Hestafræði
Traustur þekkingargrunnur með blöndu af verklegum og bóklegum fögum

Hestafræði er innihaldsríkt, alhliða nám sem byggist á blöndu af bóklegu námi og verklegum áföngum. Nemandi öðlast traustan þekkingargrunn á flestum sviðum hestafræða með sérstaka áherslu á íslenska hestinn. Námið er staðarnám í mörgum hestatengdum áföngum en möguleiki er á fjarnámi að hluta í öðrum fögum.
Þriggja ára háskólanám sem veitir BS gráðu - 180 ECTS einingar.
Brautarstjóri er Sigríður Bjarnadóttir.

Áherslur í námi


Skipulag námsbrautarinnar er í stórum dráttum þannig að grunnfög raungreina og sérfög búvísinda ásamt rekstrargreinum eru tekin með námskeiðum í reiðmennsku og hestatengdum áföngum. Í náminu er lögð áhersla á að skapa traustan þekkingargrunn á flestum sviðum hestafræða með sérstaka áherslu á íslenska hestinn. Skyldumæting er í verklega kennslu.
Áherslur á fyrsta ári
Kennsla er að mestu helguð grunnfögum raungreina, rekstrarfræðum og grunni hestatengdra faga.
Áherslur á öðru ári
Kennsla í sérfögum búvísinda, svo sem kynbótafræði, fóðurfræði, landbúnaðarbyggingar og tækni með aukna áherslu á reiðmennsku.
Áherslur á þriðja ári
Nemendur stunda nám í sérhæfðari hrossaáföngum, taka námskeið um þjálfunarlífeðlisfræði hrossa ásamt stoð- og hreyfifræði, þeir taka námskeið í kynbótadómum og enda á lokaverkefni sem tekur mestan tíma nemenda þegar líður að vori.
Skyldumæting er í verklega áfanga.

Að loknu námi

Nám á hestafræðalínu undirbýr fólk fyrir störf í atvinnugreininni við rekstur hrossabúa og fyrir sérhæfða þjónustu, ráðgjöf og hvers kyns miðlun þekkingar við hrossaræktendur og hestamenn.
Framhaldsnám

Námið hentar einnig mjög vel sem undirbúningur fyrir framhaldsnám til meistaragráðu á sviði hestafræða sem stunda má við LbhÍ. Þá er einnig möguleiki á frekara rannsóknanámi á þessu sviði til doktorsgráðu.
