Heimsráðstefna Alþjóðlega vistheimtarfélagsins

Nokkrir starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands Hafdís Hanna Ægisdóttir, Halldóra Traustadóttir og Snorri Baldursson sóttu heimsráðstefnu Alþjóðlega vistheimtarfélagsins (Society for Ecological Restoration, SER) í Höfðaborg, Suður-Afríku á dögunum.

Vistheimt er vaxandi fræðigrein sem lýtur að því að því að endurheimta hnignuð eða óvirk vistkerfi án mikilsháttar inngripa svo sem jarðvinnslu, áburðargjafar og aðflutningi tegunda. Markmiði er frekar að „hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálfri“ við að ná aftur fyrri heilsu. Stefnt er að því að endurheimta kerfið verði sambærilegt því sem var fyrir röskunina, að það geti staðið óstutt án utanaðkomandi hjálpar, svo sem áburðargjafar, illgresiseyðingar og vökvunar, og að það geti þróast áfram á sambærilegan hátt og landið í kring. Landgræðsla, sem miðar að endurreisn þess graslendis eða náttúruskógar sem fyrir var og endurheimt votlendis með því að fylla í framræsluskurði, eru dæmi um vistheimt.

Í nýlegri skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) er sjónum bent að þætti land- og gróðureyðingar í uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda. Ein helsta niðurstaða skýrslunnar er sú að um fjórðungur (24%) allrar losunar mannkyns á gróðurhúsalofttegundum stafi af eyðingu gróðurs og hnignun landgæða. Hér á landi er þetta hlutfall miklu hærra eða um 66% samkvæmt besta mati.

Allt að helmingur mannkyns, einkum í Afríku, Asíu og Rómönsku-Ameríku, býr á svæðum þar sem landhnignun er mikið vandamál. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) áætlar að illa farið land á jörðinni þeki um 20 milljónir ferkílómetra, landsvæði sem er 200 sinnum stærra en Ísland. Vistheimt er lykilatriði í snúa óheillaþróun landeyðingar við og ná fram markmiðum SÞ um sjálfbæra þróun. Vistheimt er líka þungamiðja annarra helstu samninga SÞ sem snerta náttúru- og umhverfisvernd, þ.e. Loftslagssamningsins, Samnings um vernd líffræðilegarar fjölbreytni og Samnings um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun.

Ráðstefnan í Höfðaborg fagnaði m.a. þeirri ákvörðun Sameinuðu þjóðana að gera næsta áratug að Áratugi vistheimtar 2021–2030. Á tíu ára tímabili er stefnt að því að endurheimta a.m.k. 3,5 milljónir ferkílómetra af skógum og graslendi (samsvarar stærð Indlands) og þar með stórbæta lífsskilyrði íbúa sem byggja þessi svæði, ekki síst með tilliti til fæðuöryggis og aðgengis að heilnæmu, fersku vatni. Landgræðsluskólinn var með sérstaka málstofu á ráðstefnunni sem fjallaði um vistheimt í Afríku til að bæta lífsviðurværi fólks með sérstakri áherlsu á þjálfun. Í málstofunni tóku þátt fyrrum nemar Landgræðsluskólans auk erlendra samstarfsaðila. Auk þess kynnti Landgræðsluskólinn netnámskeið (MOOCs) á veggspjaldi sem skólinn hefur þróað með samstarfssaðilum í ENABLE verkefninu. Alls tóku 15 fyrrum nemar Landgræðsluskólanum þátt í ráðstefnunni og kynntu rannsóknir sínar í erindum eða á veggspjöldum. Störf þeirra og málflutningur var góður vitnisburður um mikilvægi Landgræðsluskólans.

Fyrir og eftir ráðstefnuna fengu starfsmenn LbhÍ tækifæri til að skoða sig aðeins um í nágrenni Höfðaborgar og fengu lítilsháttar forsmekk að magnaðri náttúru Suður Afríku, eins og sjá má af meðfylgjandi myndum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is