Ræktun & Fæða

Búfræði

Image

Búrekstur og alhliða landbúnaðarstörf

Búfræðinám er góður undirbúningur fyrir alla sem koma að landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Búfræðingur sér um fóðrun, hirðingu og meðferð dýra, býr yfir þekkingu og færni í notkun og umhirðu landbúnaðartengdra véla, þekkingu á þörfum landbúnaðarins og þekkingu á ræktun og nýtingu plantna til fóðuröflunar og beitar. Hann hefur þekkingu á ræktun og kynbótum búfjár. Hann er meðvitaður um lög og reglur sem tengjast landbúnaðarframleiðslu og gætir að umhverfi og öryggi. Hann nýtir auðlindir landsins á skynsamlegan hátt með sjálfbærni og afurðir að leiðarljósi.

Kennt er á Hvanneyri.
Brautarstjóri í fjarveru Helga Eyleifs Þorvaldssonar er Eyjólfur Kristinn Örnólfsson  

Um hvað snýst nám í búfræði?

Image

Markmið búfræðináms er að auka þekkingu og færni einstaklingsins til að takast á við búrekstur og alhliða landbúnaðarstörf, ekki síst á sviði rekstrar, bútækni, jarð- og búfjárræktar. Möguleikar á sérhæfingu í náminu eru einkum á sviði nautgripa-, sauðfjár- og hrossaræktar. Á Hvanneyri er kennslufjós og fjárhús á Hesti. Þá er skólinn með frábæra aðstöðu til kennslu í hrossarækt og hestamennsku.

Hluti búfræðinámsins felst í námsdvöl á einu af tæplega 80 kennslubúum, sem LbhÍ er með samstarfssamning við. Þar dvelur nemandinn sem einn af fjölskyldunni í 12 vikur (apríl - júní) og tekur þátt í daglegum störfum heimilismanna.

Skipulag náms

Image
Á fyrsta ári taka nemendur fög sem gefa grunnþekkingu í búfræði, s.s. í jarðvinnslu- og jarðrækt, grasafræði, búfjárhaldi, bókhaldi, umhverfisfræði og í umhirðu véla og tækja og notkunar þeirra.
Á öðru ári eru sérhæfðari námskeið í boði, bæði sem skyldunámskeið og eins valnámskeið í beitarstjórnun, málmsuðu, ræktun nytjaplantna, búrekstri, nytjaskógrækt, fóðurfræði, mjaltaþjónum og framhaldsnámskeið í reiðmennsku, sauðfjárrækt og nautgriparækt. Náminu lýkur svo með lokaverkefni.
Inntökuskilyrði

Nám á búfræðibraut er sérhæft starfsmenntanám með námslok á þriðja hæfniþrepi. 

Umsækjandi þarf að hafa lokið þremur til fjórum önnum í framhaldsskóla og vera orðinn 18 ára. Einnig er heimilt að taka inn nemendur sem orðnir eru 25 ára gamlir og hafa reynslu úr landbúnaði en eru ekki með formlega menntun á framhaldsskólastigi. Um nemendur sem koma inn gegnum raunfærnimat gilda þær reglur sem raunfærnimatsferillinn innifelur.

Gert er ráð fyrir að umsækjandi hafi að minnsta kosti eins árs reynslu af störfum úr landbúnaði sem skólinn viðurkennir, áður en bóknám hefst.

Umsækjandi þarf að hafa lokið að lágmarki eftirtöldum áföngum í almennum framhaldsskóla (alls 45 fein): 

  • Íslenska á fyrsta og öðru hæfniþrepi, alls 10 fein
  • Enska á fyrsta og öðru hæfniþrepi, alls 10 fein
  • Stærðfræði á öðru hæfniþrepi, alls 5 fein
  • Danska 5 fein
  • Efnafræði – nemendur þurfa að hafa lokið almennri efnafræði á fyrsta eða öðru hæfniþrepi (5 fein) og æskilegt er að nemendur í búfræði hafi einnig lokið lífrænni efnafræði (5 fein).
  • Almenn líffræði á fyrsta eða öðru hæfniþrepi 5 fein
  • Bókfærsla á fyrsta hæfniþrepi 5 fein
  • Gert er ráð fyrir að nemendur séu vel tölvufærir og hafi góð tök á námstækni.

Æskilegt er að  nemandi hafi gilt skyndihjálparskírteini. 

Umsókn um skólavist skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla.  

Heimilt er að meta reynslu úr atvinnulífi til hluta fornáms á framhaldsskólastigi og er það skoðað í hverju tilviki. Umsókn um skólavist skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla og upplýsingar um starfsreynslu úr landbúnaði. 

Að loknu námi í búfræði

Image

Námið er góður undirbúningur til framhaldsnáms á sviði almennra náttúruvísinda, búvísinda og dýralækninga.

Nám á búfræðibraut er sérhæft starfsmenntanám með námslok á þriðja hæfniþrepi.

Kennsla í búfræði er blanda af bóklegu og verklegu námi

Image

Kennsla fer einnig fram á búum skólans

Image
Image
Image
logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image