Landbúnaðarháskóli Íslands

Öflugur grunnur

Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) er reistur á grunni öflugrar rannsóknastofnunar og tveggja gróinna menntastofnana á landbúnaðarsviði, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala), Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins, Reykjum í Ölfusi. LbhÍ tók til starfa í upphafi árs 2005.

Skóli lífs og lands

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur mikla sérstöðu meðal háskóla hérlendis. Þessi sérstaða felst fyrst og síðast í viðfangsefni skólans sem er náttúra Íslands - nýting, viðhald og verndun. Viðfangsefni kennslu og rannsókna við LbhÍ er því landið og það sem á því lifir. Á stundum er sagt að LbhÍ sé Skóli lífs og lands sem er réttnefni.

Sérstaða

Landbúnaðarháskóli Íslands er lítill háskóli sem einnig markar honum sérstöðu. Andrúmsloft kennslunnar og félagslífsins verður þar af leiðandi mun persónulegra en ella enda mikið um hópavinnu og sameiginlega úrlausn verkefna. Námsbrautir skólans eru einungis í boði við LbhÍ en brautirnar eru hvort tveggja á starfsmennta- og á háskólasviði og er mikil samlegð á milli skólastiganna.

Starfsstöðvar

Nám á háskólabrautum og í búfræði er kennt á Hvanneyri í Borgarfirði og á Keldnaholti. Nám á garðyrkjubrautum er kennt á Reykjum í Ölfusi, skólinn er staðsettur fyrir ofan sundlaugina í Hveragerði.

Fagdeildir

Fagbrautum er nú skipt á þrjár fagdeildir sem bera heitin Ræktun & fæða, Náttúra & skógur og Skipulag & hönnun. Á hverri deild er boðið upp á starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, grunnnám (BS) og framhaldsnám (MS og PhD). Lögð er áhersla á að efla rannsóknir og nýsköpun til að styðja við kennslu á öllum námsstigum. Deildarforsetar voru valdir til forystu fyrir hverja deild og með þeim í deildarráði sitja brautarstjórar sem tryggir að allar brautir komi að stjórnun, sem og fulltrúar nemenda.

Fagdeildirnar mynda saman fræðasvið skólans og rektor, deildarforsetar og starfsmenntanámsstjóri mynda stjórn þess. Til að styðja við fagdeildir er stoðþjónusta skólans sem nú skiptist í rektorsskrifstofu, rekstrarsvið, rannsóknir og alþjóðasamskipti og kennsluskrifstofu. Stoðþjónusta skólans hefur verið efld með nýjum mannauðs- og gæðastjóra og upplýsinga- og skjalastjóra sem tóku til starfa í byrjun ársins. Rektor stýrir stjórnsýslu skólans ásamt skrifstofustjóra rektorsskrifstofu, rekstrarstjóra, rannsókna- og alþjóðafulltrúa og kennslustjóra. Skipurit má finna hér

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is