Innleiðing jaflaunavottunar

Landbúnaðarháskóli Íslands vinnur nú að jafnlaunavottun og hefur háskólaráð nú þegar samþykkt jafnlaunastefnu fyrir skólann. Vinna við innleiðingu jafnlaunakerfis hefur staðið frá því í haust með aðkomu jafnréttisfulltrúa og fleiri aðila innan skólans.  Fyrsta stigi vottunarferlis er lokið og stefnt er að því að vottun hljótist á vormánuðum.

Markmið Landbúnaðarháskóla Íslands er að búa starfsfólki sínu góð og sanngjörn launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu svo að háskólinn sé samkeppnishæfur um að ráða til sín og halda hæfu starfsfólki.

Jafnlaunastefnan miðar að því að tryggja öllu starfsfólki sínu jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Markmiðið er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls og menntun, reynsla og viðhorf kvenna jafnt sem karla séu metin að verðleikum. Þá skal þess sérstaklega gætt að starfsfólki sé ekki mismunað í launum vegna kynferðis eða annarra ómálefnalegra ástæðna (svo sem trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar, kyngervis, aldurs eða stöðu).

Háskólaráð og rektor bera, ábyrgð á jafnlaunastefnu Landbúnaðarháskóla Íslands, að jafnlaunakerfi skólans byggi á jafnlaunastefnu og starfsmannastefnu og að lagalegum kröfum sem tengist jafnlaunakerfinu sé framfylgt. Mannauðs- og gæðastjóri, í umboði framangreindra aðila, ber ábyrgð á innleiðingu, framfylgni og viðhaldi jafnlaunakerfis í samræmi við ÍST 85 staðalinn, og skal m.a. sjá til þess að árleg innri rýni fari fram fyrir lok hvers almanaksárs.

Jafnlaunastefna þessi er órjúfanlegur hluti af launastefnu Landbúnaðarháskóla Íslands.

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur um árabil haft virka jafnréttisáætlun og er jafnlaunavottun góð viðbót við þá vegferð að stuðla áfram að jafnræði og jafnrétti.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is