Sitkalús. Ljósmynd Edda S. Oddsdóttir af vef Skógræktarinnar skogur.is

Þrjár nýjar greinar í vísindatímaritinu IAS

Út eru komnar þrjár nýjar greinar í vísindatímaritinu Icelandic Agricultural Sciences ias.is. Greinarnar birtust í 34. tölublaði þessa árs og fjalla annars vegar rannsóknir á hníslum í kálfum, lungnaormum í sauðfé og sitkalús.

Þróun smits og tegundasamsetningar hnísla í íslenskum ungkálfum

Charlotta Oddsdóttir and Guðný Rut Pálsdóttir rituðu greinina. Saursýnum var safnað úr alls 11 kálfum á þremur mjólkubúum (fjórum á tveimur búum og þremur á einu búi) þar sem kálfar þrífast almennt vel og eru ekki meðhöndlaðir með hníslasóttarlyfjum að staðaldri. Á einu búanna voru kálfar í hópstíu á heyi/hálmi, á öðru voru kálfar í parastíu á plastrimlum þar til þeir voru færðir í hópstíu á steyptum bitum, og á þriðja búinu voru kálfar í hópstíu á steyptum bitum. Þéttleiki saurs og fjöldi Eimeria þolhjúpa á hvert gramm saurs (OPG) voru metin. Tegundagreining var byggð á útliti þolhjúpa. Hníslar fundust í öllum kálfunum á rannsóknartímanum og 55% kálfanna fengu niðurgang á rannsóknartímanum. Mesti fjöldi hnísla var 69,300 OPG. Fyrsti toppur í útskilnaði hnísla sást 2-3 vikum eftir að kálfarnir höfðu verið settir í hópstíu með eldri kálfum. Annar toppur sást 2-3 vikum eftir það. Níu tegundir hnísla fundust, þar með taldir mestu skaðvaldarnir, E. bovis og E.zuernii. Niðurstöðurnar eru í samræmi við fyrri rannsóknir um að stór áhættuþáttur í hníslasmiti í kálfum sé að koma í hópstíu þar sem eldri kálfar eru fyrir. Greinina má nálgast í heild sinni hér

Skemmdir á sitkagreni í Reykjavík af völdum sitkalúsar

Juliane Kuckuk, Sibren van Manen, Ólafur Eggertsson, Edda Sigurdís Oddsdóttir, Jan Esper rituðu greinina. Sitkalús (Elatobium abietinum) veldur oft talsverðum skemmdum á sitkagreni (Picea sitchensis) á Íslandi. Samanburður á sitkagrenireitum í Reykjavík, frá 2013 til 2017, leiðir í ljós afgerandi mun á skemmdum vegna sitkalúsar í nánd við fjölfarnar götur (94% skemmdarhlutfall) og trjáa í nokkur hundruð metra fjarlægð frá umferðaræðum (47%). Efnagreiningar á barri sitkagrenisins sýna einnig umtalsvert hærra hlutfall köfnunarefnis í trjám nálægt fjölförnum götum. Einnig hefur hækkun vetrarhita síðustu ára (frá 2003) valdið því að stærri stofnar lúsarinnar lifa af veturinn og fært sitkalúsarfaraldra frá hausti til vors. Þegar vöxtur trjánna er skoðaður sjást greinileg neikvæð áhrif ári eftir sitkalúsarfaraldra. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að helstu ástæður fyrir auknum sitkalúsaskemmdum í Reykjavík sé samspil hærri vetrarhita, aukinnar tíðni faraldra og hækkun á hlutfalli köfnunarefnis í nálum borgartrjáa. Greinina í heild sinni má finna hér.

Lungnaormar í sauðfé (Ovis aries) á Íslandi – smittíðni, smitmagn og útbreiðslan 1992-1993

Hrafnkatla Eiríksdóttir And Karl Skírnisson rituðu greinina. Á sláturtíðinni 1992 og 1993 var lungum og meltingarvegi safnað úr 96 lömbum, einu lambi frá hverjum bæ. Bæirnir voru valdir með það í huga að endurspegla dreifingu sauðfjárbýla á Íslandi. Niðurstöður rannsókna á iðraormum hafa þegar verið birtar en hér er gerð grein fyrir rannsóknum á lungnaormum. Lungu voru varðveitt í frosti fram til ársins 2019 þegar lungnaormasmit í þeim var rannsakað. Höfundar fengu aðgang að lirfutalningum og tegundagreiningum í saur lambanna (Sigurður H. Richter, óbirt gögn). Þrjár tegundir lungnaþráðorma fundust í rannsókninni: lungnaörðuormurinn Muellerius capillaris (heildarsmittíðni 35,1%), litli barkapípuormurinn Protostrongylus sp. (2,4%) og stóri barkapípuormurinn D. filaria (16,7%). Lungnaörðuormurinn fannst í lömbum um allt land nema á norður- og norðausturlandi. Litli barkapípuormurinn fannst einvörðungu á tveimur bæjum í Eyjafirði. Stóri barkarpípuormurinn fannst í öllum landshlutum en var algengastur sunnan og vestanlands. Vegna þess hversu fá sýni voru skoðuð gefa útbreiðslukort í greininni til kynna lágmarksútbreiðslu viðkomandi tegunda. Greinina í heild sinni má finna hér. 

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image