Meistaravörn Jóns Hilmars Kristjánssonar í skógfræði

Jón Hilmar Kristjánsson ver meistararitgerð sína í skógfræði við Náttúru og skógadeild Landbúnaðarháskóla Íslands, og nefnist hún „Áhrif blöndunar trjátegunda og gróðursetningaraðferða á lifun og vöxt 15 ára skógar á Suðurlandi“. Leiðbeinendur Jóns Hilmars voru dr. Páll Sigurðsson hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og dr. Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor í skógfræði hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er dr. Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri samhæfingarsviðs hjá Skógræktinni.

Í ljósi aðstæðna fer vörnin fram á internetinu, í gegnum Zoom fjarfundabúnað, kl. 13 föstudaginn 27. mars 2020.

Allir áhugasamir eru velkomnir að tengja sig inn á vörnina, og er hlekkurinn á zoomið þessi: https://eu01web.zoom.us/j/531591313 . Við biðjum þá sem vilja tengja sig að hafa gert það í síðsta lagi kl. 12:50. Jafnframt eru þeir beðnir að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum „úr sal“ í lok varnarinnar. Vörnin fer fram á íslensku. 

Ágrip ritgerðarinnar:

Blöndun trjátegunda í nytjaskógrækt getur aukið ræktunaröryggi þegar kemur að loftslagsbreytingum og einnig getur hún hún mögulega aukið efnahagslegt öryggi í timburframleiðslu. Áhrif tegundablöndu á vöxt trjáa í skógi, framleiðni og kolefnisbindingu hafa verið rannsökuð í mun meira mæli á öðrum Norðurlöndum en á Íslandi. Það er þó mikilvægt að skoða áhrif tegundablöndu við íslenskar aðstæður vegna þess að hér eru bæði jarðvegsskilyrði og veðurfar með öðru móti en gengur og gerist annarsstaðar og á Íslandi er ræktaðar tegundablöndur sem sjaldnast eru ræktaðar í öðrum löndum.

Tilraun sú sem mæld var og fjallað er um í þessari ritgerð (LT-verkefnið) er fyrsta tilraun  hér á landi með trjátegundablöndu í stórum samfelldum reitum (1/2 ha) í blokkum sem endurteknar voru við sömu jarðvegsskilyrði. Í Gunnarsholti á Rangárvöllum voru borin saman birki (Betula pubescens Ehrh.), sitkagreni (Picea sitchensis (Bong.) Carr.), stafafura (Pinus contorta Douglas) og alaskaösp (Populus trichocarpa Torr. & A. Gray ex. Hook.). Fyrir utan lerki (Larix sp.) eru þetta fjórar mikilvægustu trjátegundirnar í skógrækt á Íslandi. Tegundirnar voru ýmist ræktaðar einar sér, eða í 50% eða 25% blöndu með sitkagreni.

Fyrsta markmið rannsóknarinnar var að endurmeta eldri tilraun 15 árum eftir gróðursetningu. Í henni voru prófaðar mismunandi aðferðir við gróðursetningu.  Annað markmið var að mæla lifun í allri LT-tilrauninni í Gunnarsholti, það þriðja að meta vöxt, framleiðni og bolgæði trjátegundanna og það fjórða að kanna hvort einhver munur væri á lifun, vexti, framleiðni og vaxtarlagi trjáa í tegundablönduðum reitum samanborið við einnar tegundar reiti. Fimmta og síðasta markmiðið var að bera saman allar meðferðir á tveimur mismunandi gróðurlendum, graslendi með þykkum jarðvegi sem var fyrrum tún, og fyrrum örfoka svæði með rýrum og grunnum jarðvegi þar sem sáð var með lúpínu (Lupinus nootkatensis Donn ex. Sims) fyrir 24 árum.

Engin marktæk langtímaáhrif fundust í gróðursetningartilrauninni, nema hvað að jarðvinnsla með gróðursetningarplóg hafði marktæk jákvæð áhrif á lifun og hæðarvöxt allra tegunda miðað við handflekkingu, en jarðvinnsluáhrifin voru einnig martækt meiri í graslendinu en gömlu lúpínubreiðunni.

Heildarlifun í LT-verkefninu á Suðurlandi var 58% og standandi viðarrúmmál var alls 254 m3 bolviðar á 30 ha (birki:gulvíði meðferð ekki tekin með). Birkið var með besta lifun allra tegunda. Alaskaöspin hafði vaxið mest, meira en birki og sitkagreni við 15 ára aldur. Kolefnisbinding var samt jafn mikil í öspinni og birkinu, sem höfðu safnað upp 87% og 85% meira kolefni (C) ofanjarðar en grenið. Það var vegna hærri lifunar í birkinu, þó hvert birkitré væri að jafnaði minna en öspin. Hins vegar hafði grenið betra vaxtarform en hinar tegundirnar. Jákvæð áhrif voru af því að planta trjám í lúpínubreiðu samanborið við graslendi, trén þar uxu að jafnaði 33% hraðar, bundu 1,5 sinnum meira kolefni og sýndu 10% meiri lifun. Hins vegar var munurinn á rúmmálsvexti grenis og birkis ekki marktækur í mismunandi gróðurlendum, aðeins hjá öspinni. Meðal árleg kolefnisbinding í 30 ha skóginum í Gunnarsholti var 7,4 tonn C á ári eða ca. 42 tonn af CO2 á ári. Alls höfðu trén bundið ca. 110 tonn af kolefni eða 404 tonn af COá 13-15 árum frá gróðursetningu.

Fósturaðferðin (þegar alaskavíði var blandað saman við grenið) hafði marktækt jákvæð áhrif á yfirhæðarvöxt sitkagrenis. Hins vegar voru engin önnur jákvæð áhrif af fósturtrjánum. Einu marktæku blönduáhrifin í öðrum meðferðum voru neikvæð hæðarvaxtaráhrif blöndu samanborið við einnar tegundar reiti, óháð trjátegund. Það að engin jákvæð áhrif komu fram af blöndun tegunda 15 árum eftir gróðursetningu gæti breyst þegar lengra líður á vaxtarlotuna og vaxtarrýmið fyllist. Frekari rannsókna er þörf á áhrifum tegundablöndunar á vöxt trjáa og framleiðni skóga hérlendis.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is