Eru litlir og meðalstórir bæir á Norðurlöndunum næsta búsetubylgja fólks með breytta sýn á lífsgæði?

Ráðstefna um litla og meðalstóra bæi á Norðurlöndunum var haldin í Borgarnesi á dögunum en Helena Guttormsdóttir lektor við LBHÍ skipulagði hana. Ráðstefnan er hluti af verkefninu Attractive towns. Green redevelopment, competitive Nordic urban regions

Verkefnið sem á íslensku heiti „Aðlandi bæir - umhverfisvæn endurnýjun og samkeppnishæfni í norrænum þéttbýlum. Bæir sem veita fólki góð lífsskilyrði“ fór af stað árið 2017 undir formennsku Norðmanna í Norrænu ráherranefndinni. Opið var fyrir öll sveitarfélög á Norðurlöndunum að sækja um og mælst var til tengingar við utanaðkomandi stofnanir eða háskóla. Í umsókninni þurfti að skilgreina styrk – og veikleika svæðanna með fræðilegri vísun. 

Átján sveitarfélög voru valin úr umsækjendum, þar af fjögur frá Íslandi; Akranes, Mosfellsbær, Fljótdalshérað og Hornafjörður. Á Hornafirði voru Nýheimar samstarfsaðili en umhverfisskipulagsbraut Landbúnaðarháskóla Íslands var samstarfaðili í umsókn Akraneskaupstaðar, en þar höfðu verið unnin mörg fræðileg verkefni sem tengjast ellefta sjálfbærnimarkmiði Sameinuðu Þjóðanna: Sjálfbærar borgir og samfélög. Ástæða þess að þessi áhersla var valin af hálfu Norðmanna er að margir litlir og meðalstórir bæir á Norðurlöndum standa frammi fyrir svipuðum vandamálum. Miðbæjarsvæði eru illa skilgreind, íbúar keyra úr bæjunum til að sækja vinnu og mannlíf og innviði þafnast styrkingar. Á sama tíma eru mikil sóknarfæri; hátæknilausnir hvað varðar fjarvinnslu, mikil tenging við náttúrulegt umhverfi, matvælaframleiðslu og einfaldari lífsstíl ásamt því að almennt upplifa íbúar mikið öryggi. Helena og SIndri Birgisson, umhverfisstjóri Akraneskaupstaðar hafa leitt verkefnið fyrir Akranes, en Bæjunum var skipt í eftirfarandi hópa eftir því hvernig þeir skilgreindu styrk- og veikleika sína: 

  • Lundur, Viborg, Hamar, Vaasa.
  • Narvik, Ystad, Hornafjörður, Sønderborg
  • Akranes, Växjö, Salo, Middelfart
  • Pori, Innherredsbyen Levanger, Steinkjer og Verdal, Mosfellsbær/Fljótsdalshérað.

Verkefnið greiddi allan ferðakostnað og uppihald á þrjá hópfundi og þrjá stóra fundi allra fjögurra hópanna. Að auki réð verkefnið SWECO ráðgjafafyrirtæki til að rýna í og aðstoða og er væntanleg stór skýrsla um þá vinnu. Þá voru um þrjár milljónir danskra króna í boði fyrir ýmis verkefni sem vinnuhóparnir unnu að og fór LBHÍ og Akranes m.a. í tvær námsferðir til Kaupmannahafnar og Amsterdam þar sem áhersla var á að skoða breytingarsvæði, atvinnuuppbyggingu og sjálfbærar lausnir.

Hver var sameiginleg reynsla íslensku fulltrúanna af vinnu með hinum Norðurlandabæjunum

Margt ólíkt sem tengist stærðarmun. Afar lítið um mælingar (indicators) til að vísa í hjá okkur [á Íslandi]. Verksvið og verkferlar afmarkaðri og skýrari í hinum löndunum. Skipulags- og umhverfismál risastórir málaflokkar, Íslendingarnir með fjölda verkefnahatta í sinni vinnu. Íslendingar kraftmiklir, geta leyst fjölbreytt verkefni og á met tíma. 

Ágóði verkefnisins og samlegðaráhrif til framtíðar

Þrjú nýsköpunarverkefni hafa verið gerð innan hópsins sem Akranes er í, í tengslum við verkefnið, tvö á Akranesi sem Ása Katrín Bjarnadóttir og Rebekka Guðmundsdóttir nemendur á umhverfisskipulagsbraut LBHÍ unnu og eitt í Salo Finnlandi unnið af Aada Willberg Graduate student /Economics. Næst á dagskrá hjá hópnum er að gefa út ráðgjafahefti (Liveability toolbox) sem nýtast á bæði námsmönnum LBHÍ og umhverfis- og skipulagssviði Akraneskaupstaðar og fleirum sveitarfélögum í samráði og greiningu á svæðum. Mikil styrking á faglegri umræðu og tengslaneti er innan alls hópsins og gott samtal um samnorrænar rætur og tækifæri til að kynnast sérkennum svæða og lausnum sem er hæpið að gerst hefði við aðrar aðstæður. Myndst hefur einstakur og traustur vinaskapur innan hópsins sem er ákveðinn í að vinna áfram saman og sækja fram. 

Efling tengslanets

Fyrir ráðstefnuna kom út „Network of public spaces“ ensk útgáfa bókar Ellen Huusas landslagsarkitekts og fyrrum starfsmnns Snöhetta. Í bókinni eru dæmi frá þátttökubæjum, m.a. frá Akratorgi, vitasvæðinu og Guðlaugu og verður hún til að mynda nýtt sem kennsluefni við skólann. Ellen er nú orðin dósent við NMBU, Norska háskólanum á sviði líf- og umhverfisfræða í Ási og fundaði nýverið með Kristínu Pétursdóttur landslagsarkitekt, lektor og brautarstjóra umhverfisskipulagsbrautar um frekara samstarf milli skólanna. 

Helena Guttormsdóttir lektor LBHÍ og Sindri Birgisson umhverfisstjóri Akraneskaupstaðar hafa leitt verkefið og verður á næstunni lögð áhersla á að láta það seitla meira til samfélagsins og háskólans. "Verkefnið hefði ekki getað komið á betri tíma. Heimurinn er að vakna – Greta Turnberg og fleiri hjálpa okkur. Nú þurfum við bara að halda áfram að vera sögumenn og fá pólitíkina til að trúa jafn sterkt og við á að raunverulegra breytinga er þörf.“ Segir Helena að lokum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is