Leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni til ræktunar

Í byrjun mars gaf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið út leiðbeiningar um afmörkun og flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni þess til ræktunar.

Leiðbeiningarnar unnu: Guðni Þ. Þorvaldsson prófessor við LbhÍ, Guðrún Lára Sveinsdóttir frá Skipulagsstofnun og Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur en hún var fulltrúi ráðuneytisins og formaður vinnuhópsins.

Á hverju ári fer mikið af góðu ræktunarlandi undir vegi, byggingar og önnur mannvirki víða um heim. Ræktanlegt land er takmörkuð auðlind sem þarf að fara vel með. Í því sambandi er mikilvægt að afmarka þetta land, flokka og kortleggja. Það auðveldar yfirvöldum og öðrum sem koma að skipulagsmálum að sneiða hjá besta ræktunarlandinu við framkvæmdir og beina mannvirkjum inn á annað land ef þess er kostur.

Höfuðáherslan var á afmörkun lands sem hentar til akuryrkju. Þá þarf jarðvegur að vera það djúpur að grjót eða klöpp hindri ekki plægingu (a.m.k. 25 cm), landið þarf að vera þurrt eða auðvelt í framræslu, jarðvegur má ekki vera grófari en svo að hægt sé með góðu móti að vinna hann með vélum, landið má ekki vera ósléttara eða mishæðóttara en svo að hægt sé að vinna það með vélum og landið má ekki vera í miklum halla (< 12%). Flokkunin miðast við allt land neðan 300 m hæðarlínu.

Land sem uppfyllir þessi skilyrði telst hæft til akuryrkju og er flokkað í þrjá gæðaflokka. Land neðan 300 m, sem ekki uppfyllir þessi skilyrði, fer í fjórða flokkinn. Grunnþættir við flokkunina voru jarðvegsgerð og jarðvegsdýpt. Þykkur móajarðvegur og steinefnaríkar mýrar fara t.d. í 1. gæðaflokk ef aðrir þættir draga það ekki niður. Þættir sem koma til frádráttar eru t.d. vaxandi landhalli, vandamál við þurrkun, ójöfnur í landi, gróf möl og aukin hæð yfir sjó. Eftir því sem frádráttarliðirnir eru fleiri og alvarlegri fer landið í lakari flokk.

Leiðbeiningarnar má nálgast á vef Stjórnarráðs og í hlekk hér

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is