Út er komið Rit LbhÍ nr. 110. Áhrif aldurs áa, þunga, holda og framleiðsluára á frjósemi áa- greining á gagnasafni Hestbúsins 2002-2013

Áhrif aldurs áa, þunga, holda og framleiðsluára á frjósemi áa- greining á gagnasafni Hestbúsins 2002-2013 eftir Jóhannes Sveinbjörnsson, Emmu Eyþórsdóttur og Eyjólf Kristinn Örnólfsson. Hægt er að nálgast ritið hér.

Gagnasafnið sem notað var í verkefninu innihélt upplýsingar um 5558 afurðaár áa á Hestbúinu á 12 ára tímabili, 2002-2013. Meðal þess sem niðurstöður tölfræðigreininga leiddu í ljós var að fyrir hver 3 kg sem meðalærin er þyngri í nóvember, má reikna með að frjósemi fari upp um 0,02 fædd lömb á hverja á sem ber. Fyrir hver 3 kg sem ærin þyngist frá nóvember fram í desember, má líka búast við að frjósemi fari upp um 0,02 fædd lömb á hverja á sem ber. Meðalfjöldi fæddra lamba eftir hverja á sem bar var 1,96, fyrir allt gagnasafnið.

Áhrif aldurs ánna voru töluverð, tvævetlur sýndu minnsta frjósemi (1,86) en mestu frjósemi sýndu 5 og 6 vetra ær (2,04). Minnst var frjósemin framleiðsluárið 2002, eða 1,89 lömb á hverja borna á, en mest framleiðsluárið 2005, eða 2,04 lömb á hverja borna á.

Þar sem sömu ærnar koma fyrir endurtekið í gagnasafninu mátti taka einstaklingsáhrif mæðra með í tölfræðigreininguna, og voru þau sem vænta mátti umtalsverð.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is