IFLA vottun á námi í landslagsarkitektúr

Hin Alþjóðlegu samtök landslagsarkitekta, Evrópa, IFLA Europe, hafa nú veitt brautinni Landslagsarkitektúr Bs gæðavottun á náminu. Margarida Cancela d‘Abreu, varaforseti menntanefndar IFLA Europe sendi bréf þess efnis sem staðfestir að námið uppfyllir kröfur félagsins til grunnnáms í Landslagsarkitektúr.

Í upphafi árs staðfesti menntamálaráðuneytið breytingu á nafni brautarinnar í Landslagsarkitektúr sem áður hét Umhverfisskipulag. Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA hvatti til nafnabreytingarinnar.

Kristín Pétursdóttir brautarstjóri landslagsarkitektúrs segir „Þetta er mikilvægur gæðastimpill fyrir námið og framtíð hennar. Nafnabreytingin hefur einnig haft mikið að segja fyrir okkur. Námið er mun sýnilegra. Nemendum fjölgaði mikið í haust og hefur starfið farið virkilega vel af stað. Við upplifum einstakan áhuga frá sérfræðingum úr atvinnulífinu til að koma á Hvanneyri og sinna gestakennslu sem er að sjálfsögðu mikill stuðningur við starfið.

Þá höfum við fengið til starfa með okkur Dr. Samaneh Nickayin, landslagsarkitekt frá Íran sem hefur reynslu bæði úr hinum akademíska heimi og af hönnunarverkefnum af stofum. Hún hefur starfað víða um heim en að mestu frá Róm á Ítalíu. Nú erum við að einblína á að byggja upp rannsóknarstarf brautarinnar innan landslagsarkitektúrs sem er mikilvægt fyrir þróun fagsins. Það eru spennandi tímar framundan og hvetjandi að finna áhugann á náminu frá samfélaginu“.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is