Dr. Sigríður Björnsdóttir gestaprófessor við LbhÍ

Undirritaður hefur verið gestaprófessorssamningur við dr. Sigríði Björnsdóttur. Sigríður er dýralæknir að mennt frá Dýralæknaháskóla Noregs og með doktorsgráðu frá Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar á sviði myndgreiningar og faraldsfræði. Viðfangsefni doktorsverkefnis hennar var slitgigt í flötu liðum hækilsins (spatt) í íslenska hestinum. Hún starfar sem dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun. Samhliða því starfi hefur Sigríður stundað rannsóknir á heilbrigði og velferð íslenska hestsins. Hún hefur, sem fyrsti höfundur eða meðhöfundur, birt um 30 ritrýndar vísindagreinar sem spanna breitt fræðasvið: slitgigt, sumarexem, smitsjúkdóma, velferð hestsins í keppni, hæfileika og byggingu hestsins, hreyfieðli/helti, erfðir og þroska. Alls eru 450 tilvitnanir skráðar í verk hennar.

Sigríður hefur verið virk í leiðbeiningu stúdenta bæði í grunn- og framhaldsnámi. Tveir doktorsnemar hafa lokið námi sínu undir leiðsögn Sigríðar og tveir til viðbótar eru á þeirri vegferð.

Sigríður hefur sterk tengsl við dýralækna- og landbúnaðarháskóla, sem og rannsóknastofnanir á því sviði á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar. Hún hefur komið að skipulagningu fjölda alþjóðlegra rástefna og vinnufunda og hefur um árabil verið einn af ritstjórum ActaVeterinaria Scandinavica.

Við bjóðum Sigríði innilega velkomna til starfa.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is