Haustþing umhverfisskipulagsbrautar og erasmus skiptinema

Hið árlega haustþing umhverfisskipulagsbrautar og skiptinema við skólann var haldið fjórtánda nóvember síðastliðinn í Ásgarði, aðalbyggingu skólans á Hvanneyri. Að þessu sinni var yfirskriftin Global - Local og var stiklað á stóru í starfi brautarinnar á árinu og verkefni kynnt. Umhverfisskipulag er grunnnám í landslagsarkitektúr og opnar á möguleika á framhaldsnámi í landslangsarkitektúr eða skipulagsfræði.

Kristín Pétursdóttir brautarstjóri og lektor ásamt Helenu Guttormsdóttur lektor settu þingið og fóru yfir starf ársins og stýrðu dagskrá kvöldsins. Salóme Rósa Þorkellsdóttir nemandi á þriðja ári í umhverfisskipulagi kynnti því næst verkefnið Torg í biðstöðu sem hún og fleiri nemendur tóku þátt í síðastliðið sumar á vegum Reykjarvíkurborgar. Torg í biðstöðu snýst um að lífvæða og endurskilgreina ákveðin svæði með tímabundnum lausnum og markmiðið er að búa til skemmtilegri svæði, hampa því óvænta og vera vettvangur róttækra tilrauna með borgarumhverfið. Annar umsjónamanna verkefnisins er Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður en hún stundaði nám á umhverfissskipulagsbraut og kenndi við skólann áður en hún færði sig yfir til Reykjarvíkurborgar.  Svæðið sem Salóme vann aðallega að var Miðbakkinn þar sem settir voru upp ýmsir vellir til að stunda afþreyingu eins og bretti, hjól og körfubolta ásamt svæði fyrir matarvagna og var svæðið vel nýtt af íbúum og gestum borgarinnar. Fleiri verkefni eins og útibekkir við kaffihús í vesturbæ og leiksvæði í Elliðarárdal voru einnig unnin af nemendum okkar í samstarfi við aðra og dæmi um verkefni sem eru nú eru fastur hluti af borgarlandslaginu.

Gestafyrirlesari að þessu sinni var Hrafnkell Proppé svæðisskipulagsstjóri samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og kynnti hann borgarlínuna sem er hraðvagnakerfi á hjólum og er næsta skref í bætingu almenningssamgangna í borginni. Hrafnkell fór yfir þróun verkefnisins og stöðu þess sem og framtíðarsýn. Hrafnkell er einnig brautskráður nemandi af umhverfisskipulagsbraut og er virkilega gaman að fylgjast með störfum fyrrverandi nemenda og verkefnum sem þeir vinna að.

Haustþingið er einnig tilenkað erlendum nemendum við skólann sem koma hér í skiptinám á vegum Erasmus plus og kynntu þau skólana sína og námsmöguleika þar. Í haust hafa verið hjá okkur 7 nemendur frá Þýskalandi, Tékklandi, Eistlandi og Frakklandi. Þau hafa búið á nemendagörðum á Hvanneyri og stundað nám við ýmsar brautir skólans. Þau kynntu skólana sína en Tvö þeirra Max Romes og Sarah Ehrler stunda nám í háskólanum í Freiburg í þýskalandi. Davina Dietrich er einnig frá þýskalandi og stundar nám í Nurtingen (Hochshule fur Wirtschaft und Umwelt). Camille Lévêque kemur Frakklandi og stundar nám í Bordeaux. Frá Eistlandi koma Helen Erik og Mari-Liis Hindre og eru í Eistneska lífsvísinda háskólanum og báðar í landslagsarkitektúr. Að lokum kynnti Hynek-Martin Krčma Tékkneska háskóla lífvísinda í Prag og stundar hann einnig nám í Landslagsarkitektúr.

Skiptinemarnir héldu einnig sýningu á myndum frá upplifun sinni hér á Íslandi og kenndi þar ýmissa grasa. Alþjóðafulltrúi skólans Christian Schultze kynnti svo möguleika nemenda til að sækja sér reynslu erlendis í námi eða starfi og að loknu þingi var boðið uppá alþjóðlegt hlaðborð sem nemendur sáu um. Vel tókst til og var áhugavert að fylgjast með fjölbreyttu starfi brautarinnar og upplifun skiptinemanna á móti.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is