Áhrif skordýrabeitar á alaskalúpínu

Út var að koma grein í alþjóðlega vísindaritinu Agricultural and Forest Entomology eftir Brynju Hrafnkelsdóttur, doktorsnema við Landbúnaðarháskólann og sérfræðing við Mógilsá – Rannsóknastöð skógræktar, og fleiri.

Greinin fjallar um áhrif skordýrabeitar á alaskalúpínu. Í henni kemur fram að fyrstu áratugina eftir að lúpínan byrjaði að breiðast út á Íslandi þá er ekki vitað til að neina skordýr hafi lagst á hana. Það var árið 1991 sem fyrsti faraldur lirfa af innlendu fiðrildategundinni ertuyglu var skráður á lúpínu í Skaftafelli í Öræfum. Þessir faraldrar voru í fyrstu bundnir við Skaftafellssýslurnar og Eyjafjöll, en á síðari árum hefur æ meira borið á að lirfur mismunandi tegunda fiðrilda, bæði innlendra tegunda sem og aðfluttra, séu farnar að leggjast á lúpínuna á æ stærra svæði á Íslandi.

Rannsókn Brynju og félaga hafði það að markmiði að svara spurningunni hvort þessi aukna skordýrabeit hefur áhrif á lúpínuna á Íslandi? Lögð var út stýrð skordýrabeitarrannsókn í tvær lúpínubreiður á mismunandi aldri og framvindustigi, í unga, þétta lúpínubreiðu í öflugum vexti og í gamla breiðu sem byrjuð er að gisna, með fjórum meðferðum:

i) minnkuð skordýrabeit í þrjú ár,
ii) aukin skordýrabeit í þrjú ár,
iii) líkt eftir skordýrabeit með klippingu í eitt ár, og
iv) ómeðhöndlaðir samanburðarreitir. 

Helstu niðurstöður greinarinnar

Þær sýndu að:

i) skordýrabeitin í dag hefur marktæk neikvæð áhrif á fræframleiðslu lúpínunnar og hún svarar breytingum á beitarþunga þannig að
ii) minni beit leiðir bæði til meiri fjölda fræberandi stöngla og fræuppskeru. Hinsvegar kom einnig í ljós að aldur/framvindustig lúpínunnar skiptir miklu máli um hversu mikil áhrif skordýrabeitarinnar verða.

Þessar niðurstöður benda til að aukin skordýrabeit á alaskalúpínu á Íslandi á síðustu áratugum geti haft einhver áhrif á hversu ágeng lúpínan er, með því að draga úr fræframleiðslu í eldri breiðum. Önnur langtímaáhrif af skordýrabeitinni á lúpínunni gætu verið að flýta hopun lúpínunnar vegna þess að í árum þegar skordýrafaraldrar verða gisnar eldri lúpínan meira, og það getur gefið öðrum plöntutegundum tækifæri til að auka útbreiðslu sína á kostnað lúpínunnar. Að lokum bendir greinin á að þörf er á frekari rannsóknum á áhrifum hlýnandi loftslags á skordýrabeit á Íslandi og þau áhrif sem af slíkum breytingum geta orðið á bæði náttúruleg og manngerð vistkerfi hérlendis.

Hlaða má greininni niður HÉR

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is