Skrúðgarðyrkja
Skrúðgarðyrkja er lögfest iðngrein og stunda nemendur samningsbundið iðnnám hjá viðurkenndum skrúðgarðyrkjumeistara. Náminu lýkur með sveinsprófi.

Störf
Garðyrkjufræðingar af skrúðgarðyrkjubraut hafa allnokkra atvinnumöguleika. Þar má nefna til dæmis sem skrúðgarðyrkjumenn hjá sjálfstætt starfandi skrúðgarðyrkjumeisturum og einnig hjá bæjar- og sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum. Margir fara út í sjálfstæðan rekstur eða starfa sem Garðyrkjustjórar hjá bæjar- og sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum.

Skrúðgarðyrkjumenn annast m.a. uppbyggingu og gerð garða – leggja hellur og planta út trjám svo dæmi séu tekin. Þeir sjá líka um viðhald eins og trjá- og runnaklippingar, illgresiseyðingu, slátt, mosatætingu, úðun, áburðargjöf og margt fleira. Sérhæfing er umtalsverð. Sum fyrirtæki eru nær eingöngu í uppbyggingu en önnur helga sig viðhaldi garða og stórra opinna svæða.

Framhaldsnám
Að loknu bók- og verknámi geta nemendur tekið sveinspróf. Það er undanfari Meistaraskólans en það nám tekur að jafnaði þrjár annir. Skrúðgarðyrkjubrautin er góður undirbúningur ef fólk vill hefja háskólanám eins og t.d. í umhverfisskipulagi, þó er æskilegt að nemar hafi þá lokið fleiri kjarna einingum í framhaldsskóla. Skrúðgarðyrkjufræðingum stendur einnig margvíslegt nám til boða í nágrannalöndum okkar og sækja það flestir til Danmerkur eða Svíþjóðar.

Inntökuskilyrði
Æskilegt er að nemendur sem innritast á skrúðgarðyrkjubraut séu komnir á námssamning hjá viðurkenndum skrúðgarðyrkjumeistara og hafi lokið 12 vikna reynslutíma og hluta verknáms áður en þeir hefja bóknám.

Umsækjandi þarf að hafa lokið 2-4 önnum í framhaldsskóla. Auk íslensku (6e), dönsku (4e), ensku (4e) og stærðfræði 4(e) er ætlast til að nemendur hafi lokið grunnáföngum í efnafræði (3e), líffræði (3e), viðskiptagreinum (5e) og tölvunarfræði (3e).

Heimilt er að meta reynslu úr atvinnulífi til hluta fornáms á framhaldsskólastigi og er það skoðað hverju sinni.

Umsókn um skólavist skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla, vottorð um reynslutíma og námssamningur í skrúðgarðyrkju.

Sjá nánar hér: Starfsreglur starfsmenntanáms.