Landgræðsluskólinn

Landgræðsluskólinn varð formlega hluti af neti Háskóla Sameinuðu Þjóðanna í febrúar 2010 þegar skrifað var undir samstarfssamning þar að lútandi.

Skólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins og er markmið hans að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum sem glíma við jarðvegseyðingu, eyðimerkurmyndun og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga. Frá því Landgræðsluskólinn hóf störf sem tilraunaverkefni árið 2007 hafa yfir 100 manns frá 12 löndum útskrifast frá skólanum, þar af 101 frá því að skólinn varð formlega hluti af Háskóla SÞ.

Nemar Landgræðsluskólans koma frá þróunarlöndum sem standa frammi fyrir landeyðingu og eyðimerkurmyndun. Þau eru öll starfsmenn samstarfsstofnana Landgræðsluskólans í heimalöndum sínum þar sem þau vinna að landgræðslu, umhverfisstjórnun og/eða sjálfbærri landnýtingu. Samstarfsstofnanir Landgræðsluskólans eru einkum ráðuneyti, umhverfisstofnanir og héraðsstjórnir, en einnig háskólar og aðrar rannsóknarstofnanir. Náminu líkur með kynningu á rannsóknarverkefnum sem nemarnir vinna að á meðan þeir dvelja hér á landi. Sex mánaða námið er fjármagnað af utanríkisráðuneytinu og er hluti af þróunarsamvinnu Íslands sem er ein grunnstoðin í utanríkisstefnu Íslands.

Mestur hluti kennslunnar fer fram í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti en nemarnir dvelja einnig drjúgan hluta sumarsins í höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Vefsíða Landgræðsluskólans (enska) 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is