Ræktun & Fæða
Búvísindi

BS gráða - 180 ECTS einingar
Matvælaframleiðsla og ræktun lands
Námið veitir undirbúning fyrir margvísleg störf tengd landbúnaði eða nám í dýralækningum, svo sem búrekstur, þjónustu, leiðbeiningar, kennslu og rannsóknir. Það er góð undirstaða fyrir framhaldsnám og vísindastörf á sviði landbúnaðarfræða.
Brautarstjóri er Sigríður Bjarnadóttir.


Áherslur í búvísindum

Áherslur á fyrsta ári: Kennsla í rekstrarfræðum og búvísindum, auk grunngreina á sviði raunvísinda og náttúrufræða.
Áherslur á öðru ári: Raunvísindi og náttúrufræði hafa áfram mest vægi en vaxandi áhersla er á búvísindi.
Áherslur á þriðja ári: Á þriðja ári er svigrúm fyrir valgreinar auk sérgreina í búvísindum. Undirbúningur vegna BS-lokaverkefna hefst fljótt á þriðja ári en vinna við þau tekur mestan tíma nemenda þegar líður að vori.

Lögð er áhersla á raungreinar og hagnýta náttúrufræði, námskeið á sviði jarðræktar og búfjárfræða og rekstrar- og tæknigreinar. Markmiðið er að undirbúa nemendur fyrir viðfangsefni og störf sem tengjast ræktun lands og landbúnaðarframleiðslu ásamt því að leggja grunn að framhaldsnámi og fræðistörfum á sviði búvísinda.

Að loknu námi í búvísindum

Nám til BS-prófs veitir undirbúning fyrir margvísleg störf sem tengjast landbúnaði við ráðgjöf, kennslu og rannsóknir. Einnig nýtist námið vel sem undirbúningur fyrir nám í dýralækningum, búrekstur og störf hjá fyrirtækjum sem þjóna landbúnaði og atvinnurekstri í dreifbýli.
Framhaldsnám í búvísindum

Meistaranám (MS) í búvísindum eykur hæfni fólks til að starfa í leiðbeiningaþjónustu í hvers konar búrekstrartengdum störfum. Einnig er mögulegt að stunda rannsóknanám til doktorsgráðu á sumum sviðum búvísinda.
