Búfræði

Tveggja ára nám á starfsmenntasviði, staðarnám og fjarnám. 
Kennt á Hvanneyri.

Búfræðingur sér um fóðrun, hirðingu og meðferð dýra, býr yfir þekkingu og færni í notkun og umhirðu landbúnaðartengdra véla, þekkingu á þörfum landbúnaðarins og þekkingu á ræktun og nýtingu plantna til fóðuröflunar og beitar. Hann hefur þekkingu á ræktun og kynbótum búfjár. Hann er meðvitaður um lög og reglur sem tengjast landbúnaðarframleiðslu og gætir að umhverfi og öryggi. Hann nýtir auðlindir landsins á skynsamlegan hátt með sjálfbærni og afurðir að leiðarljósi.

Áherslur í námi

Markmið búfræðináms er að auka þekkingu og færni einstaklingsins til að takast á við búrekstur og alhliða landbúnaðarstörf, ekki síst á sviði rekstrar, bútækni, jarð- og búfjárræktar.

Möguleikar á sérhæfingu í náminu eru einkum á sviði nautgripa-, sauðfjár- og hrossaræktar. Á Hvanneyri er kennslufjós og fjárhús á Hesti. Þá er skólinn með frábæra aðstöðu til kennslu í hrossarækt og hestamennsku.

Hluti búfræðinámsins felst í námsdvöl á einu af tæplega 80 kennslubúum, sem LbhÍ er með samstarfssamning við. Þar dvelur nemandinn sem einn af fjölskyldunni í 12 vikur (apríl - júní) og tekur þátt í daglegum störfum heimilismanna.

Að loknu námi

Námið er góður undirbúningur til framhaldsnáms á sviði almennra náttúruvísinda, búvísinda og dýralækninga.

Nám á búfræðibraut er sérhæft starfsmenntanám með námslok á þriðja hæfniþrepi.

Brautarstjóri er Helgi Eyleifur Þorvaldsson
 

Aðgangskröfur í nám í búfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands

Hefur þú áhuga á að læra búfræði í fjarnámi?

Samstarfsbraut LbhÍ og Menntaskóla Borgarfjarðar - Stúdentspróf frá MB og búfræðipróf frá LbhÍ

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is