Náttúra og skógur
Náttúru- og umhverfisfræði

BS gráða – 180 ECTS
Grunnþekking á íslenskri náttúru, náttúrufari og vistkerfum
Námið veitir nemendum grunnþekkingu á íslenskri náttúru, náttúrufari og vistkerfum. Áhersla er lögð á breiða, þverfaglega og vistfræðilega nálgun og að nemendur þekki til helstu þátta innan vistkerfa og vistfræðilegra ferla. Þá er fjallað sérstaklega um samspil manns og náttúru og sjálfbæra nýtingu náttúrunnar.
Námið hentar sérlega vel þeim sem hafa breiðan áhuga á náttúrufræði, en vilja ekki strax sérhæfa sig í einni grein innan hennar.
Staðarnám og fjarnám.
Brautarstjóri er Fanney Ósk Gísladóttir

Áherslur í náttúru- og umhverfisfræði

Mesta vægi námsins er á almenna náttúrufræði en einnig er mjög horft til þverfaglegrar nálgunar til að tryggja að sem flest sjónarmið komi upp þegar ákvarðanir eru teknar sem tengjast eða hafa áhrif á náttúruna.
Lögð er áhersla á breiða, þverfaglega grunnþekkingu í náttúrufræðum; - á lífvana og lifandi þáttum náttúrunnar, á samspili og ferlum þessara þátta innbyrðis og við umhverfið í heild. Áhersla er á vistfræðilega nálgun með skilning á einingum og þáttum innan vistkerfa og vistfræðilegum ferlum. Við námslok ættu nemendur að hafa góðan þverfaglegan og samþættan skilning á grundvallarþáttum lífkerfa, samspili lífkerfa innbyrðis og við ólífrænt umhverfi sitt, áhrifum náttúrunýtingar á lífríki, sem og hvernig má nýta náttúruaðlindir á sjálfbæran máta.

Uppbygging náttúru- og umhverfisfræða

Á fyrsta ári er lögð áhersla á að veita almenna þekkingu og grunnskilning á sviðum náttúru og umhverfis. Áfangar eru t.d. almenn jarðfræði, tengsl manns og náttúru, grasafræði, hagnýt grunntölfræði, vistfræði og almenn efnafræði.
Á öðru og þriðja ári er kafað dýpra í viðfangsefnin með sérhæfðari áföngum. T.d. dýrafræði, plöntulífeðlisfræði, náttúrutúlkun, siðfræði náttúrunnar, jarðvegsfræði og vistheimt og sjálfbær landnýtingu auk ýmissa valáfanga, svo sem um mengun og tengsl arkitektúrs og náttúru.
Hvað segja nemendur


nemi í náttúru- og umhverfisfræðum
Ég valdi námið í náttúru og umhverfisfræði vegna þess að ég hef brennandi áhuga á náttúruvernd, sjálfbærri nátturunytingu og umhverfismálum.

nemi í náttúru- og umhverfisfræðum
Ég fór í náttúru- og umhverfisfræði vegna þess að námið er fjölbreytt og þverfaglegt. Mín helstu áhugamál tengjast útivist og heillaði námið mig þar sem það spannar allt milli himins og jarðar (bókstaflega) og opnar einnig fyrir marga möguleika. Ég hugsa að gráðan sé mjög mikilvæg þegar horft er til framtíðar enda þurfa allir að taka sér tak hvað varðar náttúru og umhverfi þar sem án náttúru erum við ekkert. Þriðja og seinasta árið mitt í LBHÍ sat ég í Grunnnámsnefnd sem fulltrúi nemenda þar sem mitt helsta hlutverk var að miðla ábendingum og hrósum milli nemenda og stjórnenda. Vel var tekið í ábendingar og margt bætt þó enn megi bæta margt líkt og í öðru námi, jákvætt þótti mér þó að hlustað var á ábendingar nemenda.
Ég stefni á mastersnám í sjálfbærri þróun, stjórnun og stefnumótun við Modulháskóla í Vínarborg næstkomandi haust.

Að loknu námi í náttúru- og umvherfisfræði

Nám í náttúru- og umhverfisfræðum er góð undirstaða undir allt framhaldsnám í náttúruvísindum. Það hentar vel fyrir margvísleg störf sem krefjast sérþekkingar á íslenskri náttúru, s.s. umsjón, stjórn og skipulag umhverfismála og landnýtingar, eftirlit og umsjón með náttúruverndarsvæðum og mat á umhverfisáhrifum. Einnig er námið kjörið fyrir þá sem hyggjast afla sér kennsluréttinda í náttúrufræðum á grunn- og framhaldsskólastigi.
Framhaldsnám í náttúru- og umhverfisfræði

Nám í náttúru- og umhverfisfræðum er góð undirstaða undir allt framhaldsnám í náttúruvísindum. Einnig er námið kjörið fyrir þá sem hyggjast afla sér kennsluréttinda í náttúrufræðum á grunn- og framhaldsskólastigi.
