Landbúnaðarháskóli Íslands fær afhent nemendaspjald frá 1912

Hér má sjá nemendaspjaldið, meðmælabréfið og póstkortin stíluð á Þorgeir Bjarnason.

Skólinn eignast nemendaspjald frá 1912

Síðastliðið haust fékk Landbúnaðarháskóli Íslands að gjöf nemendaspjald frá árinu 1912-1913. Spjaldið var ekki til í frumriti og var gjöfinni því vel tekið. Fjölskylda Þorgeirs Bjarnasonar sem var einn af nemendum umræddan vetur, færði skólanum spjaldið og hafði einni meðferðis meðmælabréf frá Halldóri Vilhjálmssyni fyrrum skólastjóra Bændaskólans og póstkort stíluð á Þorgeir. Þorgeir starfaði á Hvanneyrarbúinu í fjögur ár og var meðal annars bústjóri eins og meðmælabréfið ber vitni um.

Nemendaspjaldið og saga Þorgeirs Bjarnasonar ásamt meðmælabréfinu og póstkortum hanga uppi í anddyri Ásgarðs, aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri þar sem áhugasamir geta virt fyrir sér gripina.

 

Þórdís Kristjánsdóttir, sonardóttir Þorgeirs og Elínar ritaði samantekt um lífshlaup Þorgeirs Bjarnasonar en hún ásamt hjónunum Þorgeiri Kristjánssyni, t.v. og Sigríði Einarsdóttur, t.h. komu færandi hendi og tók Rósa Björk Jónsdóttir á móti fyrir hönd skólans.

 

Þorgeir Bjarnason

Þorgeir Bjarnason var fæddur á Eyri í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp 26. júlí 1890 - d. 1981 á Selfossi.  Foreldrar hans voru Bjarni Jónsson (1845-1900) ættaður af Snæfellsnesi og Ingibjörg Þórarinsdóttir (1848-1928) frá Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann eignaðist fjögur systkini. Tvær systur sem létust ungar, bróður sem lést í bernsku og svo bróður sem komst á háan aldur. Þorgeir missti föður sinn 10 ára gamall og var þá vistaður hjá Gunnari Halldórssyni í Skálavík sem er við Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi og líkaði þar vel. Hann var einng hjá móðurbróður sínum Kristjáni Eldjárni Þórarinssyni og frændfólki sínu á Tjörn í Svarfaðardal. Þorgeir fór til frænda síns Jóns Jónatanssonar sem bjó á Brautarholti á Kjalarnesi en einnig á Ásgautsstöðum á Stokkseyri. Jón var lærður búfræðingur frá Ólafsdal, Noregi og Danmörku og hafði það áhrif á búfræðiáhuga Þorgeirs. Þorgeir gekk í Flensborgarskóla og var svo 4 vetur á Hvanneyri bæði sem nemandi og einnig í vinnu á árunum 1912-´16. Þorgeir réð sig sem ráðsmann hjá Skúla Thorarensen og Vigdísi í Gaulverjabæ 1917.

Árið 1918 giftist hann Elínu Kolbeinsdóttur (f. 12. ágúst 1894, d. 9. mars 1972) frá Vestri-Loftsstöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) en hún var þá organisti við Gaulverjabæjarkirkju. Elín hafði ásamt orgelnámi gengið í kvöld- og Kvennaskólann í Reykjavíkunn og unnið hjá hjá Nielsen-hjónunum í „Húsinu“ á Eyrarbakka. Foreldrar Elínar voru Sigríður Jónsdóttir (1863-1943) frá Vestri-Loftsstöðum og Kolbeinn Þorleifsson (1869-1901) frá Stóru-Háeyri á Eyrarbakka. Mæður þeirra Þorgeirs og Elínar bjuggu hjá þeim er þau fóru að búa og allt til hinsta dags.

Elín og Þorgeir hófu búskap að Keldnakoti í Stokkseyrarhreppi árið 1918, en fluttu 1921 að Hæringsstöðum í sama hreppi (nú Árborg) og bjuggu þar til dauðadags. Fimm börn misstu þau í fæðingu, en hin eru: Kristján Eldjárn (1922-2010), Kolbeinn (1923-2006), Bjarni Kristinn (1926-2012), Sigríður Ingibjörg (1937-2018) og Sólveig Antonía (1940-). Þorgeir lét sig varða félagsmál s.s. í búnaðarfélagi, sýslunefnd, stofnun Kaupfélags Árnesinga og  Mjólkurbús Flóamanna. Næsti nágranni Þorgeirs á Hæringsstöðum var Sigurgrímur Jónsson í Holti, Stokkseyrarhreppi sem einnig var honum samtímis á Hvanneyri (skv. jólakorti). Þeir bjuggu þar nágrannar í liðlega hálfa öld í sátt og samlyndi!

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image