Frakkland og Evrópusambandið vilja laða að vísindamenn sem staðsettir eru í Bandaríkjunum og hafa orðið fyrir barðinu á aðgerðum Donalds Trump gegn háskólasamfélaginu þar í landi. Áætlað er að gripið verði til hvata svo fræðimenn setjist að í Evrópu.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, voru stödd í Sorbonne-háskólanum í París í dag, ásamt leiðtogum evrópskra háskóla og vísindamönnum, þar sem tilkynnt var um hvatakerfi og vernd fyrir fræðimenn sem vilja flytja til Evrópu.
Viðburðurinn, sem sameinar evrópska vísindamenn og embættismenn frá framkvæmdastjórn ESB, er nýjasta skrefið í að opna Evrópu fyrir vísindamönnum í Bandaríkjunum sem óttast að rannsóknarstarf þeirra sé í hættu vegna niðurskurðar á alríkisfjárveitingum til háskóla og rannsóknastofnana.
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, var stödd á ráðstefnunni ásamt öðrum rektorum háskóla sem mynda hið öfluga UNIGreen háskólanet sem samanstendur af átta háskólum sem sérhæfa sig í sjálfbærum landbúnaði, grænni líftækni og lífvísindum. Auk Ragnheiðar var rektor Háskólans á Bifröst, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, einnig viðstödd ráðstefnuna.
Viðburðurinn bar heitið Veldu Evrópu fyrir vísindi (e. Choose Europe for science) og kom í kjölfar þess að 13 Evrópuríki, þar á meðal Frakkland, Þýskaland og Spánn, skrifuðu framkvæmdastjórn ESB og hvöttu hana til að bregðast hratt við til að laða að fræðimenn til Evrópu.
Nánari upplýsingar um fundinn má til dæmis finna á Youtube síðu framkvæmdastjórnar ESB, vefsíðu The Guardian og í frétt hjá France24.
Tengdar fréttir:
- https://www.ruv.is/utvarp/dagskra/ras1/2025-05-05/5413385
- https://www.ruv.is/frettir/erlent/2025-04-16-oroi-og-ovissa-i-bandariskum-haskolum-441705
- https://www.ruv.is/frettir/erlent/2025-04-15-bandariskir-haskolanemar-saekjast-i-auknum-maeli-eftir-nami-i-kanada-441689