Esther Kapinga við sýnatöku á jarðvegsdýrum á Norðurtanga á Surtsey. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson

Landbúnaðarháskólinn tekur þátt í rannsóknum í Surtsey

Árlegur líffræðileiðangur Surtseyjarfélagsins fór fram dagana 12-16 júlí síðast liðinn. Að þessu sinni voru það átta náttúrufræðingar sem tóku þátt. Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri) og Matthías Alfreðsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Bjarni Diðrik Sigurðsson og Esther M. Kapinga frá Landbúnaðarháskólanum, bandaríski fræðimaðurinn Joe Ramon og þau Karl Gunnarsson og Svanhildur Egilsdóttir frá Hafrannsóknastofnun, auk Magnúsar Freys Sigurkarlssonar landvarðar frá Umhverfisstofnun.

Hópurinn vann að hefðbundnum rannsóknum og vöktun á fuglum, skordýrum og gróðri og sinnti auk þess nokkrum sértækum rannsóknum á sjávarþörungum og jarðvegsdýrum (sjá neðst).


Lífríki Surtseyjar er enn að taka breytingum 58 árum eftir að hún reis úr sjó. Þó hefur almennt hægt á framvindunni sem tók mikið stökk eftir að síla- og silfurmáfur tóku að verpa á ákveðnu svæði á 9. áratugnum. Mávarnir auka frjósemi svæðisins, auk þess sem þeir bera greinilega með sér fræ frá nálægum eyjum og/eða ofan af fastalandinu. Við höfum notað samsætumælingar á köfnunarefni til að aðgreina hversu mikið af því næringarefni sem er í gróðri og jarðvegi í hverjum vöktunarreit á Surtsey berst með máfunum (úr hafrænni fæðu) og hversu mikið berst með ákomu úr andrúmslofti. Utan græna svæðisins á myndinni er >95% af því köfnunarefni sem finnst í jarðveginum úr andrúmslofti, en hlutfall hafræns köfnunarefnis í jarðvegi og gróðri vöktunarreita eykst eftir því sem mávarnir hafa orpið lengur í kringum þá. Að meðaltali bæta mávarnir við um 47 kg N/ha við næringarefnaforðann á hverju ári innan varpsins. Magnið svarar til um hálfs skammts sem íslenskir bændur bera á í túnrækt sinni. Utan varpsins eykst forðinn einungis um ca. 1 kg/ha/ári, sem er u.þ.b. eðlileg ákoma úr andrúmslofti.

Leiðangursmenn líffræðileiðangursins 2021. Talið frá vinstri: Svanhildur Egilsdóttir, Borgþór Magnússon, Joe Roman, Matthías V. Alfreðsson, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Esther Kapinga, Karl Gunnarsson og Magnús Freyr Sigurkarlsson. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir
Horft til SV ofan af Vesturbunka á Surtsey. Hús Surtseyjarfélagsins sést og svæðið sem mávarnir hafa aukið gróðurþekjuna með „áburði“ sínum síðustu 35 árin. Varpið hófst þar sem svæðið er grænast. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson
Fýll á jafnsléttu í Surtsey. Ljósm. Matthías S. Alfreðsson.
Borgþór Magnússon, gróðurvistfræðingur frá Náttúrufræðistofnun (lengst t.h.) sýnir félögunum grástörina sem hann fann í fyrsta skipti í Surtsey í leiðangrinum 2021. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Þéttleiki mávshreiðra er ávalt talinn umhverfis fasta vöktunarreiti á eynni, en heldur hefur dregið úr þéttleika þeirra á undanförnum árum þótt að ekki sé hægt að tala um neitt hrun í því sambandi, eins og gerst hefur sumstaðar annarsstaðar á SV-landi eftir 2005. Fýl hefur nú hinsvegar greinilega fjölgað í eynni, en þar verpir hann m.a. í hópum á jafnsléttu á tveimur svæðum. Eitthvað sem ekki sést víða annarsstaðar. Þessi hegðun skýrist vænanlega af því að engin landrándýr eru í eynni og ekki síður af því hversu mannaferðir eru þar fátíðar. Segja má því að þarna komi gildi friðunarinnar vel í ljós.



Alls hafa fundist 79 tegundir æðplantna í Surtsey og af þeim fundust 66 tegundir á lífi í þessum leiðangri. Surtsey er því tegundaauðugasta eyja Vestmannaeyjaklasans, að Heimaey undanskilinni. Ein plöntutegund hafi dáið út frá fyrra ári, maríustakkur, en ein ný plöntutegund fannst í eynni að þessu sinni. Það var grástör, sem einnig finnst með ströndinni á SV, S og A-landi og er nokkuð algeng á Heimaey og því á listanum fyrir væntanlega landnema.

Hluti Surtseyjar er núna orðin svo gróinn að eyjan stendur undir eigin beitardýrum. A.m.k. ein grágæs hafði verpt í eynni og komið upp þremur ungum. Einnig hafði hrafninn í Surtsey verpt og komið upp a.m.k. einum unga, en segja má að hann tróni á toppi fæðupíramítans á eynni. Talsvert var einnig af sólskríkju, maríuerlu og þúfutittlingi í varpi. Þá fannst einnig sandlóuhreiður með fjórum eggjum, en þar með er fjöldi staðfestra varpfugla kominn í sautján tegundir. Á Norðurtanga sást víxlnefur sem er sjaldséður gestur hérlendis og einnig vöktu nokkrir dílaskarfar athygli leiðangursmanna, en þeir sátu uppi á sjávarklettum hennar.

Skordýralíf var með mesta móti og bar mikið á rán-skordýrunum langlegg og járnsmið, sem segir okkur að fæðuframboð neðar í fæðupíramítanum var gott. Skordýr og önnur smádýr voru veidd í fallgildrur í öllum vöktunarreitum, auk þess sem fiðrildagildra var sett upp í mávavarpinu og skordýrafræðingur háfaði dýr í öllum helstu búsvæðum sem finnast á eyjunni. Stöðugt hefur bæst við tegundir í þessum dýrahópi á undanförnum árum, en hversu margar þær verða nú verður ekki vitað fyrr en að lokinni greiningum og úrvinnslu á rannsóknastofu Náttúrufræðistofnunar.

Sandlóuhreiður sem fannst í Surtsey. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson.
Esther Kapinga við sýnatöku á jarðvegsdýrum á Norðurtanga á Surtsey. Ljósm. Bjarni Diðrik Sigurðsson.
logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image