Meistaravörn Jónu Kolbrúnar Sigurjónsdóttur

Jóna Kolbrún Sigurjónsdóttir ver meistararitgerð sína í náttúru- og umhverfisfræði við deild Náttúru & Skógar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Þingvellir til framtíðar: Álagsmat í þjóðgarðinum á Þingvöllum“ á íslensku en enskt heiti er „An Assessment of Visitor Pressure at Þingvellir National Park“.

Leiðbeinendur Jónu Kolbrúnar eru Ólafur Árnason forstöðumaður nýsköpunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun, Nathan Reigner aðstoðarprófessor við Penn State háskólann í Bandaríkjunum og Ragnhildur Helga Jónsdóttir aðjúnkt við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Vörnin fer fram miðvikudaginn 8. september 2021 kl. 14. Henni verður streymt í gegnum Zoom fjarfundarbúnað og er öllum frjálst að fylgjast með henni þar. Hlekkur á vörnina er hér. Við biðjum þá sem vilja tengja sig vinsamlega að gera það fyrir kl. 13:50. Jafnframt biðjum við alla sem tengjast í gegnum fjarfundabúnað að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum í lok varnarinnar. Vörnin fer fram á íslensku.

Ágrip

Ferðaþjónusta er stór atvinnugrein á heimsvísu og hefur hún vaxið hratt undanfarna sex áratugi. Þjóðgarðar eru vinsæll áfangastaður ferðamanna. Á Íslandi eru þrír þjóðgarðar og þeirra elstur er þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Þingvellir eru merkur staður fyrir margar sakir en þar var elsta þing í heimi stofnað árið 930 auk þess sem svæðið er einstakt á jarðfræðilega vísu. Þangað koma margir gestir á ári hverju og til þess að bregðast við auknum fjölda gesta hefur mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár á innviðum í þjóðgarðinum. Samhliða því hefur átt sér stað gagnasöfnun, bæði bein og óbein, um notkun gesta á innviðum í þjóðgarðinum. Þar má nefna bílastæði með myndavélakerfi og gönguteljara á fjölförnum stöðum.

Þetta verkefni var tvíþætt: Í fyrri hlutanum voru fyrirliggjandi gögn um notkun gesta á innviðum í þjóðgarðinum á Þingvöllum á tveggja ára tímabili tekin og greind með það að markmiði að kanna hvort hægt sé að nýta fyrirliggjandi upplýsingar um gestakomur og notkun á innviðum til að búa til módel og með því spá fyrir um það hvaða áhrif fjölgun ferðamanna hafi á þolmörk innviða og upplifun gesta. Niðurstöðurnar voru þær að með óbreyttum gögnum gefur greiningin einungis takmarkaða mynd. Greining gagnanna jók hins vegar skilning á því hvað gera þarf varðandi fyrirkomulag og framsetningu við gagnsöfnun og eru gerðar tillögur að því hvernig bæta skuli gögnin til að ná þessu markmiði. Lagt er til að gagnasöfnun í þjóðgarðinum verði bætt á ýmsan hátt og tryggt verði að starfsmenn þjóðgarðsins hafi alltaf aðganga að öllum þeim gögnum sem safnast. Einnig er lagt til að gestakannanir verði gerðar reglulega og niðurstöður þeirra settar saman við fyrirliggjandi gögn. Þannig geta stjórnendur þjóðgarðsins séð á hvaða tímapunkti gestum finnst upplifun þeirra vera síðri en ella.

Hinn hluti verkefnisins var gestakönnun sem hafði það markmið að kanna upplifun gesta í þjóðgarðinum á Þingvöllum á tímum heimsfaraldurs COVID-19. Gestakönnunin var framkvæmd frá 24. ágúst 2020 til 4. október 2020. Veggspjöld með QR-kóða voru hengd upp í þjóðgarðinum og ákveðnar stöðvar voru mannaðar eftir fyrirfram ákveðinni áætlun. Gestir skönnuðu QR-kóðann og voru þannig leiddir inn á spurningakönnun verkefnisins. Alls fengust 298 svör (n=298) og helstu niðurstöður bentu til þess að gestir hafi verið mjög ánægðir með upplifun sína af heimsókn í þjóðgarðinn á umræddu tímabili. Einnig fengust mikilvæg grunngögn um viðhorf gesta til ástands innviða og upplifunar. Könnunina er hægt að endurtaka til að fá betri skilning á þróun ástands og tengja þær upplýsingar við gögn um nýtingu innviða í þjóðgarðinum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is