Meðmælalisti yfir hentugar plöntur fyrir íslenskar aðstæður

Yndisgróður er verkefni á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur það að markmiði að varðveita, rannsaka og koma á markað gamalgrónum íslenskum yrkjum garð- og landslagsplantna.  Ávinningur verkefnisins er fyrst og fremst bætt gæðastýring í plöntuvali og garðplöntuframleiðslu. Það mun skila betri plöntum, betri árangri og minni umhirðukostnaði til hagsbóta fyrir framleiðendur, seljendur og almenning í landinu. Afrakstur verkefnisins er listi yfir yrki og kvæmi sem mælt er með í ræktun hérlendis og birtur er á heimasíðu verkefnisins, http://yndisgrodur.lbhi.is/.

Ræktun og notkun garð-og landslagsplantna er vaxandi hér á landi og helst hún í hendur við aukinn áhuga almennings sem og opinberra aðila á garðrækt. Nú eru í ræktun fjöldi tegunda og yrkja af erlendum uppruna. Hætta er á að innfluttar plöntur af mismunandi uppruna ryðji gamalreyndum íslenskum yrkjum og kvæmum af markaði. Allur þessi efniviður hentar misvel fyrir íslenskar aðstæður og því er brýnt að velja úr og aðgreina sérstaklega það sem reynst hefur best í ræktun hér til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur.

Þær tegundir, yrki og kvæmi plantna sem birtar eru á heimasíðunni eru af meðmælalista Yndisgróðurs.  Til þess að plöntur uppfylli þær kröfur að komast á meðmælalistann þurfa þær að vera harðgerðar, nytsamar og verðmætar tegundir sem góð reynsla er af í ræktun hér á landi. 

Í plöntuleit er hægt að leita að plöntum af meðmælalista Yndisgróðurs eftir ýmsum leiðum og fá gagnlegar upplýsingar um t.d. útlit, þol og kröfur plöntunnar, einnig hvar og hvernig er best að nota hana. ATH! Sumar plöntur á lista Yndisgróðurs eru ekki í almennri framleiðslu og getur því framboð á þeim verið mjög takmarkað.  Í sumum tilfellum fást þær einungis á einni eða fáum gróðrastöðvum og/eða eru framleiddar í mjög litlu upplagi. Búast má við að með veru sinni á lista Yndisgróðurs komist þessar plöntur í almennari ræktun.

Nú er komið út nýtt rit með lýsingu á 19 íslenskum yrkjum. Yrkisnefnd Yndisgróðurs hefur útbúið ítarlega lýsingu á 19 íslenskum runnayrkjum sem finnast í yndisgörðum. Grasafræðingurinn Hjörtur Þorbjörnsson og garðplöntusérfræðingurinn Ólafur Sturla Njálsson sáu um grasafræðilega lýsingu. Auk þess er fjallað um uppruna, notkun og reynslu af yrkjunum. Er þetta mikilvægur hluti af viðurkenningarferli íslenskra yrka og liður í að meta gildi mikilvægra, valinna garð- og landslagsrunna sem íslenskar úrvalsplöntur.

Samstarfsaðilar Yndisgróðurs eru Félag garðplöntuframleiðenda, Rannsóknarstöð Skógræktar á Mógilsá og Reykjavíkurborg. Jafnframt er unnið með sveitarfélögunum Blönduósi, Kópavogsbæ og Sandgerðisbæ en þar hefur verið komið á fót yndisgörðum með safni af yrkjum og kvæmum sem lengi hafa verið í ræktun hér á landi. Yndisgarðar eru klónasöfn og sýningareitir sem er að finna á 6 stöðum á landinu: við LbhÍ á Reykjum og á Hvanneyri, í Fossvogi, Laugardal, Sandgerði og á Blönduósi.

Myndin er af japanskvisti "Golden Princess" í Yndisgarðinum á Reykjum.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image