Meistaranám í skipulagsfræði
Skipulagsfræði er sjálfstæð þverfagleg grein sem byggir á þekkingu úr náttúruvísindum, félagsvísindum og arkitektúr.
Námið undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf sem skipulagsfræðingar hjá sveitarfélögum, opinberum stofnunum og í einkageiranum.
Í náminu er fjallað um skipulag, hönnun og stjórnun þéttbýlisþróunar og landnýtingar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Skipulag samþættir landnotkun, samgöngur, innviði, húsnæðismál, sjálfbærni, jöfnuð og lýðheilsu til að skapa skilvirk og lífvænleg samfélög.
Unnið er með mismunandi stig og mælikvarða skipulags, allt frá mótun borgar- og bæjarrýma til skipulags þéttbýlisstaða, sveitarfélaga og landshluta og stefnumótunar um skipulagsmál fyrir landið í heild.
Í náminu er unnið bæði fræðilega og með raunhæf viðfangsefni skipulagsmála. Verkefnavinna og málstofur í virku samtali nemenda og kennara, ásamt fyrirlestrum eru miðpunktur námsins.
Námið er 120 ECTS eininga meistaranám. Um helmingur þess byggir á skyldunámskeiðum, en um fjórðungur námsins eru valnámskeið. Lokaverkefni er 30 ECTS.
Námið veitir réttindi til starfsheitisins skipulagsfræðingur.
Námið fer fram í staðlotum á Keldnaholti í Reykjavík og í fjarnámi. Einnig eru valnámskeið við aðra háskóla.
Námsbrautarstjóri er Harpa Stefánsdóttir

BS/BA próf, til dæmis í arkitektúr, landfræði, landslagsarkitektúr, umhverfisfræði eða verkfræði.
Lágmarkseinkunn fyrir inntöku er 7,25 en þau sem lokið hafa BS eða BA prófi með meðaleinkunn 6,5 eða hærri geta sótt um inngöngu í námið.





