Meistaravörn Guðrúnar Bjargar Egilsdóttur í búvísindum

Guðrún Björg Egilsdóttir ver meistararitgerð sína í búvísindum við deild Ræktunar og fæðu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, og nefnist hún upp á íslensku „Áhrif umhverfis á útskilnað niturs í kúamjólk“ á íslensku en á ensku útleggst tiltilinn „Environmental factors associated with urea excretion in milk in Icelandic dairy cows“.

Leiðbeinendur Guðrúnar eru ‏þeir Þóroddur Sveinsson, lektor og deildarforseti Ræktunar og fæðu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Jóhannes Sveinbjörnsson dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er doktor Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri hjá Mjólkursamsölunni.

Vörnin fer fram mánudaginn 16. ágúst 2021 kl. 13:00 og verður streymt í gegnum Zoom fjarfundarbúnað. Öllum áhugasömum er velkomið að fylgjast með henni þannig og má finna hlekk á fjarvörnina hér. Við biðjum þá sem vilja tengja sig vinsamlegast að gera það fyrir kl. 12:50. Jafnframt biðjum við alla sem tengjast í gegnum fjarfundarbúnað að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum í lok varnarinnar. Vörnin fer fram á íslensku.

Ágrip ritgerðarinnar

Áhrif umhverfis á útskilnað niturs (úrefnisstyrk) í mjólk íslenskra kúa hafa ekki áður verið sérstaklega rannsökuð á kerfisbundinn hátt. Samband á milli úrefnisstyrks og annarra innihaldsefna í mjólk íslenskra kúa er einnig óþekkt sem og hvaða áhrif aukinn úrefnisstyrkur hefur á nyt, frjósemi og fjölda burða (endingu) íslenskra kúa. Þar sem erlendar rannsóknir gefa ekki einhliða niðurstöður og breytileiki er í úrefnisstyrk á milli kúakynja, þá er erfitt að heimfæra niðurstöður erlendra rannsókna á úrefnisstyrk yfir á íslenskar kýr.

Rannsókn þessi leitaðist við að svara því hver áhrif umhverfis eru á úrefnisstyrk í íslenskri kúamjólk og hvernig nýta megi niðurstöður úrefnismælinga sem bústjórnartæki. Notast var við 49.464 einstaklingsmælingar af 6.323 mjaltaskeiðum (afurðamælingar) frá 3.530 kúm af 33 búum við úrvinnslu gagna. Auk þess var spurningalisti lagður fyrir bændur og niðurstöður hans notaðar til að leggja mat á hvað veldur breytileika á milli búa. Meðalúrefnisstyrkur í mjólk íslenskra kúa var 6,2±1,4 mmól/l en hann breyttist eftir stöðu á mjaltaskeiði (DIM), eftir árstíma og með auknum fjölda mjaltaskeiða (aldri).

Marktækt veikt ólínulegt samband var á milli úrefnisstyrks og annarra innihaldsefna í mjólk en jákvætt samband var á milli úrefnisstyrks og nytar sem og bils á milli burða. Úrefnisstyrkur hafði ekki áhrif á endingu kúa. Breytileiki á úrefnisstyrk á milli kúa innan búa skýrist líklega af getu kúnna til að innbyrða fóður og jafna sig á neikvæðu orku- og próteinjafnvægi í upphafi mjaltaskeiðs. Breytileika á úrefnisstyrk á milli kúabúa mátti einna helst rekja til próteinstyrks í gróffóðri. Sterkt jákvætt samband var á milli úrefnisstyrks í mjólk og próteinsstyrks í gróffóðri. Próteinmagn í kjarnfóðri skýrði til viðbótar við próteinmagn í gróffóðri lítinn breytileika á úrefnisstyrk í mjólk. Nota má efnamælingar á úrefnisstyrk í mjólk sem bústjórnartæki en varast skal að draga of miklar ályktanir út frá einu sýni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is