VIð undirritun viljayfirlýsingar. igurður Grétar Halldórsson, Pure North, Egill Gunnarsson bústjóri og Jóhanna Gísladóttir umhverfisstjóri

Búrekstur Landbúnaðarháskóla Íslands og Pure North Recycling í samstarf

Pure North Recycling og búrekstur Landbúnaðarháskóla Íslands, sem samanstendur af Hvanneyrarbúinu ehf, Tilraunasauðfjárbúinu á Hesti og Hestamiðstöðinni á Mið-Fossum, undirrituðu samstarfssamning sín á milli mánudaginn 5.desember. Sigurður Grétar Halldórsson, framkvæmdastjóri, skrifaði undir fyrir hönd Pure North Recycling og Egill Gunnarsson, bústjóri Hvanneyrarbúsins og Jóhanna Gísladóttir, umhverfisstjóri skrifuðu undir fyrir hönd LbhÍ. Í samningnum er fólgið að það heyrúlluplast sem fellur til í búrekstri LbhÍ fari í endurvinnslu í starfsstöð Pure North Recycling í Hveragerði.

Markmið samstarfsins er að auka sjálfbæra þróun og efla hringrásarhagkerfið á Íslandi þar sem endurvinnsla heyrúlluplasts verður í forgrunni. Samstarfið er mikilvægur hlekkur til bættrar úrgangsstjórnunar á Íslandi, en Pure North Recycling er sem stendur eina fyrirtækið á landinu sem endurvinnur plast að fullu. Fyrirtækið hefur hafið metnaðarfullt þróunarstarf í átt að framleiðslu á nýjum vörum úr endurunni plasti. Á meðal þeirra vara sem fyrirtækið hefur þróað eru girðingastaurar.

“Þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem verið er að bæði loka endurvinnsluhringrásinni og nýta það innan sama geira” segir Sigurður, sem vill hvetja bændur til að skila inn sínu heyrúlluplasti til Pure North Recycling og fá þá greitt fyrir það og fá vottorð um endurvinnslu þess, sem skilar sér inn þá líka inn í bókhald búsins.

Í endurvinnsluferlinu er lögð áhersla á að halda kolefnissporinu í lágmarki og komast hjá notkun eiturefna. Áætlað er að fyrir hvert tonn sem er endurunnið af plasti sparist um 1,8 tonn af olíu, svo ljóst er að til mikils er að vinna. Í gegnum samstarf sitt munu búrekstur LbhÍ og Pure North Recycling leitast við að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi flokkunar og þeim umhverfisáhrifum sem bætt úrgangsstjórnun hefur á landbúnað.

Það er ánægjulegt að sjá úrgangsefni frá landbúnaði verða að nýtilegri auðlind innanlands, rétt eins og búfjáráburðurinn. Við hlökkum til samstarfsins og vonumst til þess að það leiði af sér útvíkkun á fleiri sviðum” segir Egill Gunnarsson, bústjóri Hvanneyrarbúsins.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image