Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði í BÚFRÆÐI og GARÐYRKJU

Umsækjandi þarf að hafa lokið þremur til fjórum önnum í framhaldsskóla og vera orðinn 18 ára. Um nemendur sem koma inn gegnum raunfærnimat gilda þær reglur sem raunfærnimatsferillinn innifelur. 
Einnig er heimilt að taka inn nemendur sem orðnir eru 25 ára gamlir og hafa reynslu úr viðkomandi faggrein en eru ekki með formlega menntun á framhaldsskólastigi. 

Umsækjandi þarf að hafa lokið að lágmarki eftirtöldum áföngum í almennum framhaldsskóla (alls 49 fein): 

 • Íslenska á öðru hæfniþrepi, alls 10 fein
 • Enska á öðru hæfniþrepi, alls 10 fein
 • Stærðfræði á öðru hæfniþrepi, alls 5 fein
 • Danska 5 fein
 • Efnafræði – nemendur þurfa að hafa lokið almennri efnafræði á fyrsta hæfniþrepi (5 fein) og æskilegt að hafa lokið lífrænni efnafræði.
 • Almenn líffræði á fyrsta hæfniþrepi 5 fein
 • Bókfærsla á fyrsta hæfniþrepi 4 fein
 • Gert er ráð fyrir að nemendur séu vel tölvufærir og hafi góð tök á námstækni.

Æskilegt er að nemandi hafi gilt skyndihjálparskírteini. 

Heimilt er að meta reynslu úr atvinnulífi til hluta fornáms á framhaldsskólastigi og er það skoðað í hverju tilviki. Umsókn um skólavist í búfræði skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla og upplýsingar um starfsreynslu úr landbúnaði. Umsókn um skólavist í garðyrkju skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla, vottorð um verklegt nám og ósk um samþykki verknámsstaðar.

Gert er ráð fyrir að umsækjandi í búfræði hafi að minnsta kosti eins árs reynslu af störfum úr landbúnaði sem skólinn viðurkennir, áður en bóknám hefst.

Nemendur sem koma inn í fjarnám í garðyrkju þurfa að vera orðnir 25 ára gamlir, vera starfandi í faginu og  búsettir fjarri skólanum. 

Gert er ráð fyrir að umsækjandi í garðyrkju hafi lokið 12 vikna verknámi á verknámsstað sem skólinn viðurkennir, áður en bóknám hefst.

Gert er ráð fyrir því að nemendur sem innritast á skrúðgarðyrkjubraut séu komnir á námssamning hjá viðurkenndum skrúðgarðyrkjumeistara og hafi lokið 12 vikna hluta verknáms áður en þeir hefja bóknám.  Umsókn um skólavist skulu fylgja, auk þess sem fyrr getur, námssamningur í skrúðgarðyrkju.

Inntökuskilyrði í GRUNNNÁM / FRAMHALDSNÁM

Nemendur sem sækja um grunnnám þurfa að hafa stúdentspróf eða jafngilt próf. Umsækjendur í Landslagsarkitektúr þurfa að skila rafrænni möppu/portfolio með umsókn:

Mappa/portfolio:

Markmiðið með möppunni er að nemandi endurspegli persónulega sýn á landslagsarkitektur. Úr þessu á að vera hægt að meta hæfileika nemanda til frumlegrar sköpunar og framsetningar á hugmyndum sínum.
Verkin í möppunni þurfa ekki að vera fullgerð og geta innihaldið, hugmyndir, texta, skissur og teikningar og tæknilegar lausnir svo eitthvað sé nefnt.
Nemandi skal hafa unnið að öllum verkunum og ef um hópastarf er að ræða skal það koma fram og það þarf að vera ljóst hvert hlutverk umsækjandans var.

Nemendur sem sækja um framhaldsnám þurfa að hafa lokið BA eða BSc prófi eða sambærilegu þriggja ára háskólanámi með fyrstu einkunn (7,25).

Með umsókn skulu eftirfarandi gögn fylgja:

 • Afrit af prófskírteinum
 • Ferilskrá (CV)
 • Markmið
 • Drög að námsáætlun undirrituð af nemanda og leiðbeinanda (Einstaklingsmiðað rannsóknatengt MS nám)
 • Afrit af CV væntanlegs aðalleiðbeinanda, starfi hann utan LbhÍ (Einstaklingsmiðað rannsóknatengt MS nám)

Sjá nánar í reglum um meistaranám

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is