Meistaravörn Maríu Markúsdóttur

María Markúsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði við deild Skipulags og hönnunar í Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist „Straumvötn í þéttbýli. Staða Glerár og virði fyrir samfélagið á Akureyri.“ á íslensku en á ensku er titillinn „Urban rivers. The value of Glerá river for the municipality of Akureyri.”

Leiðbeinendur eru dr. Bjarki Jóhannesson skipulagsfræðingur og dr. Ása Lovísa Aradóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er Tryggvi Már Ingvarsson deildarstjóri hjá Þjóðskrá Íslands.

Vörnin fer fram föstudaginn 24. september 2021 kl. 14:00 og verður streymt í gegnum Zoom fjarfundabúnað og öllum áhugasömum er velkomið að fylgjast með henni þannig. Hlekkur á fjarvörnina hér.

Við biðjum þá sem vilja tengja sig vinsamlegast að gera það fyrir kl. 13:50. Jafnframt biðjum við alla sem tengjast í gegnum fjarfundabúnað að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum „úr sal“ í lok varnarinnar. Vörnin fer fram á íslensku.

Ágrip

Í þessari rannsókn var leitast við að meta virði þéttbýlisár út frá sjónarhorni umhverfis og samfélags. Rannsóknin beindist að Glerá sem rennur í gegnum þéttbýlið á Akureyri.  Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að skoða landslagseinkenni og landnotkun meðfram Glerá og hins vegar að kanna hagrænt virði árinnar í hugum íbúa á Akureyri.

Svæðum meðfram Glerá var skipt í sjö einkennissvæði og var landslagsgreining unnin fyrir hvert og eitt þeirra. Styrkleikar og þróunartækifæri svæða voru metin með SVÓT greiningu.  Niðurstöður landslagsgreiningar sýndu fram á að landslag meðfram ánni einkenndist almennt af röskuðu yfirborði, umferðargötum og skjólleysi.  Svæðið var almennt vel gróið og áhrifa mannsins í árfarveginum gætti að einhverju leyti á öllu rannsóknarsvæðinu. Niðurstöður SVÓT greiningar sýndu að helstu styrkleikar svæðisins fólust í sýnileika og góðu landfræðilegu aðgengi að ánni og helstu tækifæri fólust í auknu aðgengi íbúa, tengingu grænna svæða og uppbyggingu dvalarsvæða við ána, ásamt breyttri forgangsröðun í ákvarðanatöku varðandi landnotkun.

Jafnframt var spurningakönnun lögð fyrir íbúa á Akureyri þar sem þeir voru spurðir hvort og þá hversu mikið þeir voru reiðubúnir að greiða fyrir tiltekna uppbyggingu á svæðum meðfram Glerá. Niðurstöður þeirrar könnunar sýndu að þátttakendur voru reiðubúnir að greiða að jafnaði tæplega sjö þúsund krónur í eingreiðsluskatt fyrir uppbyggingu sem fólst í auknu aðgengi að svæðum meðfram ánni. Þá sýndu niðurstöður könnunarinnar fram á að um helmingur þátttakenda upplifði gæði umhverfis meðfram Glerá mikil eða framúrskarandi og jafnframt að meirihluti þátttakenda var þeirrar skoðunar að áin skipti Akureyri í tvennt fremur en að hún væri sameiningartákn.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um virði Glerár fyrir samfélagið á Akureyri. Rannsóknin getur nýst skipulagsyfirvöldum við ákvarðanatöku varðandi landnotkun meðfram ánni og skapað grundvöll fyrir áherslubreytingar við skipulagsgerð og jafnvægi milli manngerðs og náttúrulegs landslags meðfram ánni. Þá getur almenningur notið góðs af niðurstöðum rannsóknarinnar með aukinni þekkingu á þeim náttúrugæðum sem til staðar eru í nærumhverfinu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is