Áhrif mismunandi beitarþunga sauðfjár á ungan lerkiskóg

Ný grein í hefti 33/2020 var að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences eftir Guðríði Baldvinsdóttur, Sigþrúði Jónsdóttur og Bjarna Diðrik Sigurðsson.

Rannsóknin var tveggja ára meistararannsókn fyrsta höfundar og fyrsta rannsóknin sem gerð er á áhrifum misþungrar sumarbeitar sauðfjár á rússalerki, en það er mest ræktaða trjátegundin til nytjaskógræktar hérlendis. Skoðuð voru áhrif þrennskonar beitarþunga á ungan (9-14 ára) lerkiskóg í Kelduhverfi þar sem einstök lerkitré voru á bilinu 12 til 301 cm há.

Helstu niðurstöður

Beitin hafði mælanleg áhrif á botngróður beittu svæðanna bæði árin, sem jukust með beitarþunga. Sumarbeitin hafði hinsvegar ekki nein áhrif á vöxt né viðgang lerkisins og engar skemmdir mældust á toppsprotum þess eftir tvö sumur. Það fundust þó marktæk beitaráhrif á hliðargreinar trjánna í þungbeitta og meðalbeitta beitarhólfinu seinna sumarið, en aðeins á stærri trjám og engin lerkitré minni en 50 cm á hæð voru bitin.

Rússalerki er almennt ekki eftirsótt af sauðfé og niðurstöður þessarar tilraunar gefa til kynna að óhætt er nýta ungan, óblandaðan lerkiskóg til sumarbeitar, óháð beitarþunga. Bent skal á að niðurstöðurnar eiga ekki endilega við vor- eða haustbeit sauðfjár, né beit í skógum sem innihalda aðrar trjátegundir í bland. Algjör beitarfriðun hefur um langan aldur verið aðgerð sem beitt er við upphaf nær allrar skógræktar hér óháð trjátegunum eða öðrum aðstæðum. Það er í raun ótrúlegt hversu fáar rannsóknir eru til í sauðfjárræktarlandinu Í slandi á samspili búsmala og skógrækt eftir 120 ára sögu slíkrar ræktunar hér. Það er því mikill fengur í þessari rannsókn Guðríðar og félaga.

Nýjar spurningar vakna

Eins og oft er þá vakna jafnframt margar nýjar og mikilvægar spurningar sem leita þarf svara við, eins og höfundar benda einnig á í greininni. Til dæmis vann Guðríður spurningarkönnun meðal sauðfjárbænda sem jafnframt stunda skógrækt, sem greint er frá í meistararitgerð hennar, en þar kom fram að þeir höfðu mestan áhuga að nýta skóga sína til beitar á haustin, eftir að fé er tekið af fjalli, en ekki á sumrin.

Óvarlegt er að heimfæra niðurstöður af sumarbeit á lerki beint yfir á hvaða áhrif gætu orðið ef slík beit færi fram að hausti, þegar beitargróður tekur að sölna. Það er því mikilvægt að halda áfram rannsóknum á samspili sauðfjárræktar og skógræktar.

Greininga má nálgast í heild sinni hér.

--

Icelandic Agricultural Sciences

--

Tengt efni
--
Dagar framhaldsnema Málstofur
Verkefni nemenda um skógarfuru kveikjan að nýrri vísindagrein
Rannsóknir á jarðvegsörverum og jarðvegsfrumdýrum auka skilning okkar á eiginleikum jarðvegs 
Rannsóknir á áhrifum hlýnunar á íslensk vistkerfi

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is