Til minningar um Grétar Einarsson fyrrum starfsmann Landbúnaðarháskóla Íslands

Grétar Einarsson 1940-2023

Grétar Einarsson fyrrum starfsmaður Landbúnaðarháskóla Íslands er látinn. Að loknu búnaðarnámi hér heima og rannsóknanámi við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn hóf hann föst störf hjá Bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins árið 1974. Jafnframt þeim gerðist hann stundakennari við Bændaskólann á Hvanneyri. Föstu starfi lauk Grétar við kennslu og rannsóknir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2010. Bútækni var sérsvið Grétars. Hann stjórnaði m.a. búvélaprófunum og -rannsóknum um langt árabil og tók virkan þátt í norrænu samstarfi á því sviði. Leiðbeiningar um val og meðferð búvéla urðu stór hluti af starfi Grétars. Þess naut þorri íslenskra bænda með kennslu hans, fræðslugreinum, námskeiðum og ótal bændafundum. Endurkomu plógsins í jarðyrkju hérlendis má t.d. rekja til rannsókna Grétars á og hagnýtri fræðslu um plægingar með nútíma tækni. Gagnmerkar rannsóknir gerði hann einnig á húsvist búfjár og vinnuaðstöðu bænda við gripahirðingu. Í öllum þessum störfum naut hann óskoraðs trausts þeirra mörgu sem verka hans nutu. Með ævistarfi sínu tengdi Grétar saman rannsóknir og þróun bútæknifræða og þarfir bænda á hröðu breytingaskeiði íslensks landbúnaðar. Hann leitaðist jafnan við að breyta fræðum í hagfelldan árangur búskapar bænda.

Landbúnaðarháskóli Íslands þakkar Grétari Einarssyni mikið og óeigingjarnt ævistarf og sendir fjölskyldu hans innilega samúðarkveðju.

 

BG

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image