Doktorsverkefni um samvinnu og samþættingu þekkingar um sjálfbæra landnýtingu

Landbúnaðarháskóli Íslands úthlutaði nýverið úr doktorssjóði skólans í fyrsta sinn. Tilgangurinn með Doktorssjóði skólans er að efla Landbúnaðarháskóla Íslands sem alþjóðlegan rannsóknaháskóla, auka enn frekar þekkingu á fræðasviðum náttúruvísinda, auðlinda- og búvísinda á Íslandi og gera efnilegum nemendum kleift að stunda doktorsnám við skólann. Jónína S. Þorláksdóttir hlaut annan styrkinn og hefur nú störf við LbhÍ.

Doktorsverkefni Jónínu ber heitið Implementation and impact of stakeholder engagement within a new vegetation and soil monitoring programme of Icelandic rangelands. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig samvinna og samþætting þekkingar ólíkra hagsmunaaðila, m.a. vistfræðinga og landnotenda í vöktun- og mati á gróður og jarðvegsauðlindum beitilanda geti skapað betri grunn fyrir sjálfbæra landnýtingu. Þá verður skoðað hvernig brúa megi bilið milli þeirra sem safna saman þekkingu um ástand vistkerfanna og þeirra sem taka ákvarðanir um hvernig nýta eigi þessi sömu vistkerfi. 

Verkefni sem tvinna saman vísindalegar rannsóknir og þátttökunálganir á sviði vöktunar og sjálfbærrar landnýtingar eru í dag af skornum skammti og mun verkefnið því afla mikilvægrar þekkingar sem mun nýtast áfram á sviði þverfaglegra rannsókna. Auk þess munu niðurstöður verkefnisins nýtast beint inn í GróLindarverkefni Landgræðslunnar, en rannsóknin verður unnin í tengslum við það. Jónína stefnir að sameiginlegri doktorsgráðu frá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og Wageningen háskólanum í Hollandi (WUR). Leiðbeinendahópur Jónínu er sterkur og með breiðan fræðilegan bakgrunn, sem hentar vel þverfaglegu eðli verkefnisins. Þetta eru Dr. Ása L. Aradóttir, prófessor við LbhÍ, Dr. Annemarie van Paassen, dósent við WUR, Dr. Isabel C. Barrio, dósent við LbhÍ og Dr. Bryndís Marteinsdóttir hjá Landgræðslunni.

Jónína er uppalin á sauðfjárbúinu Svalbarði í Þistilfirði og hefur lengi haft mikinn áhuga á landnýtingarmálum og sjálfbærnifræðum. Hún er með BS í líffræði frá Háskóla Íslands og útskrifaðist með MS gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá sama skóla árið 2015. Í meistararitgerð sinni kannaði hún árangur af landnýtingarþætti gæðastýringar í sauðfjárrækt útfrá reynslu, viðhorfi og væntingum bænda. Hún hefur starfað fyrir Rannsóknastöðina Rif ses. á Raufarhöfn frá árinu 2015, fyrst sem verkefnastjóri en síðar sem forstöðumaður, eða frá því í lok árs 2016. Í starfi sínu hefur hún komið víða við, m.a. séð um skipulag vistkerfisvöktunar, utanumhald og aðstoð við rannsóknarverkefni, kynningarmál og samskipti, fræðslumál, stefnumótun, fjármögnun o.fl. 

Við bjóðum Jónínu velkomna til starfa og verður spennandi að fylgjast með framvindu vinnunnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is