skila úrlausnum fyrr en ein klukkustund er liðin frá upphafi auglýsts próftíma. Ef nemandi lýkur prófi áður en heimiluðum próftíma lýkur er honum heimilt að fara úr prófstofu en skal gæta þess að trufla ekki þá sem enn eru í prófi. Að loknum próftíma ber öllum að skila úrlausnum þegar í stað.
d) Að loknum skriflegum prófum á að skila prófspurningum, úrlausnum og krassblöðum til þess er situr yfir í prófinu (prófverði. Prófspurningar úr reglulegum prófum ásamt úrlausnum verða síðan varðveittar á bókasafni skólans í 3 ár.
e) Nemendur mega ekki hafa yfirhafnir, töskur, síma eða annan búnað sem ekki tilheyrir leyfilegum hjálpargögnum við prófborðið. Alla slíka muni skal skilja eftir utan prófstofu. Ekki má valda truflun í prófi t.d. með neyslu matar eða drykkjar.
f) Nemendum er aðeins heimilt að yfirgefa prófborð áður en þeir hafa lokið prófinu til þess að fara á salerni og þá undir eftirliti fylgdarmanns.
g) Nemanda er óheimilt að ljúka prófi án þess að skila prófabók með nafni sínu og kennitölu.
h) Nemandi á rétt á að fá útskýringar á orðalagi prófspurninga. Kennari sem heldur próf eða staðgengill hans skal að öllu jöfnu vera tiltækur á meðan próf stendur yfir.
i) Nemendum eru birtar einkunnir persónulega í rafrænu upplýsingakerfi Landbúnaðarháskólans.
j) Nemendum sem eru í prófi er óheimilt að aðstoða aðra sem í prófi eru við prófúrlausnir eða leita aðstoðar annarra.
Utanaðkomandi er óheimilt að veita nemanda aðstoð í prófi. Nemendum í prófi er óheimilt að tala saman meðan á prófi stendur og þeir mega ekki hafa aðrar bækur eða gögn með sér en þau sem ráð er fyrir gert af þeim kennurum sem aðild eiga að prófinu.
k) Verði nemandi uppvís að því að hafa rangt við í prófi skal prófverkefnið og úrlausnin umsvifalaust tekin af nemandanum og kennslustjóri eða staðgengill hans kallaður til. Máli nemandans skal síðan vísað til aðstoðarrektors kennslumála til úrskurðar.
l) Nemandi sem ekki getur mætt til prófs vegna veikinda, skal tilkynna forföll áður en próf hefst. Læknisvottorði skal skila til skrifstofu skólans við fyrsta tækifæri og eigi síðar en fimm dögum eftir að próf var haldið, annars telst nemandi hafa þreytt prófið. Það sama gildir ef nemandi mætir ekki í próf vegna veikinda barns.
m) Nemendum skal eftir því sem unnt er standa til boða að taka próf nærri heimili sínu ef samningar nást þar um við menntastofnanir (eða aðra aðila sem skólinn samþykkir) í næsta nágrenni. Viðkomandi nemar standa sjálfir straum af þeim kostnaði sem af slíku fyrirkomulagi hlýst.

1.7.5 Um einkunnagjöf
Lokaeinkunn hverrar námsgreinar er gefin frá 0,0-10,0 með einum aukastaf. Nú er lokaeinkunn samsett úr einkunn á lokaprófi og hluteinkunn sbr. 2.7.7 og skal þá lokaeinkunn reiknast sem vegið meðaltal lokaprófs og hluteinkunnar, hvorutveggja reiknað með einum aukastaf. Skilyrða má lágmarkseinkunn á lokaprófi í kennsluáætlun, sé annað ekki tekið fram í kennsluáætlun er lágmarkseinkunn á lokaprófi 5,0. Í sérstökum tilfellum er heimilt að gefa námskeiði lokaeinkunnina staðið/ekki staðið. Telst þá sú námsgrein ekki með við útreikninga meðaleinkunnar til B.S.-prófs. Í
kennsluáætlun skal koma fram á hvaða þáttum slíkt mat er gert.

1.7.6 Um endurtöku prófa o.fl.
Nú nær nemandi ekki tilskilinni prófeinkunn eða lokaeinkunn í háskólanámi og er honum þá heimilt að endurtaka lokapróf tvisvar og reiknast slík lokapróf móti hluteinkunn sbr. 1.7.7. Hafi nemandi náð lágmarks lokaeinkunn getur hann engu að síður óskað eftir að endurtaka lokapróf ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Heimili kennslunefnd það skal prófið þreytt í næsta skipti sem reglulegt próf í greininni er haldið og vegið á móti sömu hluteinkunn (t.d. fyrir verkefni, ritgerðir o.þ.h) og fyrra lokapróf.

1.7.7 Námsverkefni
Til námsverkefna teljast þau verkefni, bókleg eða verkleg, þar með talin próf á námstíma, sem gefið er tölueinkunn fyrir til lokaeinkunnar. Vægi hvers námsverkefnis í lokaeinkunn skal tilgreint í kennsluáætlun og mynda þau sameiginlega hluteinkunn sem reiknast móti lokaprófi sbr. 1.7.5. Heimilt er að krefjast tiltekinnar lágmarkseinkunnar fyrir námsverkefni til að öðlast próftökurétt á lokaprófi og sömuleiðis lágmarks skilaskyldu eða viðveru í einstökum námsþáttum enda komi það fram í kennsluáætlun.

1.7.8 Lokaverkefni til BS prófs
Lokaverkefni eru hluti af grunnáminu eins og kveðið er á um í kennsluskrá á hverjum tíma. Nemandi ráðfærir sig við einn af kennurum skólans og vinnur að verkefninu undir stjórn eða umsjón hans samkvæmt samningi sem aðilar gera með sér (samningur um BS lokaverkefni). Nemanda er einnig heimilt að vinna að lokaverkefni undir stjórn stundakennara. Í slíkum tilvikum þarf samþykki kennslunefndar, sem jafnframt tilnefnir ábyrgðamann úr röðum fastráðinna kennara, og er þá gengið frá samningi um verkefnið áður en vinna við verkefnið hefst. Frágangur verkefnis (ritgerðar, hönnunarverka) skal vera í samræmi við nánari reglur um frágang rannsóknaritgerða / hönnunarverkefna við stofnunina. Kennari gefur einkunn fyrir BS ritgerð í samráði við umsjónarmann BS ritgerða sem tilnefndur er af deild og annast yfirlestur allra BS lokaverkefna og annast samræmingu einkunna í samráði við kennara.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is