Þann 22. október varði Anna Mariager Behernd doktorsritgerð sína „Mynstur og ferli við landnám birkis; þekkingasköpun fyrir stórfellda endurheimt birkiskóga“ við Landbúnaðarháskóla Íslands. Andmælendur voru prófessorarnir Alison Hester frá James Hutton Institute í Skotland og Susana Bautista, University of Alicante, Spáni.
Doktorsverkefni Önnu sneri að því að auka þekkingu á mynstrum, ferlum og helstu drifkröftum fyrir landnám og aukna útbreiðslu birkiskóga. Það spannaði breiðan skala í rúmi og tíma, allt frá frá spírun og lifun kímplantna og yfir í samanburð á loftmyndum til að meta hvernig stærð og útbreiðsla birkiskóga í landslagi breytist yfir áratuga skeið.
Niðurstöðurnar verkefnisins sýna meðal annars að birkiskógarnir sem rannsakaðir voru stækkuðu árlega að meðaltali um 2% yfir 38-65 ára tímabil. Útbreiðsluhraðinn var þó breytilegur og mældist alla jafna meiri á landi sem var friðað fyrir búfjárbeit en á beittu landi og var mestur á örfoka landi sem hafði verið bæði friðað og grætt upp. Mælingar á landnámi við skógarjarða sýndu að stækkun birkiskóganna má fyrst og fremst rekja til sjálfgræðslu sem mældist í a.m.k. 100 m fjarlægð frá skógarjaðri á flestum rannsóknasvæðunum þó að þéttleiki fræplantna væri yfirleitt mestur næst skógarjöðrunum. Sjálfgræðslan takmarkast einkum af fræframboði og staðbundnum umhverfisþáttum, svo sem framboði á öruggum setum fyrir landnám, vindafari, jarðvegsskilyrðum og raski vegna búfjárbeitar. Mikilvægi öruggra seta var ennfremur staðfest með sáningatilraunum er sýndu mjög mismikið landnám eftir vistgerðum, sem endurspeglar mismunandi framboð á öruggum setum í þeim.
Rannsóknir Önnu sýna hversu áhrifarík sjálfgræðsla getur verið við að auka umfang náttúrulegra birkiskóga og þær auka þekkingu á þeim þáttum sem hafa áhrif á hana. Niðurstöðurnar styðja við markvissari leiðsögn um hvernig hægt er að stuðla að aukinni útbreiðslu birkiskóga með takmörkuðum inngripum og eru þannig mikilvægt innlegg við að hrinda í framkvæmd áformum stjórnvalda um að auka útbreiðslu birkiskóga úr 1,5% í 5% landsins, eða um 3500 km2.
Rannsóknirnar voru hluti af verkefninu BirkiVist (https://birkivist.is/), sem er þverfræðilegt rannsókna- og þróunarverkefni styrkt af Markáætlun um samfélagslegar áskoranir. Tilgangur verkefnisins er að auka skilvirkni við endurheimt birkiskóga og styðja við metnaðarfull áform stjórnvalda á því sviði, meðal annars með því að greina áskoranir, tækifæri og mögulegan ávinning af endurheimt birkivistkerfa á skóglausu landi. Leiðbeinendur Önnu í verkefninu voru Ása L. Aradóttir (LbhÍ), Kristín Svavarsdóttir (LogS) og Þóra Ellen Þórhallsdóttir (HÍ).
Við óskum dr. Önnu Mariager Behrend innilega til hamingju með áfangann!





