Undirritun samstarfsyfirlýsingar bændasamtakanna og stjórnvalda

Undirskrift samstarfsviljayfirlýsingar bænda og stjórnvalda

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra skrifuðu undir yfirlýsinguna í húsakynnum LbhÍ þar sem lýst er yfir vilja til samstarfs að málefnum landbúnaðar og náttúruverndar. Mikil tækifæri eru fólgin í góðu samstarfi bænda og stjórnvalda á sviði náttúruverndar. Bent er á að bændur á Íslandi séu vörslumenn lands og stór hluti þess í þeirra umsjón. Bændur geta sinnt þessu vörsluhlutverki með sjálfbærri nýtingu lands svo þeir geti skilað því í jafngóðu eða betra ástandi en þeir tóku við því.

Sæmundur Sveinsson, rektor LbhÍ talaði um starfsemina og áranginn sem náðst hefur á Hvanneyrarjörðinni, til að mynda með tilliti til friðunar lands og húsakosts.  Ragnhildur Helga Jónsdótti, aðjúnkt við auðlinda og umhverfisdeild LbhÍ sagði mikilvægt að horfa á samþættingu landbúnaðar og landverndar, „með þeirri nýtingu sem fylgir landbúnaði, getur oft á tíðum verið fólgin hin besta náttúruvernd. Hér er í Andakíl er mjög gott dæmi um það hvernig þetta tvennt samtvinnast, ekki í andstöðu við hinn hópinn, heldur einmitt getur þessi mismunandi landnýting spilað saman, og getur hvor anginn stutt hinn. Mesta friðunin getur verið að það sé dagleg umgengni, land sé hirt og nýtt, fyrir utan að þeir sem eiga og nýta landið tryggja ákveðna verndun s.s. að óviðkomandi séu ekki á ferð á svæðum sem þeir hafa ekkert erindi á, og þannig er lífríkinu hlíft“. EInnig talaði hún um friðland fugla í Andakíl og þá góðu samvinnu og fjölbreyttu starfsemi sem á sér stað þess innan.

„Ég fagna auknu samstarfi við bændur en með þessari yfirlýsingu förum við saman í nýsköpun í náttúruvernd,“ segir Guðmundur Ingi um samstarfsyfirlýsinguna. „Samstarfið mun leiða af sér tillögur um hvernig bændur geti tekið meiri þátt í náttúruverndarstarfi. Það má sjá fyrir sér að það gæti tekið til verndaraðgerða vegna ákveðinna tegunda, endurheimt vistkerfa, t.d. votlendis og umsjón með landi sem þarfnast verndar. Að undirrita samstarfsyfirlýsinguna á Hvanneyri var síðan sérstakt ánægjuefni enda er til fyrirmyndar hvernig þar og á nærliggjandi jörðum hefur tekist að samþætta blómlegan landbúnað við mikilvægar aðgerðir til verndar náttúrunni.“

Það verður spennandi að fylgjast með framgöngunni en byrjað verður á greiningarvinnu og mögulegar aðgerðir skilgreindar að svo búnu.

Nánar má lesa um viljayfirlýsinguna á vef Bændablaðsins hér og á vef stjórnarráðsins hér 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is