BS verkefni nemenda um skógarfuru kveikjan að nýrri vísindagrein

Nýverið kom út vísindagrein sem vakið hefur athygli en kveikjan að henni voru tvö lokaverkefni nemenda við skólann, Benjamíns Arnar Davíðssonar (2007) og Maríu Vest (2018). Greinin birtist í alþjóðlega vísindaritinu Agricultural and Forest Entomology og er fyrsti höfundur hennar Lárus Heiðarsson hjá Skógræktinni, og þar starfa nú auk hans báðir fyrrum nemendurnir, Brynja Hrafnkelsdóttir, Brynjar Skúlason og Aðalsteinn Sigurgeirsson. Aðrir höfundar eru Guðmundur Halldórsson hjá Landgræðslunni og Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LBHÍ. Greinina má sjá í heild sinni hér

Greinin fjallar um skógarfuru á Íslandi, sem var mest gróðursetta tréð á Íslandi í upphafi skógræktar á þriðja til sjötta áratug síðustu aldar og í byrjun gekk allt vel og trén uxu vel og döfnuðu. Á fimmta og sjötta áratugnum kom hinsvegar upp mikil furulúsarplága hérlendis sem nánast útrýmdi þessari trjátegund, þannig að hætt var að gróðursetja hana hér eftir 1962 og hefur hún nánast ekki verið notuð síðan. Nær öll trén sem gróðursett voru hérlendis á þessum tíma, eða um 95%, voru af efniviði frá sama litla svæði í N-Noregi og ein tilgátan var að það hefði verið ein aðal ástæða þess hversu illa fór. Það er, að akkúrat þessi kvæmi hefðu verið sérstaklega viðkvæm fyrir furulúsinni.

Skógræktin ákvað að rannsaka hvort þessi tilgáta ætti við rök og styðjast og á árunum 2004-2006 gróðursettu þeir stóra tilraun með skógarfuru sem framleidd hafði verið af fræi frá mörgum stöðum innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis tegunarinnar, frá Skotlandi, Skandinavíu, Rússlandi og Ölpunum. Með í kvæmatilrauninni voru einnig þrjú “íslensk kvæmi”; þ.e. framleidd af fræi frá trjám af algenga N-Noregsupprunanum frá Fnjóskadal og Hallormsstað sem lifðu af furulúsapláguna án teljandi skemmda.

BS verkefnin fólust í að taka út þessa stóru kvæmatilraun og meta lifun, vöxt og furulúsasmit. Tilraunin fór vel af stað og í stuttu máli má segja að kvæmaval forfeðrana hafi verið að mestu staðfest, kvæmi frá norðanverðri eða mið-Skandinavíu lifðu og uxu best. Hinsvegar kom í ljós í seinni úttektinni að furulúsafaraldur er nú farinn að herja á öll innfluttu kvæmin og hafa neikvæð áhrif á vöxt þeirra og viðgang. Tilgátan um að of þröngt erfðaval hafi átt þátt í hversu illa fór fyrir skógarfurunni á sínum tíma er því hafnað. Stóru fréttirnar eru hinsvegar að furulúsin hefur EKKI lagst á íslendingana í tilrauninni!

Það virðist því ekki hafa verið nein tilviljun að akkúrat þeirra móðurtré lifðu af furulúsafaraldurinn á sínum tíma og að þeir beri í sér aukið þol gegn þessu sníkjudýri. Þarna er því um svokallaðan erfðafræðilegan flöskuháls að ræða og hér á landi hefur á einni kynslóð myndast nýtt afbrigði af skógarfuru með öðruvísi eiginleika en eru algengir í tegundinni annarstaðar.

Þessi grein hefur strax vakið talsverða athygli innan skógarrannsóknageirans á Norðurlöndum og Evrópu. Sjá t.d. umfjöllun á síðu Euforgen hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is